Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Hræðileg sóun á íslensku grænmeti

$
0
0

Sóunin hjá Sölufélagi garðyrkjumanna er hræðileg, að sögn matreiðslumeistarans Dóru Svavarsdóttur. Hún segist horfa á eftir hundruðum kílóa fara í ruslið í hverri viku. Kerfið skapi engan hvata fyrir grænmetisbændur til að haga ræktun í samræmi við eftirspurn.

Matreiðslumeistarinn Dóra Svavarsdóttir rekur veisluþjónustu og færir starfsmönnum Sölufélags garðyrkjumanna mat á hverjum degi. Hún segist sjá að heilu ruslagámarnir séu fylltir af heillegu grænmeti sem ekki selst í búðum. „Það gerist nokkrum sinnum í viku, þegar ég kem þangað, að hundruð kílóa af fullunnu og jafnvel pökkuðu grænmeti sé hent í ruslið. Mér finnst hræðilegt að horfa á þetta enda sóun á matvælum, orku, pakkningum, tíma og vinnu.“

Dóra hefur tekið þátt í verkefninu Zero Waist sem hrundið var af stað af Landvernd, Vakandi og Kvenfélagasambandi Íslands og miðar að því að minnka matarsóun. Hún hefur haldið fjölmarga fyrirlestra um matarsóun og segist stöðugt rýna í umhverfi sitt með þessar áherslur að leiðarljósi.

Grænmetisbændur leggja inn uppskeru til Sölufélags garðyrkjumanna og félagið sér um að koma vörunni til neytenda. Félagið segist tryggja að 90 prósent af heildsöluverði vörunnar skili sér til framleiðanda.

„Þó félagið sé í eigu bænda, þjónar það þeim ekki ef það hendir svo miklu af uppskerunni,“ segir Dóra. Hún telur tilgang félagsins góðan en margar hindranir í kerfinu komi í vegi fyrir að það virki sem skyldi.

„Sóunin bitnar auðvitað á okkur neytendum og bóndanum á endanum. Því hluti af vandanum er fjarlægðin á milli bónda og kaupanda. Það þýðir að bóndinn fær of seint að vita hvernig salan á afurðunum gengur og getur því illa hagað sinni ræktun í samræmi við eftirspurn.“

Dóra segir eina af rótum vandans vera að styrkir til bænda séu framleiðslutengdir sem geri það að verkum að það borgi sig fyrir bóndann að framleiða sem mest. „Löggjöfin um sölu grænmetis er heftandi og býr til óþarfa flækjustig.“

Hún segist hafa rætt sóunina við starfsfólk Sölufélags garðyrkjumanna og öllum þyki leitt að þurfa að henda heillegu grænmeti. Það hafi meðal annars komið til móts við hana, á viðburðum sem Dóra hefur átt þátt í að skipuleggja, þar sem afgangs grænmeti var notað í mikla súpugerð.

„Ég vil skora á Sölufélagið og alla þá sem koma að reglum í kringum grænmetissölu, að opna þetta samtal. Fyrsta skrefið er að viðurkenna vandann. Bændur þurfa einnig að taka hluta af ábyrgðinni. Þetta er margþætt vandamál, en sóunin í íslenskri grænmetissölu er heilmikil. Þónokkuð mikil í tonnum talið.“

The post Hræðileg sóun á íslensku grænmeti appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652