Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Krakkar í Breiðholti vilja aðstoða erlenda nemendur

$
0
0

Ungmennaráð Breiðholts vill að nemendur í skólum borgarinnar verði hluti af stuðingsneti fyrir börn og unglinga af erlendum uppruna sem koma til náms í skólum borgarinnar. Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur hefur samþykkt tillöguna.

Tillagan gengur út á að reyna að koma í veg fyrir að nemendur sem eiga annað móðurmál en íslensku einangrist við komu í skóla borgarinnar. Fulltrúar í ráðinu telja mikilvægt að hjálpa til svo að nýju nemendurnir tengist betur því frístundastarfi sem fer fram í hverfunum.

Snorri Freyr Vignisson segir starfið í Ungmennaráði Breiðholts gefandi. Hann bindur vonir við tillögu um bætta móttöku nemenda af erlendum uppruna.
Snorri Freyr Vignisson segir starfið í Ungmennaráði Breiðholts gefandi. Hann bindur vonir við tillögu um bætta móttöku nemenda af erlendum uppruna.

Snorri Freyr Vignisson, 16 ára nemi í MH, er einn af fulltrúum í ungmennaráði Breiðholts. „Breiðholt er mikið fjölmenningarhverfi og við í ráðinu erum að bregðast við mikilli og oft skæðri umræðu um þessi mál með því að leggja þetta til. Okkur finnst að það megi leysa þessa aðlögun nýrra nemenda betur og teljum að jafnaldrar nemendanna geti bætt móttöku þeirra mjög. Mér hefur þótt staðið nokkuð letilega að þessum málum hingað til,“ segir Snorri Freyr.

Til stendur að skipa starfshóp með fulltrúum ungmennaráða í hverfum borgarinnar, grunnskólanna, frístundamiðstöðva og starfsmanna skóla og frístundasviðs. Starfshópnum verður ætlað að leita leiða til að bæta þjónustu við erlenda nýnema.

Snorri Freyr segir að jafnaldrar ungmennanna geti dregið þau með sér í frístunda- og íþróttastarf. „Ég vona að ungmenni í sem flestum hverfum borgarinnar taki þátt í þessu starfi,“ segir Snorri. „Þannig hjálpum við til við að koma jafnöldrum okkur sem heilsteyptum einstaklingum út í samfélagið, í stað þess að þeir einangrist. Við viljum reyna að brjóta niður múrana sem oft vilja myndast í kringum nýja nemendur af erlendum uppruna.“

 

The post Krakkar í Breiðholti vilja aðstoða erlenda nemendur appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652