Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Listrænn ágreiningur sá eini sem ég nenni

$
0
0

Við Guðrún Vilmundardóttir mælum okkur mót í Vesturbænum, þar sem bækistöðvar tveggja stærstu bókaútgáfa landsins hafa verið að undanförnu, hvort á sínu horninu við Bræðraborgarstíginn. Forlagið við Ránargötuna en Bjartur og Veröld við Bárugötuna. Hér banka skáldin berskjölduð uppá og mæta örlögum sínum, handrit fara í ruslið eða samningar eru undirritaðir. Hurðum er skellt og kampavín drukkið.

Nú bergmálar á skrifstofu Guðrúnar, þar sem hún hefur starfað sem útgáfustjóri bókaútgáfunnar Bjarts, en á liðnum vikum hafa orðið hressilegar hrókeringar á horninu. Hólmfríður Úa Matthíasdóttir mun taka við Forlaginu af Jóhanni Páli Valdimarssyni um áramótin, Bjartur og Veröld hafa flutt yfir Hringbrautina og Guðrún er…
-Já, hvar eigum við að byrja? Á aðdragandanum?
„Þú ræður hvar þú vilt byrja,“ segir Guðrún.
-En þú veist hvernig maður raðar brotunum saman í svona sögum.
„Allt í lagi, byrjum þá á því að ég sitji á minni nýju gömlu skrifstofu, og hér sé ég að stofna bókaútgáfu.“
Gott og vel. Guðrún Vilmundardóttir hefur tekið sig til og látið verða af því sem hana hefur lengi dreymt um að gera. Að opna sitt eigið forlag. Andspænis mér situr því stoltur eigandi bókaútgáfunnar Benedikts.

28897_gudrun_vilmundardottir-5
,,Það þurfa ekki allar bækur að vera metsölubækur,” segir Guðrún Vilmundardóttir. Mynd: Rut

Guðrún er menntaður leikhúsfræðingur frá Frakklandi og Belgíu og áður en hún gerðist útgáfustjóri Bjarts, var hún dramatúrg í Borgarleikhúsinu í sjö ár. Dramatúrg er sá sem les yfir handrit og ber skynbragð á uppbyggingu sögunnar. Hann er listrænn ráðunautur leikhússtjóra en er líka margslunginn ráðgjafi þýðenda og leikstjóra við uppsetningar einstaka verka.
„Skáldskapur og leikhús eru mitt uppáhald og árin í leikhúsinu voru góður tími. Veturnir voru annasamir en sumarfríin löng og ég fór að þýða skáldverk fyrir Bjart á milli anna. Þannig kynntist ég bókaútgáfunni.“

Snæbjörn Arngrímsson stofnaði Bjart árið 1989 og réði Guðrúnu til sín árið 2006. Þegar Pétur Már Ólafsson, eigandi bókaútgáfunnar Veraldar, keypti fyrirtækið tveimur árum síðar, hélt Guðrún áfram sem útgáfustjóri Bjarts. Saman mynduðu Bjartur og Veröld aðra stærstu bókaútgáfu landsins og því hafa ákvarðanir Guðrúnar haft mikil áhrif á íslenska bókaflóru. Það var hennar að ákveða hvaða skáldverk yrðu gefin út. Hún gaf nýjum höfundum tækifæri og leyfði reyndum refum þroskast. Eflaust hefur hún þurft að hafna þeim nokkrum líka.

„Þegar ég fer yfir árin hjá Bjarti finnst mér ánægjuleg viðkynni og samstarf við höfunda standa uppúr. Auðvitað á maður í nánasta sambandinu við íslensku höfundana. Margir þeirra eru vinir mínir og í gegnum þá hef ég eignast litríkt og öflugt tengslanet þýðenda og útgefenda í útlöndum.“

Veigamikill hluti af starfi Guðrúnar var einnig að leita að erlendum skáldsögum til þýðingar og útgáfu á Íslandi. Neon-bókalúbbnum var komið á koppinn á upphafsárum Bjarts og við honum tók Guðrún sem útgáfustjóri. „Klúbburinn hefur um það bil þúsund áskrifendur og gefur út fjórar til sex þýddar skáldsögur á ári. Áskriftarfyrirkomulagið veitir forlaginu ákveðið frelsi til að velja inn öðruvísi litteratúr en ella, þar leituðum við alltaf að ákveðnum frumleika. Það þurfa ekki allar bækur að vera metsölubækur. Ef þú hinsvegar ætlar að reka útgáfu réttu megin við núllið, þarf að hafa stóru reyfarana með.“
28897_gudrun_vilmundardottir-6
Leitin að góðri sögu
Í áratug lagði Guðrún mikla natni við að velja Neon-bækurnar enda bókaklúbburinn rómaður fyrir ferskar og góðar skáldsögur. Áskrifendurnir treystu valinu vel og oftar en ekki voru bækurnar eftir höfunda sem höfðu slegið í gegn í sínum heimalöndum. „Ég lagði mikla alúð í að finna réttu sögurnar. Fyrir hverja bók sem ég valdi, hafði ég lesið að minnsta kosti tuttugu bækur – og byrjað á margfalt fleiri! Ég reyndi að veita allskonar hlutum athygli og velja fjölbreyttar bækur sem hefðu eitthvað sérstakt við sig. Hugsaðu þér forréttindin að fá að lesa svona margar spennandi bækur, það er alveg magnað.“

Guðrún segist nýta allan lausan tíma í að lesa. „Ef ég á laust korter hér eða þar þá reyni ég að nýta það í lestur. Ég þarf ekkert mikið næði til þess og get lesið hvar sem er. Ég er með öll handrit í símanum eða ipadinum og gríp í þau þegar ég get. Mér finnst þetta stórtkostleg vinnutæki þótt ég tæki prentaða bók alltaf fram yfir rafbók.“

Þegar það kvissaðist út að Guðrún hygðist róa á ný mið, fóru kjaftasögurnar á flug. Ein sagan var að Snæbjörn Arngrímsson hefði lagt þér lið við stofnun bókaútgáfunnar, er það rétt? „Nei, hann er ekki með mér í þessu.“
Eru fjársterkir aðilar á bakvið þig?
„Ég er minn eigin herra í þessari útgáfu. Fyrirtækið er fjármagnað að fullu og öll plön líta glimrandi vel út. Ég get lifað í meira en ár þótt ég selji ekki eina einustu bók!“

Hrókeringar víðar
Guðrún ítrekar að viðskilnaðurinn við gamla vinnustaðinn hafi ekki verið dramatískur. „Ég naut fulls sjálfstæðis sem útgáfustjóri Bjarts og bar aldrei skugga þar á. Eftir ákaflega ánægjulegan áratug var orðið tímabært að breyta til. Kannski má segja að það sé mesta furða að ég hafi ekki gert það miklu fyrr.“

Miklar hrókeringar hafa orðið á íslenskum bókabransa á undanförnum vikum. „Mér finnst sterkur leikur hjá Forlaginu að fá Úu til að taka við stjórninni. Það vita allir sem hana þekkja að þar fer stórkostleg kona. Hún hefur unnið við að selja erlend réttindi undanfarin ár og mér finnst eitthvað módern við það að setja slíka manneskju í stjórnunarstöðu. Ég hafði einmitt hugsað mér að setja meiri þunga í réttindamálin. Svo fagna ég því að fleiri konur séu farnar af stað. Mín gamla samstarfskona hjá Bjarti, Þorgerður Agla Magnúsdóttir og María Rán Guðjónsdóttir sem áður var hjá Crymogeu, ætla af stað með nýtt forlag í haust. Það var greinilega kominn tími á breytingar. Það er algengt að þegar einn jökull snýst í vatninu fer fleira á hreyfingu.”

Hún segir fítonskraft fylgja því að fara af stað með sitt eigið fyrirtæki. Tíminn hafi augljóslega verið réttur. „Ég finn fyrir meiri krafti og meira fjöri og það er eins og klukkutímunum í sólarhringnum hafi fjölgað. Verkefnin eru mörg en þau eru líka fáránlega skemmtileg. Þetta er lifandi bransi sem fólk endist oft mjög lengi í. Maður er stöðugt að fást við nýsköpun og hluti sem sjarmera mann upp úr skónum. Samt lærast ákveðin handtök, svo maður getur líka vaxið og orðið betri í því sem maður er að gera.“

Hún fer ítarlega yfir það sem heillar hana við starf sitt. Spennuna sem fylgir því að lesa glænýtt efni, ganga frá því til prentunar og kynna það. Fylgja því eftir. Samvinnan við íslensku höfundana. Og erlendu höfundana. Leitin að réttu höfundunum. Vinnan með þýðendunum. „Svo hef ég hef mjög gaman af erlendu samskiptunum. Það eru tvær stórar bókamessur, í London á vorin og Frankfurt á haustin, og þangað fer maður til að kynna íslenska höfunda og koma þeim á framfæri úti, en líka til að finna erlendar bækur til að þýða og kynna hér á landi. Það verða mikil tengsl til á þessum messum. Undanfarin ár hef ég verið svo heppin að fá boð á útgefendaþing, í Istanbul í vor og Antwerpen í Belgíu í fyrra. Þangað er 10-20 útgefendum boðið að dvelja í vikutíma, og þetta er mikið tækifæri til þess að kynnast nýjum bókmennta- og útgáfuheimum. Við eigum það öll sameiginlegt að vera að leita að góðum sögum.“
Orðið útgáfulisti kemur endurtekið fyrir í máli Guðrúnar og hann virðist vera einhverskonar lykilhugtak í bókaútgáfu. Listinn sem sýnir hvaða höfunda þú hefur á þínum snærum. Út frá honum ertu dæmdur.
28897_gudrun_vilmundardottir-3
Fann Ferrante í Abu Dhabi
„Það er ekki amalegt að vera með Auði Övu og Jón Kalman á sínum snærum og vera nýbúin að kaupa Ferrante,“ segir Guðrún stolt. Ítalska stórstjarnan Elena Ferrante verður reyndar eftir hjá Bjarti eftir viðskilnaðinn en Guðrún getur státað sig af því að hafa krækt í hana og komið bókum hennar í íslenska þýðingu. Ferrante hefur meðal annars skrifað vinkonu-fjórleikinn eða Napólí-sögurnar eins og þær eru kallaðar, sem nú eru að gera allt brjálað.

„Við vorum með bás á bókamessunni í Abu Dhabi fyrir nokkrum árum og þar var lítill evrópskur gangur. Við hlið okkar voru ítalskir útgefendur Elenu Ferrante með bás. Við vorum örfáir evrópskir útgefendur í þessu fjarlæga landi og við létum eins og við værum öll úr sömu sveitinni og höfðum mikil samskipti. Þau gáfu mér The Days of Abandonment að skilnaði og ég féll strax fyrir Ferrante. Þar segir af ungri tveggja barna móður sem eiginmaðurinn yfirgefur – hún nánast missir vitið og nær svo aftur sönsum. Ég veit ekki hver getur gert svona einfaldri, en djúpri, sögu skil betur en Ferrante. Það er einhver tónn þarna sem maður hefur ekki heyrt áður.“
Á þeim tíma var fjórleikurinn um vinkonurnar Lilu og Elenu að slá í gegn úti í heimi svo Guðrún ákvað að byrja á að fá þær þýddar. Framúrskarandi vinkona kom út í fyrra og Saga af nýju ættarnafni á þessu ári, í þýðingu Brynju Cortes Andrésdóttur.

Fréttatíminn hafði eftir heimildum fyrir skömmu að ósætti hafi orðið milli Guðrúnar og Péturs Más hjá Bjarti og Veröld þegar Guðrún neitaði að gefa út bókina Endurkomuna eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Bókin var á endanum gefin út hjá Veröld.
„Þetta er sagnaglaður bransi með auga fyrir hinu dramatíska. Ég hef heyrt margar sögur um starfslok mín hjá Bjarti og þessa oftar en aðrar. Ég veit ekki til þess að ágreiningur um einstaka höfunda hafi haft nokkuð með starfslok mín að gera. Auðvitað kom stundum upp listrænn ágreiningur og listrænn ágreiningur er eini ágreiningurinn sem ég er til í að standa í við nokkurn mann. Hann er ekkert til að skammast sín fyrir. Án hans yrði engin framþróun. Án hans dyggði eitt einasta útgáfufélag.“

Stuðningur frá þekktum höfundum
Tveir þekktustu höfundar Bjarts ákváðu að fylgja Guðrúnu út í óvissuna. Þau Jón Kalman og Auður Ava Ólafsdóttir. „Það er ekki hægt að sýna mér meira traust en að fylgja mér úr ráðsettu bókafyrirtæki á vit nýrra ævintýra. Og meira hrós get ég ekki fengið fyrir unnin störf síðasta áratuginn. Mér finnst það mikill heiður, er stolt og finn til mikillar ábyrgðar. Það hvetur mig til dáða.“ Hún minnir þó á að hún hafi ekki kynnst þessum höfundum í gær.
„Jón Kalman var höfundur Bjarts þegar ég kom þangað til starfa fyrir áratug. Okkar samstarf hefur verið með eindæmum ánægjulegt í gegnum tíðina og við höfuðum bæði hug á að halda því áfram.“
Hefur þú einhver áhrif á sögurnar hans?
„Þegar ég kynntist honum, var hann að skrifa Himaríki og helvíti, sína sjöundu bók, þannig að hann var fullmótaður höfundur löngu áður en við kynntumst. En ég er hans yfirlesari og við tölum saman, erum samstíga og náum vel saman. Bæði í skoðunum á mörgum hlutum, í bókmenntum og í lífinu. Hann á líka einstaklega þéttan og góðan erlendan útgefandahóp sem ég hef kynnst vel. Þau eru öll miklir aðdáendur hans og það er gaman að halda tengsl við þau, og Monicu Gram umboðsmann hans í Danmörku. Það er einhver dýnamík í þessum hópi og okkar samstarf, bæði við sögurnar hans og þá hluti sem þarf að gera í kringum útgáfu þeirra.“

Guðrún segist hafa verið aðdáandi Auðar Övu frá því áður en hún byrjaði að skrifa. „Hún kenndi mér listasögu í menntaskóla og ég var svo hrifin af henni að ég hóf háskólanám í listasögu. Auður kenndi ekki við franska háskólann minn, svo ég skipti yfir í leikhúsfræði. Auður gaf út sínar fyrstu bækur annars staðar, en það gladdi mig óstjórnlega þegar hún kom með Undantekninguna til Bjarts, fyrir fjórum árum. Auður Ava hafði boðað nýja skáldsögu sem til stóð að kæmi út hjá Bjarti í haust. Fyrir röð tilviljana var hún óvenju seint á ferðinni með handritið og þegar það var klárt var ég hætt hjá Bjarti. Hún ákvað að koma með handritið til mín og hvatti mig til dáða. Mér til stórkostlegrar gleði og mikillar ánægju. Hún var ívið yngri en ég er núna, þegar hún byrjaði að skrifa bækur. Ég kýs að líta svo á að þetta sé upplagt aldursskeið til að taka upp á einhverju nýju.“

Bæði Auður Ava og Jón Kalman eru hlýir og mannlegir höfundar sem lesendum á auðvelt með að þykja vænt um. Er það ekki annars?
„Jú, það er hárrétt, það er svo sannarlega auðvelt að þykja vænt um þau! Sambönd útgefanda og höfundar geta auðvitað verið allskonar, en þau byggja fyrst og fremst á trausti, og það þarf að vera ákveðin tenging fyrir hendi, eitthvert svona glimt í øjet. Skáldskapurinn er númer eitt, tvö og þrjú. En þetta er auðvitað viðskiptasamband líka og það þarf að sinna því. Númer fjögur, fimm og sex sem snúast um skipulag, reddingar og praktík. Skemmtilegast er að hafa ánægju af því líka.“

Nýr útgáfulisti Guðrúnar
Skáldsaga Auðar Övu ber titilinn Ör og kemur út hjá Benedikt bókaútgáfu í haust, en það er lengra í næstu bók Jóns Kalmans. Auk þeirra tveggja hefur Guðrún krækt í fleiri titla.

„Þórdís Gísladóttir, hið bráðskemmtilega og margverðlaunaða metsöluljóðskáld, verður með nýja ljóðabók í haust, Óvissustig. Svo hefur Friðgeir Einarsson afhent mér smásagnahandrit sem er fáránlega gott. Hann gleður mig svo þessi maður. Handritið hans var útbíað í brosköllum frá mér, það var nú helsta ritstjórnin sem hann fékk frá mér. Hann gerir örlögin svo grimm en um leið sjúklega fyndin. Sögurnar eru fyndnar á einhvern hátt sem má ekki hlæja að. Og fallegar inn á milli. Einn sem las handritið yfir fyrir mig, sagði að þetta væri eins og blanda af Braga Ólafs og Reymond Carver. Það er ekki leiðum að líkjast!“

Fjórða bókin sem Guðrún hygst gefa út í haust er fyrsta skáldsaga höfundar, Sigríðar Hagalín Björnsdóttur fréttakonu á RÚV. „Þetta er ótrúleg saga. Ég hef kallað hana spennusögu, af því atburðarrásin er svo spennandi, en kannski er „landbúnaðarhrollvekja“ meira réttnefni. Hún heitir Eyland og er ástar- og spennusaga þar sem Íslandssagan tekur óvænta stefnu. Hér fer höfundur sem kann að skera burt alla fitu – hún er til dæmis nýbúin að kenna mér að ef maður geti ekki sagt frétt í þremur orðum, sé það ekki frétt. Sigríður Hagalín tók sér þriggja mánaða frí frá vinnu í upphafi árs til að skrifa söguna, en hugmyndina hafði hún gengið með lengi. Í haust var hún svo á báðum áttum hvort hún ætti að henda handritinu í ruslið eða sýna mér það … og til allrar guðslifandi hamingju leyfði hún mér að kíkja! Við höfum verið að bera handritið undir ólíkt fólk og í síðustu viku hrifust bæði Kári Stefánsson og 19 ára sonur minn af sögunni, svo mér sýnist við ætla að höfða til breiðs hóps.“

Þetta er hinn svokallaði útgáfulisti bókaútgáfunnar Benedikts í augnablikinu. „Ég er mjög stolt af þessum hópi og hlakka til að sinna honum, aðeins öðru vísi en ég hef áður unnið og vonandi enn betur. Það verður mér sérstakt kappsmál að koma nýjum höfundum á framfæri í útlöndum og mig langar að nýta mín erlendu tengsl til þess. Auður Ava og Jón Kalman eru auðvitað löngu komin út fyrir landamærin.“

Aðspurð um nafn útgáfunnar segist Guðrún strax hafa ákveðið að velja fallegt karlmannsnafn á útgáfuna og kom þá eitt fljótt upp í hugann. „Benedikt er alþjóðlegt og fallegt nafn og þýðir hinn blessaði. Fjalla-Bensi í Aðventu Gunnars Gunnarssonar lagði allt í sölurnar fyrir það sem honum þótti mestu máli skipta í lífinu. Mér finnst það fallegur eiginleiki, og svo fannst mér skemmtilegt að ég kynntist Aðventu í raun í gegnum frábæran formála Jóns Kalman að síðustu útgáfu bókarinnar.”
Og nafnið hefur persónulega þýðingu fyrir þig líka?
„Já, þess vegna kom það fljótt upp í hugann.“

Benedikt Vilmundarson var bróðir Guðrúnar, en hann fórst í eldsvoða á Þingvöllum, árið 1970, ásamt afa þeirra og ömmu, Bjarna Benediktssyni sem þá var forsætisráðherra og Sigríði Björnsdóttur eiginkonu hans.

Foreldrar Guðrúnar, þau Valgerður Bjarnadóttir og Vilmundur Gylfason hafa bæði sett mark sitt á íslenskt þjóðlíf. Valgerður hefur verið þingkona Samfylkingarinnar undanfarin ár og Vilmundur, faðir hennar var litríkt skáld, blaðamaður og stjórnmálamaður og stofnaði meðal annars Bandalag jafnaðarmanna. Vilmundur svipti sig lífi árið 1983 þegar Guðrún var aðeins níu ára gömul.

Kona komin af svo ólíku og litríku fólki, þú hlýtur að hafa sans fyrir blæbrigðum lífsins?
„Ég fagna þeirri kenningu.“
Guðrún tekur undir að á einhvern hátt snúist starf hennar einmitt um það, að skynja margbreytileika lífsins. „Góðar sögur þurfa að að vera blæbrigðaríkar. Það tók mig nokkur ár að fatta að ég þyrfti að vera opin fyrir fleiru en því sem heillar mig gersamlega upp úr skónum. Maður þarf að hafa auga fyrir kostum og gæðum hverskyns sem þau kunna að vera og opinn fyrir nýjungum. Og ófeiminn við ágreining, svo lengi sem hann er listrænn.”

Þóra Tómasdóttir
thora@frettatiminn.is


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652