Á sumrin eru fleiri kettir yfirgefnir en á öðrum árstímum. Ástæðurnar geta verið sumarfrí, ofnæmi eða flutningar en Halldóra Snorradóttir umsjónarmaður Kattholts segir að oftar en ekki megi rekja yfirgefna ketti til óábyrgra eigenda. Í Kattholti eru núna 22 kettlingar á öllum aldri og 40 fullorðnir kettir. Langflestir eru ómerktir en þar eru líka örmerktir kettir sem eigendur vilja ekkert með hafa. Esjan virðist vera orðin vinsæll staður til að losa sig við ketti.
„Sumartíminn er erfiður. Þá fáum við mikið af kettlingafullum læðum og læðum með kettlinga til okkar því þá er metfjöldi af læðum að gjóta, það bara fylgir sólinni og birtunni,“ segir Halldóra Snorradóttir, umsjónarmaður í Kattholti, en óvenju mörgum yfirgefnum köttum hefur verið skilað í Kattholt síðustu vikur. „Óábyrgir eigendur sem hirða ekki um að taka læðurnar úr sambandi hafa engan áhuga á því að auglýsa eftir eigendum fyrir kettlingana og oftar en ekki eru kassar með kettlingum settir hér fyrir utan. En með því er fólk auðvitað bara að firra sig ábyrgð. Ef allt fyllist hér af kössum þá er ekkert víst að við getum nokkuð gert fyrir þessa kettlinga,“ segir Halldóra.
Dýrum fylgir ábyrgð
„Fólk losar sig við ketti af alls kyns ástæðum; ofnæmi, vegna húsnæðisvandamála eða hreinlega leiða, en vandinn eykst alltaf yfir sumartímann þegar fólk fer að fara í sumarfrí,“ segir Halldóra. „Fólk fær sér oft dýr í allt of mikilli fljótfærni og án þess að gera sér grein fyrir ábyrgðinni sem fylgir því að eiga dýr. Ef fólk er alls ekki fært um að eiga dýrið sitt áfram verður það að taka sjálft ábyrgðina og annaðhvort finna því heimili eða þá svæfa dýrið. Það þýðir ekkert að skilja dýrið eftir hér fyrir utan eða úti á götu og setja þannig ábyrgðina yfir á aðra.“
Hent úr bílum við Esjuna
Halldóra segir það mjög algengt að fólk skilji ketti eftir í tómum íbúðum en að einnig hafi það færst í vöxt að fólk keyri út fyrir bæjarmörkin til að skilja kettina eftir fjarri byggð. „Fólk keyrir mikið upp að Esju og hendir þeim úr bílnum þar. Það hefur verið að finnast mikið af köttum þar núna í sumar. Oftast eru þetta yngri kettir, sem eru yfirgefnir af fólki sem hefur greinilega ekki myndað nein tengsl við dýrið.
Það er alls konar fólk sem yfirgefur dýrin sín svona, í einhverjum tilfellum eru þetta greinilega veikir einstaklingar, en þetta eru líka fjölskyldur sem hafa fengið leiða á kettinum. Það er hreinlega til í dæminu að fólk losi sig við eldri kött um sumarið og fái sér svo kettling um haustið.“
The post Mikið um að kettir séu skildir eftir við Esjuna appeared first on FRÉTTATÍMINN.