Auðlindir
Í nýrri stjórnarskrá er tekið skýrt fram að auðlindir Íslands, s.s. fiskimiðin og nýtingarréttur þeirra, séu sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Vinna Stjórnlagaráðs við auðlindaákvæðið fólst fyrst og fremst í að tryggja það að þjóðin fengi sanngjarnan arð af auðlindum og að þeim væri úthlutað til hóflegs tíma í senn til að koma í veg fyrir ofnýtingu. Sjálfbærnihugtakið var leiðarstef þeirrar vinnu. Í gömlu stjórnarskránni er ekkert minnst á hver eigi auðlindirnar og hvernig sé best að nýta þær
Stjórnkerfið
Í nýrri stjórnarskrá er lögð áhersla á að auka valddreifingu og auka gegnsæi og ábyrgð ráðamanna. Þar er til dæmis tekið fyrir að ráðherrar sitji á þingi og þannig skerpt á þrígreiningu ríkisvalds. Sannleiksskylda er auk þess lögð á ráðherra og þingmenn og gerð er krafa um að þingmenn gefi upp öll sín hagsmunatengsl. Wintris-málið hefði væntanlega þróast á annan veg hefði verið stjórnarskrárbundin skylda á herðum Sigmundar Davíðs um að gefa öll sín skattamál upp.
Heilbrigðiskerfið
Allir eiga rétt á að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er, segir í nýrri stjórnarskrá og er sú setning tekin beint upp úr alþjóðlegum sáttmála sem Ísland hefur þegar undirgengist. Auk þess segir að öllum verði að vera tryggður með lögum réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Viðeigandi gæti hér átt við allt frá vinnutíma starfsfólks sjúkrahúsanna og til þess hvort sjúklingar þurfi að sofa á göngum, en þetta yrði útfært nánar í almennum lögum. Í gömlu stjórnarskránni segir að öllum þeim, sem þess þurfi, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Setningin „þeim sem þess þurfi“ gefur svigrúm til túlkunar sem ekki er til staðar í þeirri nýju.
Kosningakerfið
Í nýrri stjórnarskrá er gerð tilraun til að færa valdið í auknum mæli til fólksins. Þar er til að mynda opnað á persónukjör og að hægt verði að greiða atkvæði þvert á flokka. Þar er líka tryggt að öll atkvæði vegi jafnt. Það má líka sjá tillögur um að setja á stjórnarskrárvarin réttindi fólks til að taka þátt í eigin ákvörðunum. Ein tillagan snýr að því að 10% kjósenda geti krafist þess að umdeild löggjöf verði send í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins geta 10% lagt fram frumvarp á Alþingi sem Alþingi getur þá annaðhvort samþykkt eða komið fram með gagntillögu og þá er valið í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Framtíðin
Sjálfbærnihugsunin er fyrirferðarmikil í nýrri stjórnarskrá en kemur ekki fyrir í þeirri gömlu. Samkvæmt þeirri nýju höfum við sem búum hér í dag ekki leyfi til þess að ganga um landið og gert það sem okkur sýnist. Tekið er fram að nýtingu náttúrugæða skuli haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur. Komandi kynslóðir fá ekkert pláss í gömlu stjórnarskránni en í þeirri nýju er talað um rétt komandi kynslóða og tekið er á réttindum barna með mun meira afgerandi hætti.