„Offita er áhættuþáttur og sjúkdómur sem við þurfum að bregðast við. Offita er fyrst og fremst heilsufarsvandamál sem leiðir til margra annarra sjúkdóma.“ Þetta segir Erla Gerður Sveinsdóttir, læknir og formaður Félags fagfólks um offitu, en hún segir að með aukinni þátttöku á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar sé hægt að ná tökum á þeirri miklu heilsufarsógn sem offita er.
„Ef við meðhöndlum offitu eins og aðra langvinna sjúkdóma þurfa að vera til úrræði á fyrsta, öðru og þriðja stigi heilbrigðisþjónustunnar. Heilsugæslan starfar á fyrsta stiginu og hún þarf að geta gripið snemma inn í þegar ljóst er að um sé að ræða óæskilega þróun hjá viðkomandi einstaklingi,“ segir Erla Gerður. Á öðru stiginu verður að vera til víðtæk sérfræðiþekking. „Ef kemur í ljós að einfaldari ráðleggingar duga ekki til þarf að fara í nánari greiningu og finna undirliggjandi orsök því hún getur verið margs konar.“ Á þriðja stiginu fer svo fram endurhæfing fyrir þá sem eru verst settir. „Þetta snýst ekki endilega um að borða minna og hreyfa sig meira. Þegar komin er greining á undirliggjandi vanda er hægt að leggja upp með meðferðarplan sem þarf að sérsníða að hverjum og einum.“

Greining á offitu loks niðurgreidd
Erla Gerður hefur, ásamt Lúðvíki Guðmundsson sérfræðilækni, verið að vinna að því að bæta annað og þriðja stig heilbrigðisþjónustunnar, en þau starfa bæði í Heilsuborg sem leggur meðal annars áherslu á forvarnir, ráðgjöf og meðferð við offitu. „Við störfum samkvæmt rammasamningi sérfræðilækna og það er okkur mikið gleðiefni að loksins er greining á offitu niðurgreidd. Það er því ekki fyrr en nú sem annað stig heilbrigðisþjónustu, þegar kemur að offitu, er raunverulega til,“ segir Erla Gerður.
Einstaklingsmiðuð greining
Erla Gerður er einnig formaður Félags fólks um offitu. Meðal baráttumála félagsins er að móta klínískar leiðbeiningar svo heilsugæslan og heilbrigðisstéttir geti stuðst við ákveðið ferli þegar kemur að meðhöndlun offitu. „Við funduðum með landlækni um þetta mál og hann hefur sett þetta svolítið í okkar hendur og nú hefjum við það verkefni að móta þessar leiðbeiningar. Offitan er svo víðtæk og til að setja upp virka meðferð þarf að taka tillit til ýmissa þátta. Andleg líðan, líkamleg heilsa, aðstæður einstaklinga og fyrri reynsla, sem og fjárhagur eru meðal þátta sem þarf að taka tillit til svo meðferð henti viðkomandi einstaklingi. Þess vegna er svo mikilvægt að hver einstaklingur fái góða greiningu á vandanum og einstaklingsmiðaðar leiðbeiningar. Þetta snýst ekki um enn einn matarkúrinn.“
Munur á ofþyngd og offitu
Erla Gerður segir að lífsstílsbreyting sé kjarninn í þessu en hún innifeli hins vegar marga og ólíka hluti. „Þegar um offitu er að ræða er ójafnvægi einhvers staðar sem þarf að leiðrétta. Það að leggja aðaláherslu á kílóin er ekki endilega rétta svarið. Við viljum leggja meiri áherslu á heilsu og vellíðan, því í raun getur maður búið við góða heilsu þó að um aukakíló sé að ræða.“ Erla Gerður segir að þetta snúist um að koma jafnvægi á alla ferla í líkamanum og líða vel með sjálfan sig og vera sáttur. „Ofþyngd er ekki endilega tengd heilsubresti, en getur verið vísbending um neikvæða þróun. Þegar um offitu er að ræða er fituvefurinn orðinn það mikill í líkamanum að hann hefur áhrif á alls konar efnaskipti. Þá er þetta orðinn sjúkdómur, auk þess sem þyngdin sjálf veldur álagi á ýmis líffæri. Þá getur þyngdartap upp á 5-10% snúið við alls konar efnaskiptaójafnvægi. Þetta snýst um að koma líkamanum í jafnt og gott ástand. Heilsa og líðan einstaklingsins er númer eitt, ekki kílóin.“
Holdafar á ekki að vera feimnismál
„Við erum að vakna til meðvitundar um umfang offitu. Það er miklu meiri vakning núna en til dæmis fyrir fimm árum. Framförin er sú að við erum ekki að horfa jafn mikið á megrun og áður,“ segir Erla Gerður. Hún segir hins vegar að eins og andinn í þjóðfélaginu sé í dag eigum við enn langt í land. „Útlitsdýrkunin er mikil og áherslan á kílóafjölda er of mikil. Til að takast á við þetta vandamál þarf heilbrigðiskerfið að taka virkan þátt, það er að lagast en gerist hægt.“ Hún segir einnig að fitufordómar séu fyrirferðamiklir í samfélaginu og mikilvægt sé að vinna markvisst gegn þeim. „Liður í því er að heilbrigðiskerfið taki virkari þátt. Holdafar á ekki að vera feimnismál og fólk þarf að átta sig á því að skömm og vanlíðan þarf ekki að fylgja þeim sem glíma við offitu. Það sýnir styrk að leita eftir aðstoð. Með því að ræða um offitu eins og hvert annað verkefni í heilbrigðiskerfinu og á faglegum nótum munum við ná að koma í veg fyrir fitufordóma.“
Heilsufarsógn sem hægt er að taka á
Varðandi forvarnir segir Erla Gerður að mikilvægt sé að opna á umræðuna. „Við þurfum að taka á vandanum áður en hann verður of mikill. Með almennri heilsueflingu er hægt að koma í veg fyrir ýmis konar heilsubrest svo sem stoðkerfissjúkdóma og hjarta- og æðasjúkdóma og sama nálgun dugar í raun til að draga úr offitu. Það er margt sem við getum gert og ég er bjartsýn á að við getum náð miklu betri tökum á þessum vanda og tekist á við þessa miklu heilsufarsógn. Við þurfum að vanda okkur og sýna samstöðu.“