Össur var eini þingmaður stjórnarandstöðunnar sem greiddi frumvarpinu atkvæði sitt, en það gerði hann ekki í fyrri umræðum.
Varaþingmaðurinn, Margrét Gauja Magnúsdóttir, greiddi aftur á móti atkvæði með frumvarpinu í annarri umræðu, en hún segir í samtali við Fréttatímann að það hafi hún gert fyrir mistök.
„Ég ætlaði að sitja hjá,“ sagði hún undrandi þegar blaðamaður hafði samband við hana. Atkvæði stendur engu að síður.
Frumvarpið hefur raunar hleypt illu blóði í Samfylkingarmenn. Ritari Samfylkingarinnar, Óskar Steinn Jónínu- og Ómarsson, þurfti að biðja Egil Einarssonar, einkaþjálfara og fjölmiðlamann, afsökunar eftir að hafa misst stjórn á sér og kallað hann illum nöfnum á Twitter sem Vísir greindi frá.
Óskar vakti athygli á umræðunni um frumvarpið á meðan Unnur Brá Konráðsdóttir gaf barni sínu brjóst, en hún var einn af flutningsmönnum frumvarpsins ásamt Sjálfstæðis- og Framsóknarmönnum í Allsherjar- og menntamálanefnd. Egill gagnrýndi þá Óskar sem brást hinn versti við gagnrýninni og sagði honum að „fokka sér“ og þaðan af verra.
Fréttatíminn hafði samband við Óskar Stein og spurði út í afstöðu þingmanna flokksins.
Óskar sagði Össur þurfa að svara fyrir sitt atkvæði, en sjálfur teldi hann að það ætti að auðvelda fólki að sækja hér um almennt dvalarleyfi.
„Við erum að sjá fram á gríðarlega þörf á erlendu vinnuafli á komandi árum og þá er galið að loka landinu svona fyrir fólki sem vill búa hér.“-vg