Skóla- og frístundarsvið mun ekki hlutast til um það þó starfsmaður Korpukots, sem er sakaður um að hafa beitt barn ofbeldi, sé þar enn að störfum. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Skóla- og frístundarsviði Reykjavíkurborgar sem segist ekki eiga í ráðningarsambandi við sjálfstætt starfandi leikskóla.
Ofbeldisdeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur málið til rannsóknar en því var vísað þangað frá Barnaverndaryfirvöldum í Kópavogi. Fréttatíminn ræddi við móður sem hafði vísað málinu til barnaverndaryfirvalda eftir að hún uppgötvaði ljóta áverka á líkama dóttur sinni í lok ágúst og birtist viðtali við hana í blaðinu í gær. Móðirin gagnrýnir skólastjóra Korpukots harðlega og sagði hana meðal annars hafa ætlað að víkja starfsmanninum frá störfum á meðan rannsókninni stæði, en stúlkan greindi sjálf frá nafni starfsmannsins þegar hún var spurð um ofbeldið.
Leikskólastjórinn upplýsti svo foreldra fyrst um atvikið á þriðjudaginn síðastliðinn, en fullyrti jafnframt að rannsókn leikskólans, hefði leitt í ljós að ásakanirnar væru tilhæfulausar. Þess ber þó að geta að rannsókn lögreglu er ekki lokið.
Fréttatíminn spurði einnig hvort Skóla- og frístundarsvið myndi endurskoða samstarf sitt við leikskólann, sem er einkarekinn. Svarið var eftirfarandi: Sviðið hefur leiðbeiningarskyldu og gerir kröfur um úrbætur ef með þarf. -vg