Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Þessi kona hafði milljón af einhverfum manni

$
0
0

Murren Leversly vingaðist á Facebook við íslenskan mann sem glímir við einhverfu og geðræna kvilla. Maðurinn hélt að þau ættu í ástarsambandi og fylgdi leiðbeiningum hennar um að millifæra milljón króna á nígeríska bankareikninga. Aðstandendur mannsins þurftu að flytja hann á geðdeild til að stöðva atburðarásina. Velþekkt er að svindl af þessu tagi sé hluti af hluti af skipulagðri glæpastarfsemi.

 

Fleiri Íslendingar virðast vera vinir Murren Leversly á Facebook. Maðurinn er í öngum sínum yfir því að hafa trúað blekkingum hennar. Fréttatíminn ræddi við systur hans sem hefur reynt að rétta hlut hans eftir að upp komst um málið fyrir ári síðan. Hún vill ekki koma fram undir nafni því hún óttast að aðrir gætu notfært sér bága stöðu bróður hennar.

Systkinin búa í sama húsi og eiga í miklum samskiptum. Maðurinn er í vinnu og sér að mestu leyti um sig sjálfur. Hann hefur hinsvegar glímt við andleg veikindi undanfarin fjögur ár og er auk þess greindur með einhverfu. Það er honum eðlislægt að fara eftir fyrirmælum og telur systir hans hann því hafa verið auðvelda bráð þegar Facebook-prófíll undir nafninu Murren Leversly óskaði eftir vinskap hans.

„Mér var orðið ljóst að það væri kona í spilinu og hann sagði mér að hann hefði kynnst henni á netinu. Ég vissi lítið um málið en spurði í bríaríi hvort hún væri nokkuð að biðja hann um peninga. Hann gekkst við því.“

Lofaði öllu fögru

Upp úr dúrnum kom að bróðir hennar hafði spjallað við Murren Leversly á Facebook í 2-3 vikur. „Hún sagðist vera hermaður í bandaríska hernum í Nígeríu og að hún væri ástfangin af honum. Hún talaði um hann sem eiginmann sinn og að hún myndi koma til landsins fljótt til að giftast honum. Samskiptin voru vingjarnleg og alveg innan velsæmismarka. Konuna langaði til að ræða við hann í síma því þá yrðu samskipti þeirra ódýrari. Eina vandamálið var að hún þurfti peninga til að geta keypt sér símakort.“ Á þeim forsendum framkvæmdi hann fyrstu millifærsluna, 900 dollara.

„Hún gaf honum fyrirmæli um hvernig hann ætti að færa peningana í gegnum Western Union í Landsbankanum. Þegar ég uppgötva hvað var í gangi, þá tók ég af honum auðkennislykilinn og bað hann um að millifæra alls ekki meira. En af því að hann fer eftir fyrirmælum þá hlýddi hann konunni sem hvatti hann áfram og var með hann undir stífri handleiðslu.“
Maðurinn fór því næst og sótti sér nýjan auðkennislykil svo hann gæti orðið við frekari óskum Murren. Hún lofaði honum öllu fögru og að hún myndi senda honum peninga. Því til staðfestingar tók hún upp á að senda honum falsað kreditkort með hraðsendingarþjónustu í pósti heim til hans.

Ágengni hennar jókst og þau töluðu líka nokkrum sinnum saman á Skype. Eina vandamálið var að myndavélin var alltaf biluð hjá henni. Hann sýndi hinsvegar glaður fram íbúðina sína og sagði frá sjálfum sér. Allt í þeirri trú að hann væri að tala við konu sem væri ástfangin af sér.

„Ég hélt að ég hefði komið í veg fyrir að hann millifærði meira en uppgötvaði svo að hann hélt áfram að senda peninga. Hann er fjárráða og ráðstafar sínum bankareikningum sjálfur. Það var því lítið sem ég gat gert til að stoppa hann. Á þremur dögum millifærði hann samtals um milljón króna í fjórum millifærslum, úr ólíkum útibúum Landsbankans, inn á bankareikninga sem skráðir voru á nígeríska kirkju. Hún sagði honum hvernig hann ætti að gera þetta og ráðlagði honum að fara í ólík útibú bankans til að framkvæma greiðslurnar. Á endanum var hann kominn í mikið andlegt ójafnvægi og við höfðum ekki önnur úrræði en að leita til geðdeildar Landspítalans.“

Þar var bróðir hennar vistaður í hálfan mánuð. Hann þurfti að loka símanúmerinu sínu og var bannað að fara á Facebook í átta mánuði. Það var honum einnig gríðarlega þungbært þegar hann áttaði sig á því að hann hafi verið blekktur. „Hann er enn að jafna sig og skammast sín mikið fyrir að hafa trúað þessu.“

Kallar eftir vernd við viðskiptavini bankannakvittanir

Systir hans segir að hún hafi reynt að vinda ofan af málinu síðan. Hún telur augljóst að bróðir hennar hafi verið beittur blekkingum til að greiða háar fjárhæðir. Viðskiptabanki hans, Landsbankinn, ætti að verja hans hagsmuni betur. Hún furðar sig á að í bankaumhverfi þar sem eru stíf gjaldeyrishöft, hafi millifærslur til svo grunsamlegra aðila getað gengið svo hratt og örugglega fyrir sig.

Hún hefur leitað til Fjármálaeftirlitsins og hyggst leita aðstoðar lögfræðings.
Í samskiptum konunnar við Fjármálaeftirlitið, sem Fréttatíminn hefur undir höndum, var henni bent á leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins frá árinu 2014, sem eiga við þegar grunur leikur á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Samkvæmt þeim virðist grundvöllur til athugunar þegar grunur um slíkt vaknar.
Málið er enn í ferli og hyggst konan halda áfram að leita réttar bróður síns.

Velþekkt er að skipulögð glæpasamtök og hryðjuverkahópar beiti blekkingum sem lýst hér að ofan, til að fjármagna starfsemi sína. Hin svokölluðu Nígeríu-svindl eru umfangsmikil og samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið, meðal annars af hollenska fjármálaeftirlitinu, Ultascan AGI, hafa hópar eins og Boko Haram verið tengdir slíkum netblekkingum.

 

The post Þessi kona hafði milljón af einhverfum manni appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652