Sumar heitar en löngu gleymdar ástarsögur áttu aldrei að líta dagsins ljós sökum ritskoðunar. Ein þeirra er ástarsaga Ólafs Davíðssonar þjóðsagnasafnara og Geirs Sæmundssonar, prests og vígslubiskups. Þorvaldur Kristinsson, bókmennta- og kynjafræðingur, segir hér frá ástum Ólafs.
Þorvaldur Kristinsson, bókmennta- og kynjafræðingur, hefur um árabil unnið að rannsóknum á sögu samkynhneigðra á Íslandi og í fyllingu tímans munu þær birtast á bók. Sú vinna felst meðal annars í því að leita upp löngu gleymdar ástarsögur sem fæstum var ætlað að líta dagsins ljós. Ritskoðun af einu eða öðru tagi sá til þess. Ein slík saga segir frá Ólafi Davíðssyni, sem varð einn merkasti þjóðsagnasafnari þjóðarinnar, og Geir Sæmundssyni, síðar presti og vígslubiskupi. Um ástir þeirra má lesa í dagbók Ólafs frá 1881-1882, en þann vetur voru ungu piltarnir samtíða í Lærða skólanum í Reykjavík. Eftir að hafa legið í geymslu í áratugi var ákveðið að gefa dagbækur og bréf Ólafs út í bókinni Ég læt allt fjúka en í þeirri bók voru öll skrif um ástina til Geirs strokuð út. Það var svo ekki fyrr en árið 1990 að Þorsteinn Antonsson vakti athygli á þessum köflum og birti þær í bók sinni Vaxandi vængir að þeir komu fyrir sjónir almennings. Og það var þá sem áhugi Þorvaldar kviknaði.
Falin og bæld saga
„Ríkjandi menning hefur löngum strokað út þá vitnisburði sem hana grunar að gætu sett skítablett á söguna“ segir Þorvaldur. „Þeim mun neyðarlegra er þetta í ljósi þess að hin útgefna bók bar heitið Ég læt allt fjúka, og er það tilvitnun í orð Ólafs sjálfs. Hann þótti að upplagi óvenju hispurslaus maður og af formála dagbókarinnar má ráða að hann gerði ráð fyrir því að hún yrði varðveitt handa síðari tímum.
Heimildir um sögu þjóðarinnar eru ekki allar jafn sýnilegar, öðru nær. Til skamms tíma sá kvenna varla nokkurn stað í þeirri Íslandssögu sem kennd er í skólum, rétt eins og þær hefðu aldrei verið til, hvað þá að þær hefðu tekið til hendinni. Og allt fram undir aldamótin 1900 var fátæk alþýða varla nefnd á nafn á bókum nema þá helst þegar hún komst í kast við lögin og var dæmd til tugthúsvistar eða lífláts. Sama er að segja um það fólk sem lagði ást og girndarhug á sitt eigið kyn. Saga okkar hefur verið falin, bæld og strokuð út, og því er vandi þeirra mikill sem leita að hinsegin veruleika forfeðra sinna og formæðra. Samt er þessi saga jafngömul mannkyninu, hún skiptir máli til skilnings á okkar eigin tilveru og tekur á sig fleiri birtingarmyndir en tölu verður á komið,“ segir Þorvaldur sem heldur áfram og segir svo frá;

Ástir kvikna
„Síðla vetrar 1882 sat piltur norðan úr Hörgárdal með dagbókina sína á hnjánum í litlu herbergi við Austurvöll í Reykjavík og trúði henni fyrir tilfinningum sínum. Latínuskólapilturinn Ólafur Davíðsson var ástfanginn og það á sínum sérstöku nótum:
„Skelfing þykir mér vænt um Geir. Hann er líka allra laglegasti piltur og virðist vera vel viti borinn. Hann er unnustan mín. Ég kyssi hann og læt dátt að honum, hreint eins og hann væri ungmey. Hann hefur líka leitt okkur Gísla saman. Hann er líka unnusta Gísla. (Ég þori samt ekki að ábyrgjast það). Við gengum oft með unnustum vorum, og með því vér áttum báðir sömu unnustu þá urðum vér að ganga saman.“
Pilturinn sem þetta ritaði var að verða tvítugur þegar hér var komið sögu og á sínum síðasta vetri í efsta bekk Reykjavíkur lærða skóla sem síðar hét Menntaskólinn í Reykjavík. Gísli Guðmundsson, sem Ólafur nefnir, var bekkjarbróðir hans, en Geir Sæmundsson var þennan vetur fimmtán ára busi í skóla, prestssonur frá Hraungerði í Flóa. Í árbók Lærða skólans lýsir hann sjálfum sér með þessum orðum vorið sem hann útskrifaðist: „[Geir] var meðalmaður á hæð og vel á sig kominn, dökkhár og fríður í andliti og ekki karlmannlegur. Hann hafði meðalgáfur og meðalkunnáttu í námsgreinum skólasveina. Hann var söngmaður ágætur og hafði forkunnarfagran og þýðan róm, en Bakkusar vinur var hann.“
Skömmu eftir komu Geirs í skólann tókst náin vinátta með þeim Ólafi enda feður þeirra aldavinir og kært samband milli fjölskyldna þeirra. Þann 28. mars skrifar Ólafur þetta í dagbók sína:
„Eftir átta gekk ég með Gísla Guðmundssyni og Geir og seinast fórum við inn til Gísla og sátum þar stundarkorn. Vér kveiktum ekki. Það er annars nógu notalegt að sitja svona í hálfrökkrinu hjá góðum kunningjum og tala út um alla heima og geima. En það er ekki gaman að sjá annan sitja undir kærustunni og sjá hana láta dátt að honum með öllu móti, sjá hana kyssa hann, faðma hann að sér og mæla til hans blíðum orðum; þetta varð ég þó að þola því Gísli sat undir Geir og Geir lét dátt að honum en leit ekki við mér. Ég held að ég hafi sannarlega fundið til afbrýðisemi en hún var fjarskalega væg eins og eðlilegt er, því þótt Geir sé kærastan mín þá er hann ekki kærastan mín. Maður hefur víst aldrei jafnheita ást á pilt og meyju.“
Og ástir unglinganna döfnuðu á þeim nótum sem hæfðu tíðarandanum vorið 1882. Þeir heimsækja hvor annan daglega, stundum oft á dag, sofa saman nótt og nótt, yrkja vísur hvor til annars, skiptast á um að færa hvor öðrum brjóstsykur og vindla og kúra saman í laut í Þingholtunum þegar vel viðrar. Þetta er löngu fyrir daga útvarps og geislaspilara og enginn iPod innan seilingar, en stundum syngja þeir saman:
„Þá upp til Geirs. Hann kenndi mér lagið: „Ég veit yðar myndin in mæra“, fagurt lag og friðblítt. Ég kann ekki við orðið „angurblítt“. Geir varð annars styggur við mig stundarkorn því ég uppnefndi hann öllum illum nöfnum, en sættir komust samt fljótt á og skaðabæturnar, sem hann fékk, voru góður koss.“
Ekki verður séð að Ólafur Davíðsson hafi þekkt nein orð um þrá sína til annarra pilta, enda ritar hann þetta áður en menn tóku fyrir alvöru að upphefja gagnkynhneigðina í vestrænni menningu með því að fordæma alla þá sem hlupu undan merkjum hennar og gefa þeim sín heiti. En Ólafur var prestssonur, hann átti strangan föður og þekkti að sjálfsögðu þá alræmdu ritningarstaði Biblíunnar sem kvalið hafa margan piltinn. Þess vegna finnur hann sig knúinn til að réttlæta fyrir sjálfum sér þá nautn sem hann er rétt í þessu að uppgötva. Á einum stað í dagbókinni efast hann um þá skoðun að sannkristið líf hljóti að felast í því að krossfesta holdið og hvatir þess, og hefur þar í huga fleyg orð Páls postula í Galatabréfinu, 5:24: „En þeir, sem Krists eru, hafa krossfest hold sitt með þess girndum og tilhneigingum“ (þýðing frá 1863). Þessu andmælir sá skynsami Ólafur, hann neitar með öðrum orðum að fyllast sektarkennd fyrir það að kannast við kenndir sínar og tilfinningar sínar og njóta þeirra. Að kvöldi 21. apríl 1882 ritar hann þetta í dagbók sína:
„Ég tók Geir með mér. Hann sefur hjá mér í nótt. Mér hefur aldrei þótt eins vænt um neinn og Geir. Hvað það var indælt að vefja hann að sér og leggja hann undir vanga sinn og kyssa hann svo. Loksins varð ég þó skotinn. En hvað er það að vera skotinn í karlmanni hjá því að vera skotinn í meyju? Ekkert, segir náttúruvit mitt mér. Er það annars ekki röng skoðun að krossfesta holdið með girndum þess og tilhneigingum? Er ekki rétt að hafa svo mikið upp úr lífinu sem auðið er fyrir góðan og mannlegan mann? Það held ég.“
Að hemja mannlífið
Ólafur Davíðsson las sannarlega fleira en Biblíuna, til dæmis varð hann snemma vel læs á forngrísku og þekkti lýsingar Grikkja til forna á ástum tveggja af sama kyni. En allar greiningar og útlistanir síðari tíma á samkynhneigðri þrá voru honum framandi, enda var hún ekki skilgreind á nútímavísu fyrr en rétt um það bil sem Ólafur komst til vits og ára, og vorið 1882 höfðu engar fréttir borist af þeim tilburðum til Íslands. Því má ljóst vera að skilningur Ólafs á sjálfum sér og tilfinningum sínum verður ekki lagður að jöfnu við þann skilning sem lesbíur og hommar nútímans leggja í samkynhneigðar tilfinningar sínar. Hugtakið homosexualitet eða samkynhneigð varð fyrst til um 1870. Með iðnbyltingunni og vaxandi þörf hins kapítalíska samfélags til að kortleggja, skrá og hemja mannlífið á 19. öld færðust læknavísindi og refsiréttur í aukana og sáu það meðal annars sem tilgang sinn að verja heiminn gegn öllu því sem vék frá hinni góðu gagnkynhneigð. Þeir sem framfylgdu lögum og rétti gengu hraustlega til verka, og nærtækt er að minnast réttarhaldanna yfir Oscar Wilde í Lundúnum árið 1895 eða lögregluaðgerða gegn karlmönnum fyrir mök þeirra við aðra karla í höfuðborg Íslendinga, Kaupmannahöfn, upp úr aldamótunum 1900. Þessar aðgerðir miðuðu meðal annars að því að hræða menn frá því að stofna til náins samneytis og ásta hver við annan.
Ólafur Davíðsson dvaldi í Höfn við nám og störf frá 1882 til ársins 1897 þegar hann sneri heim til Íslands. Ekkert er vitað um ástarlíf hans eftir lokaveturinn í Lærða skólanum, og engum sögum fer af ástum hans með konum – né heldur körlum. Eitt og annað mun þó hafa verið hvíslað um hneigðir hans til karla í sveitum norðanlands. Ólafur kvæntist aldrei og eignaðist enga afkomendur, en eftir að hann sneri heim frá Kaupmannahöfn vann hann að fræðilegum hugðarefnum sínum heima í Hörgárdal og sinnti annað slagið kennslu við Gagnfræðaskólann á Möðruvöllum. Um aldamótin 1900 varð Geir Sæmundsson prestur á Akureyri, þá kvæntur maður og faðir tveggja barna, en ekki er vitað um samskipti þeirra Ólafs þau fáu ár sem þeir voru samtíða í Eyjafirði – fyrr en á lokadegi.
Endalok Ólafs Davíðssonar urðu svipleg. Hann drukknaði í Hörgá, einn á ferð á hesti sínum, aðfaranótt 6. september 1903, 41 árs að aldri. Útför hans að Möðruvöllum í Hörgárdal var sú fjölmennasta sem menn minntust þar um slóðir. Að því tilefni orti Matthías Jochumsson langt kveðjuljóð sem flutt var af einsöngvara við útförina í kirkjunni. Þar er meðal annars þetta að finna.
Hjartans vin, því fórstu frá oss?
Fannst þér kalt að vera hjá oss?
Hvar er ljós?
Og sá maður sem stóð í kór Möðruvallakirkju og söng þessar ljóðlínur, það var enginn annar en Geir Sæmundsson.
The post Hann er unnusta mín appeared first on Fréttatíminn.