Sem kunnugt er samþykkti meirihluti þeirra sem skiluðu gildum atkvæðum í þjóðaratkvæðagreiðslunni fimm af sex spurningum sem lagðar voru fyrir kjósendur. 83 prósent vildu að í nýrri stjórnarskrá yrðu náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, lýstar þjóðareign. 78 prósent vildu að í nýrri stjórnarskrá yrði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er. 73 prósent vildu að í nýrri stjórnarskrá yrði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. 66 prósent vildu að í nýrri stjórnarskrá yrði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt. Og 57 prósent vildu að í nýrri stjórnarskrá yrði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
Þetta síðasta var eina ákvæðið sem ekki var í tillögum Stjórnlagaráðs. Þar var lagður til aðskilnaður ríkis og kirkju. Vilji meirihlutans í hinum álitamálunum fór saman við tillögur Stjórnlagaráðs. Enda samþykkti meirihlutinn, 67 prósent gildra atkvæða, að tillögur Stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Niðurstaðan var sem sé skýr. Málið var lagt fyrir þjóðina og hún kom með niðurstöðu.
Málið þæft og kæft
Stjórnmálaflokkunum og alþingismönnum mistókst hins vegar að fara eftir þessum tilmælum þjóðarinnar. Sumir gerðu það viljandi, voru á móti málinu þótt niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni væri skýr. Það á bæði við um forystumenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á síðasta kjörtímabili og því sem nú er að líða.
Mikil átök voru innan Samfylkingar í lok síðasta kjörtímabils. Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri vildu leggja fram frumvarp byggt á drögum Stjórnlagaráðs en aðrir þingmenn, undir forystu Árna Páls Árnasonar, vildu gera samkomulag við þá þingmenn, sem vildi ekki fara eftir niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Með öðrum orðum að búa til málamiðlun milli skýrs vilja þjóðarinnar og þeirra stjórnmálamanna sem vildu ekki hlíta niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Slíkt samkomulag fór í gegn fyrir þinglok 2013. Það átti að verða forsenda áframhaldandi vinnu á síðasta kjörtímabili. Hún leiddi til tillagna stjórnlaganefndar þingsins, sem bauð upp á takmarkaðar og útvatnaðar breytingar miðað við niðurstöðu þjóðaratkvæðisins og tillögur Stjórnlagaráðs.
Þegar þær birtust síðan á þinginu í formi þingmannafrumvarps Sigurðar Inga Jóhannessonar forsætisráðherra kom í ljós að enginn hafði áhuga á málinu. Þeir þingmenn sem vildu hlýða þjóðinni sáu að þessar tillögur voru varla skref í þá átt. Þeir sem engu vildu breyta sáu enga ástæðu til að beita sér fyrir breytingum.
Niðurstaðan varð sú að eftir fjögur ár hafði Alþingi ekki enn tekist að setja saman frumvarp samkvæmt vilja þjóðarinnar, eins og hann birtist í niðurstöðu þjóðaratkvæðisins.
Þingið hlustar ekki
Það er sláandi fyrir íslenska kjósendur að fylgjast með viðbrögðum breskra stjórnmálamanna við niðurstöðum þjóðaratkvæðis um veru Bretlands í Evrópusambandinu. Þrátt fyrir að meirihluti þingheims og meirihluti ríkisstjórnarinnar hafi barist fyrir áframhaldandi veru landsins í ESB beygðu allir sig undir niðurstöðuna. Þjóðin hafði talað og þá bar stjórnmálamönnum að hlusta. Engum í Bretlandi datt í hug að efast um það.
Það var ekki vegna þess að í lýðræðið í Bretlandi sé í grundvallar atriðum ólíkt því sem er á Íslandi. Bæði lönd eru lýðræðisríki þar sem fullveldið liggur hjá þjóðinni, ekki þeim fulltrúum sem hún kýs. Breskir stjórnmálamenn mátu það algjörlega ómögulegt annað en að hlýða þegar niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar lá fyrir. Allt annað var talið jaðra við valdarán.
Í ljósi þess sést hversu alvarlega staða er uppi á Íslandi. Hér hefur verið sú staða uppi í fjögur ár í dag, að Alþingi og stjórnvöld fara ekki eftir skýrum vilja þjóðarinnar.
Nýr meirihluti
Eins og fram kemur í Fréttatímanum í dag hafa fjórir flokkar undirritað yfirlýsingu um að fara eftir þjóðaratkvæðagreiðslunni á næsta kjörtímabili og leggja fram frumvarp sem byggir á drögum Stjórnlagaráðs að stjórnarskrá. Þetta eru stjórnarandstöðuflokkarnir Píratar, Vinstri græn, Samfylking og Björt framtíð. Dögun hefur einnig fallist á þessa stefnu. Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðufylkingin hafa hafnað henni en svör hafa ekki borist frá Framsóknarflokknum og Viðreisn.
Flokkarnir sem hafa skuldbundið sig að koma í gegn stjórnarskrárbreytingum eftir tillögu Stjórnlagaráðs hafa nálægt helmings fylgi, samkvæmt skoðanakönnunum, meira í sumum en minna í öðrum. Þar sem nokkuð af atkvæðum falla dauð, þar sem allir flokkar í framboði ná ekki á þing, má ætla að staðan í skoðanakönnunum nú bendi til að þessir fjórir flokkar nái meirihluta á þingi.
Það er því líklegt að meirihluti sé að myndast á þingi fyrir að fara að vilja þjóðarinnar. Hann er reyndar naumur, eins og ótrúlegt og það hljómar. En að öllum líkindum ætti hann að duga til að koma nýrri stjórnarskrá í gegn. Það sem gæti hindrað það væri ef einn eða fleiri af þessum flokkum færi í ríkisstjórn og fórnaði þessu máli þrátt fyrir skuldbindandi yfirlýsingu nú.
Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is