Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Grjótharðar landsliðsstelpur vilja jafnrétti

$
0
0

Stelpunum í U17 ára landsliði kvenna þykir karlar fá meiri athygli en konur í fótbolta. Þær segja að stelpur þurfi oft að víkja af æfingaaðstöðu fyrir stráka, og drengjalandsliðið hafi fengið að æfa saman í viku fyrir æfingamót, en ekki þær.

„Stráka- og og stúlknalandsliðin fóru á æfingamót um daginn og strákarnir fengu að æfa saman fyrir mótið en ekki við,“ segja þær Alexandra, Valdís og Guðný sem eru allar í U17 ára landsliði kvenna í fótbolta. Stelpurnar eru sammála um að karlar fái meiri athygli en konur í fótbolta og hafa upplifað að þeim sé mismunað á grundvelli kyns. Þær skilja ekki hvers vegna staða kvennafótboltans er lakari en hjá körlum enda þykir þeim mikið til íslensks kvennafótbolta koma – fólk átti sig síður á ágæti íslenskra fótboltakvenna.

Eru sammála um að karlar fái meiri athygli en konur í fótbolta.
Eru sammála um að karlar fái meiri athygli en konur í fótbolta.

Hreinn skandall hjá RÚV

Finnst ykkur meira fjallað um karla- en kvennafótbolta hér á landi?
„Já, ég meina eins og núna með EM karla. Ég hef aldrei séð svona mikið um fótbolta. Þetta er hvar sem þú ferð,“ segir Alexandra.
Valdís: ,,Já, mér finnst það. Eins og þetta með RÚV um daginn. Æfingaleikur karla var sýndur á aðalrás sjónvarpsins en kvennaleikurinn, sem skipti máli um hvort við ættum möguleika á að komast á EM, var á hliðarrás. Það eru allir sammála um að það sé bara hreinn skandall!
Stelpurnar segja deildina vera í stoppi á meðan EM karla stendur yfir en það geti verið þreytandi. Áhugavert sé að velta fyrir sér hvort íslensku deildirnar muni fara í pásu næsta sumar en útlit er fyrir að íslenska kvennalandsliðið fari á EM. „Og hvort umfjöllunin verði jafn mikil og hún hefur verið núna,” segir Guðný.

Ánægðar með Pepsi-mörkin

Þær segjast horfa mikið á kvennafótbolta en erfitt sé að fylgjast með öðrum en þeim íslenska. Valdís nefnir í því samhengi að hún sé ánægð með Pepsi-mörk kvenna, sem sé nýr þáttur, en áður var þátturinn einungis um karlafótboltann. „Núna fær maður að sjá hvað er að gerast því umfjöllunin er orðin meiri, maður kemst meira inn í málin og sér hvað aðrir eru að gera. Það er samt miklu erfiðara að nálgast kvennafótboltann miðað við karlana, jafnvel þó sýning á kvennaboltanum sé að aukast. Bæði hvað varðar íslenska karlaboltann og ensku deildina. Þess vegna er mikilvægt að halda áfram að sýna konur í íþróttinni,“ segir Valdís.
Er þá ekki gaman að loksins sé farið að fjalla meira um konur í fótbolta?
„Jú, það er geggjað!“ segja þær allar í kór og gleðin í svip þeirra leynir sér ekki.

Guðný, Alexandra og Valdís eiga sér fyrirmyndir í íslenska kvennalandsliðinu.
Guðný, Alexandra og Valdís eiga sér fyrirmyndir í íslenska kvennalandsliðinu.

Vikið fyrir strákum

Hafið þið upplifað mismunun í fótboltanum?
„Já, eins og núna í Haukum. Þriðji flokkur karla víkur fyrir meistaraflokki karla þegar þeir eiga æfingu á aðalvellinum okkar en ef sama staða kemur upp þar sem meistaraflokkur kvenna á völlinn þá þarf meistaraflokkurinn að víkja fyrir strákunum og fara á síðri grasvölllinn. Það er pirrandi,“ segir Alexandra hneyksluð.
Guðný og Valdís hugsa sig vel um og Alexandra tekur aftur til máls: Síðan var U17 ára landslið kvenna að keppa á æfingamóti fyrir rúmum mánuði. Líka strákarnir. Þeir fengu viku fyrir mótið til að æfa saman en ekki við – við hittumst bara á flugvellinum og höfðum aldrei spilað saman, bara á móti hvor annari. Það var bara mjög fúlt.“
„Já einmitt,“ segir Guðný. „Við rétt vissum hvað hinar stelpurnar hétu.“

Óskiljanlegt ójafnrétti!

En hvers vegna er staða kvennafótboltans lakari en hjá körlunum?
Valdís: „Ég hef mikið pælt í þessu og ég held að þetta sé bara svona út af því í gegnum tíðina, frá því í eldgamla daga, hafa karlmenn haft meiri völd.“
Guðný tekur í sama streng: „Ég hef alveg pælt í þessu en ég skil þetta ekki!“
Valdís tekur aftur til máls: „Sko, ég er alin upp við jafnrétti, mér finnst þetta alveg sjálfsagður hlutur. Við erum að gera nákvæmlega það sama og karlarnir. Þess vegna fatta ég þetta ekki.“

Boltinn er bara rétt byrjaðru að rúlla.
Boltinn er bara rétt byrjaðru að rúlla.

Landsliðskonur fyrirmyndirnar

Stelpurnar eru sammála um að ekki sé síður skringilegt að staðan sé þessi þegar íslenska kvennalandsliðið er jafn firnasterkt og raun ber vitni. Kvennalandsliðið hefur farið á EM tvisvar, síðast árið 2009, þegar stelpurnar voru níu ára, en allt útlit er fyrir að liðið fari aftur á EM árið 2017. Fyrirmyndir þeirra eru allar í íslenska kvennalandsliðinu. „Það eru frekar fáir sem átta sig á því hvað við erum með gott kvennalandslið,“ segir Guðný og hinar kinka ákaft kolli. „Íslenska kvennalandsliðinu gengur ótrúlega vel. Þær eru svo góðar að maður finnur ekkert betri fyrirmyndir en þær.“

Er hægt að styrkja stöðu kvennaboltans frekar hér á landi?
„Já, og það er búið að bæta fullt sem varðar stöðu kvennaboltans. Við verðum að halda því áfram, allir að vera vakandi,“ segir Guðný. „Fólk þarf líka að fatta að það er mjög skemmtileg kvennadeild í fótbolta hér á Íslandi.“
„Síðan veltur þetta líka á okkur, það er okkar að breyta þessu“ segir Valdís. Hinar taka undir og ákveðni og bjartsýni skín úr augum stúlknanna. Framtíðin er þeirra og boltinn bara rétt byrjaður að rúlla.

The post Grjótharðar landsliðsstelpur vilja jafnrétti appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652