Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Við og Hinir

$
0
0

Ég hitti vinkonurnar Zöhru og Maryam í fyrsta sinn í matarboði síðastliðinn vetur. Þær sögðu sögur og hlógu og voru glaðar og létu eins og flestar tvítugar stelpur láta. En þær eru samt ekki eins og flestar tvítugar stelpur.

Zahra hefur búið á Íslandi frá því hún fékk hér hæli fyrir tæpum fjórum árum. Þá höfðu hún, móðir hennar og systir, verið á flótta frá Afganistan síðan faðir hennar var myrtur fyrir rangar stjórnmálaskoðanir. Zahra ólst því upp sem flóttamaður í Íran þar til hún, móðir hennar og systir, fengu ásamt þremur öðrum afgönskum konum og börnum þeirra hæli á Íslandi. Þetta voru fyrstu afgönsku konurnar til að fá hæli hér á landi.

Frá því að Zahra kom til landsins fyrir tæpum fjórum árum hefur hún lært íslensku, tekið stúdentspróf, stundað nám í háskólanum, lært að keyra bíl og eignast vini. Hún segir Ísland vera draumalandið sitt. Hér hefur hún í fyrsta sinn fengið tækifæri til að hugsa um framtíðina. Hana dreymir um að verða læknir og draumurinn getur ræst.

Maryam getur aftur á móti ekki látið sig dreyma um neitt, hvað þá framtíðina.
Maryam hefur, líkt og Zahra, lifað sem flóttamaður mest alla sína ævi. Þegar hún var fjögurra ára flúði móðir hennar, Tapikey, með hana til Írans undan ógnarstjórn talíbana í Kabúl. Síðan hafa þær verið á flakki milli Írans og Afganistan. Þegar Maryam var sextán ára vildi valdamikill afganskur stríðsherra taka hana sem konu og þá ákvað móðir hennar að flýja með dóttur sína til Evrópu. Þær sóttu um hæli á Íslandi eftir að hafa verið synjað í Svíþjóð. Ástæðan fyrir synjuninni var sú að þær voru skilgreindar sem „efnahagslegir flóttamenn“ í leit að „betra lífi“. Maryam hefur aldrei skilið þessa niðurstöðu sænska kerfisins því hún og móðir hennar eru einfaldlega að leita að „lífi“.

Þegar við hittumst í vetur hafði hælisumsókn þeirra líka verið synjað á Íslandi en lögfræðingur þeirra hafði kært synjunina og þær biðu í von og óvon eftir nýrri niðurstöðu. Maryam hefur lifað við slíka óvissu um framtíðina allt sitt líf og móðir hennar hefur lifað í ótta um afdrif Maryam frá því hún fæddist. Á flótta frá einu landi til annars, úti á hafi á gúmmíbáti, í vöruflutningabílum og fótgangandi með stöðugar áhyggjur af dóttur sinni þar til hún endaði hér, á Íslandi. Í dag er Tapikey með svo mikla áfallastreituröskun að hún er komin með alvarleg minnisglöp.

Á þeim ellefu mánuðum sem mæðgurnar hafa verið á Íslandi hefur myndast vinátta meðal Zöhru og Maryam. Þegar afgönsku konurnar hittast er það oftar en ekki við eldhúsborðið þar sem sögurnar sjóða meðan deigið eru hnoðað. Þegar við hittumst í matarboðinu höfðu vinkonurnar, ásamt systrum og mæðrum, verið í eldhúsi Zöhru í þrjá daga að undirbúa veisluna. Þær elduðu rétt sem er klassík á öllum veisluborðum Afgana, Manto. Manto eru litlar soðnar deigbollur sem eru fylltar með kjöti og grænmeti. Nafn réttarins er samsett úr orðunum „ég“ og „þú“ og þýðir VIÐ.

VIÐ því þennan rétt eldar enginn einn. Ekki bara vegna þess að það er auðveldara að vinna hann saman heldur líka vegna þess að það er svo miklu skemmtilegra. Rétturinn er sá eini sem sameinar stórfjölskylduna í eldamennsku, bæði karla og konur. Zahra og Maryam ákváðu að elda Manto því rétturinn er tákn sameiningar og samstöðu.

Vinkonurnar eiga ótal minningar úr æsku tengdar Manto en hafa líka skapað nokkrar góðar við eldhúsborð á Íslandi. En þær verða því miður ekki fleiri því á næstu dögum mun íslenska ríkið vísa Maryam og móður hennar úr landi. Af hverju? Af því að kæran var ekki tekin gild og mál þeirra er komið á borð lögreglunnar. Af því að kerfið segir þær víst vera öruggar í Afganistan. Af því að það er ekkert bara VIÐ. Af því að þar sem erum VIÐ, verða alltaf líka HINIR.

 

24907_afganskt_matarbod-110
Maryam og Zahra.

The post Við og Hinir appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652