Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Níðingurinn var besti vinur pabba, hjálparhella mömmu og leikfélagi litlu barnanna.

$
0
0

„Ég var mætt í endurhæfingu að Reykjalundi eftir hjartaáfall og hitti hjúkrunarfræðing sem sýndi mér herbergið mitt og deildina þar sem æfingarnar fara fram. Þegar fer að nálgast hádegi skrepp ég á kaffistofuna þar sem fólkið hittist og spjallar saman milli æfinga. Það fyrsta sem ég rek augun í er maðurinn sem misnotaði litlu dóttur mína. Það var eins og ég hefði verið kýld í magann. Hjartað fór á fullt og ég varð náföl. Hann horfði beint á mig og leit síðan undan en ég bakkaði út úr herberginu.“

Þetta gerðist á Reykjalundi fyrir nokkrum vikum. Konan í þessari frásögn frestaði endurhæfingunni um tvær vikur svo maðurinn sem misnotaði dóttur hennar gæti lokið við sína.

29158-snaedis-01363
„Ég hélt að þetta áfall væri að baki og ég hefði verið búin að vinna úr því,“ segir Sædís Hrönn Samúelsdóttir, „en ég togaði í hjúkrunarfræðinginn sem hafði fylgt mér um deildina. Bað hana að koma með mér afsíðis. Spurði hvort þetta væri þessi tiltekni maður. Hún svaraði því játandi og spurði hvað væri að. Ég sagði henni eins og var, að þessi maður hefði fengið fangelsisdóm fyrir að misnota dóttur mína. Hún bað mig um að bíða á skrifstofunni og fór fram dágóða stund. Hún kom síðan aftur og skýrði mér frá því að hann ætti eftir tvær vikur af meðferðinni, hvort ég vildi ekki bara bíða. Ég var algerlega í rusli yfir þessu og svaraði bara játandi. Þótt mér finnist að hann ætti frekar að víkja, þá er engin heimild fyrir því í lögum. Hann er búinn að afplána sína refsingu. Á yfirborðinu er málinu lokið þótt ég hafi orðið fyrir áfalli. Hann var örugglega guðslifandi feginn þegar hann sá mig fara.“

Bjargvættur og verndarengill

„Hann var skipsfélagi mannsins míns og varð fljótlega hans besti vinur eftir að leiðir þeirra lágu saman. Hann var rúmlega fertugur, fráskilinn, í hærra meðallagi, ljóshærður með yfirvaraskegg og það var byrjað að móta fyrir skalla. Hann var með húðflúr, alltaf í gallabuxum og bol og varð fljótlega okkar helsti bjargvættur og verndarengill. Maðurinn minn sá hann í rósrauðum bjarma, það var eins og hann væri búinn að eignast góðan, traustan eldri bróður sem var alltaf til staðar. Hann treysti honum fyrir lífi sínu. Dinni, eins og við kölluðum hann, hafði verið í sambúð með konu sem leyfði honum ekki að hitta barnið sitt. Hann sagði okkur margar sögur af því hvað hún væri ömurleg og afbrýðisöm. Hvernig hún beitti drengnum fyrir sig. Við vorkenndum honum mjög mikið.”

Eldaði, þreif og passaði

„Við áttum erfitt á þessum tíma vegna barnanna okkar sem voru fimm og sjö ára, drengurinn var erfiður og dóttirin varð út undan. Dinni var afar elskulegur og bauðst til að hjálpa okkur með börnin og varð smám saman mikill þátttakandi í uppeldi þeirra. Hann sótti stelpuna okkar oftar en einu sinni á leikskólann og neitaði meira að segja einu sinni túr á bátnum til að geta sinnt börnunum. Nokkrum sinnum kom hann óvænt í heimsókn þegar við höfðum farið út á lífið, sagði barnapíunum að þeim væri óhætt að fara heim. Hann myndi sjá um börnin. Um tveggja ára skeið var hann okkar besti vinur og hjálparhella. Hann kom sér svo sannarlega vel fyrir. Í eitt skipti var ég að koma heim af vakt um kvöldmatarleytið. Þá var hann búinn að sækja börnin, þrífa húsið og elda.“
Það sem foreldrarnir ungu vissu ekki, var að þrettán árum áður en leiðir þeirra og nýja vinarins lágu saman var hann dæmdur til fangelsisvistar fyrir að hafa misnotað þroskaskerta litla telpu sem hafði verið tíður gestur hjá móður hans. Hún hafði komið í heimsókn þegar maðurinn var einn heima. Hann réðist að telpunni og þegar hún komst frá honum var hún í miklu uppnámi, skalf og nötraði og það blæddi úr skurði í leggöngum hennar ásamt öðrum áverkum. Hún sagði móður sinni að það hefði verið blóð í rúminu hjá Dinna. Foreldrarnir sem áttuðu sig á því hvers kyns var, hringdu í lögregluna og skömmu seinna var maðurinn handtekinn.
„Hann lék sér að okkur eins og köttur að mús,“ segir Sædís. „Við ræddum einhverntímann um ofbeldi gegn börnum. Hann sagði að kynferðisbrot gegn börnum væru viðurstyggileg og gerendurnir réttdræpir.

29158-png

Rauf meyjarhaftið óvart

Og svo kom símtalið frá barnaverndarnefnd.
Það var degi fyrir sex ára afmæli dóttur minnar. Við bjuggum í Grafarvogi, skammt frá Miðgarði, þar sem skrifstofur félagsþjónustunnar eru. Þetta var á föstudagseftirmiðdegi. Við vorum beðin um að koma og hitta starfsmann barnaverndarnefndar vegna máls sem hafði komið upp. Ég var mjög skelkuð en hafði ekki hugmynd um hvað málið snerist.
Þegar við vorum komin og sest inn á skrifstofuna, nefndi starfsmaðurinn fjölskylduvininn á nafn og spurði hvort við þekktum hann. Þegar við svöruðum játandi var okkar sagt að sex ára stelpa hafi sagt frá því að hann hafi misnotað hana.
Þetta var gríðarlegt áfall en fljótlega varð ég algerlega dofin. Það kom í hlut mannsins míns að hringja í Dinna og segja honum frá því að hann væri ekki velkomin í afmæli dóttur minnar, daginn eftir. Hann gerði það. Mér skildist að honum hefði verið brugðið við símtalið en verið fátalaður. Hann sagði þó að það væri ekkert hæft í því að hann hefði verið að misnota börn. Hann hefði þó óvart rofið meyjarhaftið á tveggja ára dóttur vinkonu sinnar, þegar hann var skipta um bleyju.
Það voru síðustu samskipti okkar við þennan mann eftir tveggja ára vináttu,“ segir Sædís Hrönn.

29158-halldora-og-astros-01334

Fór í sturtu og þvoði þvott

Það var Halldóra Eyfjörð sem hafði samband við barnaverndarnefnd og hratt málinu af stað. Hún var búsett í Yrsufelli, einstæð móðir, fimm ára stúlku. „Vinur minn kynntist konu frá Húsavík og fór að búa með henni,“ segir Halldóra. „Hann kynnti mig fyrir henni og við höfðum mikið samband á tímabili. Þau voru að mála og gera upp íbúðina og vinur hennar, sem var kallaður Dinni, var mikið að hjálpa þeim.“
Halldóra segir að þegar hún fór að mála íbúðina sína hafi hann líka boðist til að hjálpa sér og sýnt dóttur sinni mikinn áhuga. „Hann bjó einn í herbergi og var í útistöðum við barnsmóður sína sem leyfði honum ekki að hitta soninn. Ég vorkenndi honum og fannst hann vera óttalegt grey. Hann hafði hvorki aðgang að sturtu né þvottavél. Ég hafði ekki brjóst til þess að neita, ef hann bað um að fá að fara í bað. Eitt sunnudagskvöld í febrúar kom hann og bað um að fá að fara í bað. Ég sagði honum að ég hefði verið boðin í samkvæmi en ekki getað farið þar sem eldri dóttir mín, fjórtán ára, hefði ekki nennt að passa en hún bjó hjá föður sínum á þessum tíma. Hann sagði lítið mál að gæta stelpunnar, ég skyldi bara drífa mig.“
Halldóra fór í samkvæmið og var í burtu í þrjár klukkustundir. Sú ákvörðun hefur plagað hana allar götur síðan. „Þegar ég var að fara spurði hún hvort hún mætti líka fara í bað, eins og Dinni, en ég sagði þvert nei.“

29158-halldora-og-astros-01331

Bréf frá Dinna frænda

„Þegar ég kom úr samkvæminu var dóttir mín hálfsofandi með teiknimynd í myndbandstækinu en hann var að lesa og fór fljótlega heim til sín,“ segir Halldóra. „Eftir þetta kvöld fór hún að pissa undir, hætti að vilja sofa ein og kvartaði ítrekað undan kláða við kynfærin. Nokkrum dögum seinna fer ég með hana í bað og er að leika við hana og tek litla gula plastönd með rauðan gogg og ýti henni undir vatnsborðið og læt hana skoppa upp aftur. Allt í einu segir hún upp úr þurru: „Mamma, þetta er alveg eins og tippið á Dinna.“
Mér dauðbrá og ég kólnaði öll að innan. Þarna var eins og það hafi runnið upp fyrir mér ljós. Dóttir mín sagði ennfremur að Dinni hefði reynt að setja tippið inn í pjölluna hennar en það hefði ekki komist fyrir.“
Ég talaði við lögreglu strax þetta sama kvöld og í kjölfarið gerði ég barnaverndarnefnd viðvart. Meðan málið var til rannsóknar hjá lögreglu barst bréf í póstkassann stílað á dóttur mína. Ég hélt að þetta væri frá foreldrafélaginu og opnaði til að lesa. Þar sagðist bréfritarinn meðal annars hlakka til að nauðga dóttur minni í rassinn og meiða hana. Ég afhenti lögreglu bréfið en rannsókn hjá rithandarsérfræðingi leiddi í ljós að það voru yfirgnæfandi líkur á því að hann hefði skrifað það.
Ég var sjálf misnotuð sem barn og get ekki fyrirgefið sjálfri mér að hafa ekki séð í gegnum manninn,“ segir Halldóra Eyfjörð. „En ég sá það ekki og hann komst upp með að misnota dóttur mína í tvígang, annars vegar á aðfangadag, þegar hann kom í heimsókn með pakka til hennar og var með henni einn inni í stofu meðan ég var að laga mat í eldhúsinu. Hinsvegar þegar hann tók að sér að gæta hennar meðan ég fór út.“

Inni á gafli hjá barnafjölskyldum

Alls var maðurinn grunaður um að hafa misnotað fjórar stúlkur á þessum tíma, þrjár fimm og sex ára gamlar og eina átta ára, en hann gerði sér far um að vingast við barnafjölskyldur. Hann fékk að lokum fimmtán mánaða dóm. Fleiri mál voru til rannsóknar en það tókst ekki að sanna sök í þeim öllum. Meðal annars var hann kærður um svipað leyti fyrir að hafa misnotað son fyrrverandi sambýliskonu sinnar.
„Eftir viðtalið við barnaverndarnefnd tók við langur og erfiður tími þar sem stúlkan okkar var í viðtölum í Barnahúsi og misnotkunin fór að taka á sig mynd,“ segir Sædís. „Ég vantreysti öllu og öllum og upplifði mikinn vanmátt. Við ásökuðum okkur sjálf og hvort annað fyrir að hafa hleypt þessum manni nálægt börnunum okkar. Málið lagðist þungt á okkur og það má segja að við höfum fengið það á heilann,“ segir Sædís. „Bæði meðan það var á leiðinni í gegnum dómskerfið og líka öll árin á eftir. Það er hægt að reyna að ímynda sér hvernig manni líður þegar maður hímir heilt kvöld í köldum bíl, til að sjá honum bregða fyrir þar sem hann býr. Og það eina sem heldur á manni hita er stjórnlaus reiði, næstum því hatur. Maðurinn minn sagðist oft vilja drepa hann ef hann sæi hann aftur. En ég ásaka engan annan fyrir það sem kom fyrir. Því miður vorum við eins og margir aðrir foreldrar í svipuðum aðstæðum. Maður hugsar alltaf; það kemur ekkert fyrir barnið mitt.“

Mál fjögurra stúlkna fyrir rétt

„Við fórum að hittast, nokkrir foreldrar, skiptast á sögum um barnaníðinginn, fylgjast með ferðum hans og hringja í fólk og vara við honum,“ segir Halldóra Eyfjörð. „Það sem hann er dæmdur fyrir er aðeins toppurinn á ísjakanum. Mál fjögurra stúlkna kom fyrir rétt og það tókst að sanna nokkur brot á manninn. En maður getur bara gert sér í hugarlund það sem aldrei er sagt og gerist hjá mönnum með svona einbeittan vilja til að misnota börn. Ég er viss um að hann gekk miklu, miklu lengra, bæði gagnvart þessum börnum og öðrum.“

29158-maedgur-01509

„Þessi maður er æskuvinur bróður míns og tengdist þess vegna fjölskyldunni,“ segir kona frá Húsavík en dóttir hennar var misnotuð af manninum sem var heimagangur á heimilinu. Ég vissi óljóst að hann tengdist einhverju kynferðisbroti á Húsavík þetta árið, en ég var sjálf flutt til Reykjavíkur og allar frásagnir voru misvísandi. Hann var aldrei nefndur nema í hálfum hljóðum í mín eyru, en ég vissi ekki að hann væri sekur um hrottalegt kynferðisbrot gegn þroskaskertu barni. Það vissi ég fyrst seinna.“

Hún segir að það hafi einfaldlega verið þagað meira um svona mál á árum áður og fjölskyldan hafi auk þess verið upptekin af eigin harmleik á þessum tíma. „Bróðir minn lenti í slysi árið 1985 og lamaðist frá brjósti og niður úr. Þá veiktist móðir mín alvarlega. Hann var mjög góður við bróður minn og erfitt fyrir mig að skella á nefið á honum þegar hann fór að kíkja í kaffi til mín endrum og sinnum upp á gamlan kunningsskap. Hún segist hafa verið ein með börnin sín á þessum tíma, fimm ára telpu og átta ára dreng. „Ég lét hann ekki passa börnin mín en í eitt skipti leyfði ég dóttur minni að fara með honum ísbíltúr. Það var nóg. Hann fór með hana beint heim til sín og misnotaði hana. Hún sagði engum frá. En hún einangraði sig meira eftir þetta þótt það lagaðist smám saman með tímanum. En þegar hann kom í heimsókn, fór hún inn til sín og lokaði herbergisdyrunum. Hún var að flýja hann en ég vissi það ekki.”

Og svo hrundi tilveran

„Ég bjó í Grafarvogi þegar ég fékk símtal frá barnaverndarnefnd, þar sem mér er sagt að grunaður kynferðisbrotamaður sé tíður gestur á mínu heimili,“ segir hún. „Þá frétti ég af börnum Halldóru og Sædísar. Dóttir mín var átta ára og fljótlega vaknaði grunur um að hann hafi misnotað hana sumarið áður.  Ég lét hann ekki vita. Hann bókstaflega gufaði upp og hafði aldrei aftur samband.
Tilvera mín hrundi. Kvöld eftir kvöld sat ég inni hjá henni og horfði á hana sofa. „Af hverju gat ég ekki varið hana? Hvað gerði hann við hana? Hún svona lítil og smá og hann svona stór og ruddalegur.
Maður situr alla tíð uppi með samviskubitið. Það svíður jafn sárt núna og þá að hafa ekki getað verndað barnið sitt.“

Hún segir að í gegnum árin hafi hann nokkrum sinnum orðið á vegi sínum. „Þá hellast yfir mig allar tilfinningarnar, dúndrandi hjartsláttur og hnútur í maganum.“
Hún segir að hann hafi ekki reynt að forðast hana þegar leiðir þeirra skarast heldur þvert á móti.„Það er eins og hann njóti þess að ögra og særa og mér er alltaf jafn brugðið.
Í eitt skiptið mætti ég honum inni í verslun þar sem ég var stödd með dóttur minni. Það var verst. Ég bókstaflega fraus í sporunum og rankaði við mér þegar dóttir mín sem hafði ekki tekið eftir honum, snerti mig og sagði: „Mamma af hverju ertu að gráta?Tárin bókstaflega streymdu niður kinnarnar á mér.“

Minningar í þoku

„Ég man óljóst eftir því þegar hann kom inn í líf okkar. Mér fannst hann ógeðfelldur, þar sem það var vond reykingalykt af honum og hann var með gular tennur,“ segir dóttir hennar sem vill ekki koma fram undir nafni. „Þegar maður er barn, treystir maður fullorðnum í blindni en ég hafði samt alltaf varann á mér gagnvart honum. En hann var mikið inni á heimilinu, það var jafnvel eðlilegt að hitta hann þar og aðra heimilismenn. Smám saman ávann sér traust mitt með því að sýna mér mikinn áhuga og gefa mér gjafir. Svo braut hann á mér, fyrst með því að bera sig fyrir framan mig og síðan gekk hann lengra.“

Hún segir að hann hafi ekki nauðgað sér en misnotkunin hefði sjálfsagt gengið enn lengra ef hún hefði ekki haft varann á. „Þetta er skuggi yfir lífinu í dag og kemur oftar upp í hugann en ég vil, það er samt langt síðan ég ákvað að láta þetta ekki eyðileggja meira fyrir mér. Það er ömurleg tilhugsun að ein manneskja geti eyðilagt svo mikið af lífi margra annarra.“

29158_alexandra_yrr_gudmundsdottir

Dætur Sædísar og Halldóru gengu báðar í gegnum mikla erfiðleika á unglingsárunum en hafa báðar náð sér á strik. Ástrós, dóttir Halldóru Eyfjörð, er 22 ára, samkynhneigð og búsett í Reykjavík. Hún segir að minningar frá þessum tíma séu óljósar en hún muni þó ákaflega skýrt eftir baðferðinni, enda hafi hún þurft ítrekað að rifja hana upp í skýrslutökum og yfirheyrslum. „Mig klígjar við ákveðnum aðstæðum, leikföngum í baðkari, ákveðinni lykt.“ Hún segir að fyrir misnotkunina hafi henni fundist Dinni töffari en samt góður. Henni hafi verið hafnað af pabba sínum og átt erfitt samband við hann. Þess vegna hafi hún verið glöð með að fá athygli frá Dinna. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir að hann væri að misnota hana en samt hafi henni fundist þetta rangt og ógeðfellt. Ógeðstilfinningin og reiðin hafi síðan komið seinna þegar hún fór að skilja meira.
Hún segist ekki vita hvernig hún myndi bregðast við ef hann yrði á vegi hennar í dag. „Ég veit ekki hvort ég yrði frekar reið eða hrædd.“

Glennuleg og uppáþrengjandi

Sædís og eiginmaður hennar skildu mörgum árum eftir að barnamisnotkunin komst upp. „Ég veit ekki hvort þetta hafði áhrif á það. Mér finnst það nú samt. Líf okkar allra var í molum um langt skeið og á vissan hátt jafnar maður sig aldrei eftir svona.
Skömmu eftir að málið kom upp fór Alexandra, dóttir mín, að láta furðulega. Hún var glennuleg og uppáþrengjandi við karlmenn og í einu orði sagt óviðeigandi,“ segir Sædís. Sálfræðingurinn hennar sagði að þetta væru mjög þekkt viðbrögð barna í kjölfar kynferðismisnotkunar en ég átti mjög erfitt með þetta og tók til að mynda fataskápinn hennar í gegn og henti öllum fötum sem voru á einhvern hátt óviðeigandi fyrir litla stúlku en slík föt voru mjög vinsæl á þessum tíma.
Hún segir að dóttirin hafi átt erfitt um skeið á unglingsárunum en náð sér á strik. Hún á núna von á sínu fyrsta barni með kærastanum en þau búa í Flórída, í sama bæ og pabbi hennar.
„Ég var svo lítil þegar þetta gerðist og ég veit ekki hvort þetta hafði mikil áhrif á mig,“ segir Alexandra, dóttir Sædísar. „Þegar ég var um það bil þrettán ára fór þetta mál hinsvegar að leita mikið á mig og ég var mjög upptekin af því hvað hann var ógeðslegur, ég leitaði hann uppi á Facebook og vildi fá skýringar en ég fékk þær ekki,“ segir Alexandra. „Og þá langaði mig til að drepa hann. En ég hef hinsvegar ákveðið að láta þetta ekki trufla mig og mína lífshamingju frekar. Ég er hætt að hugsa um þetta mál,“ segir hún.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652