Sigríður Hagalín Björnsdóttir varafréttastjóri RÚV brá sér í þriggja mánaða starfsleyfi frá fréttastofunni fyrr á árinu og nýtti það til að berja saman sína fyrstu skáldsögu. Hugmyndina að sögunni hafði hún gengið með lengi. Í viðtali við Guðrúnu Vilmundardóttur bókaútgefanda í Fréttatímanum í dag, kemur fram að til hafi staðið að farga handritinu. „Í haust var hún svo á báðum áttum hvort hún ætti að henda handritinu í ruslið eða sýna mér það… og til allrar guðslifandi hamingju leyfði hún mér að kíkja!“ Sagan hefur hlotið titilinn Eyland og lýsir Guðrún henni sem einskonar „landbúnaðarhrollvekju“. Fyrirhugað er að bókin komi út hjá bókaútgáfunni Benedikt í haust.
↧