Útlendingastofnun leitar að húsnæði fyrir 100 hælisleitendur og hefur tvisvar gert útboð eftir íbúðum í ár. Því fyrra lauk í mars en þá tókst ekki að finna húsnæði fyrir neinn af þessum hundrað. Annarri tilraun lauk um miðjan maí og er enn verið að vinna úr gögnum.
„Við fengum ekki mörg tilboð í hvorugu útboðinu, fimm tilboð bárust í því fyrra og fimm eða sex núna,” segir Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar. „Í fyrra skiptið komu tilboð sem hentuðu ekki svo við fórum í nýtt.”
En hvernig stendur á því að svo illa gengur að finna húsnæði þótt 12.000 manns hafi boðið fram aðstöðu í fyrra?
„Ég hef ekki einhlítt svar við því, en ein skýring er þó sú að við vorum að óska eftir stærri einingum en fólk var mögulega að bjóða eitt herbergi eða eina íbúð,” segir Kristín. „Önnur skýring getur verið sú að leigutími er eingöngu til 12 mánaða í senn en oft er fýsilegra fyrir leigusala að gera langtímasamninga.”
Er ætlast til að öllum þessum hundrað verði komið fyrir á sama stað?
„Ef einhver hefði boðið mér 50 herbergi út um allt og verðið væri skaplegt hefði ég samþykkt það,” segir Kristín.
Ríkiskaup annaðist útboðið og var óskað eftir húsnæði til leigi í 12 mánuði með möguleika á framlengingu í 12 mánuði í viðbót, 7-10 íbúðir fyrir allt að 50 einstaklinga og 25-50 herbergi fyrir aðra 50. Þá var gerð krafa um að þær væru ekki fjær en 50 km frá miðbæ Reykjavíkur, í göngufæri við almenningssamgöngur og að grunnþjónusta á borð við matvöruverslanir, skóla, afþreyingu og fleira sé í göngufæri eða tryggð með almenningssamgöngum.
„Þetta minnir mig á málið í flugvélinni. Ég get trúað að margir sem voru um borð hefðu viljað bregðast öðruvísi við, en fólk þarf að láta í sér heyra,” segir Bryndís Björgvinsdóttir, sem var kosinn maður ársins í fyrra af Stöð 2 fyrir átak til stuðnings flóttamönnum sem fékk mikil viðbrögð. „Þetta slær mig ekki sem hræsni og segir ekkert um álit fólks, en svona er kerfið sem við búum við. Við tengjum húsnæði við skjótan gróða frekar en sem heimili fyrir fólk, og það er vandamál almennt á þessu landi hvað það er erfitt að eignast heimili.”
Kristín segist bjartsýnni á að húsnæði finnist í þessari atrennu. „Ég vona að það þurfi ekki að vera fleiri útboð, en þetta er í skoðun og skýrist á næstu tveim vikum.”