Það eru miklar líkur á að eftir kosningar verði sjö þingflokkar á þingi, einum fleiri en eru nú. Þingflokkum hefur farið fjölgandi eftir því sem kjördæmaskipaninni hefur verið breytt þannig að fleiri þingmenn eru kjörnir úr færri og stærri kjördæmum. Þótt iðulega sé talað um fjórflokk þá hafa ekki svo fáir þingflokkar verið á þingi síðan á kjörtímabilinu 1979 til 1983, fyrir 33 árum. Síðan þá hafa fimm flokkar setið á þingi helming tímans en sex flokkar helminginn. Það ætti því enginn að undra sig á því að sjö flokkar settust á þing eftir kosningar. Og það er allt eins líklegt að þeir verði átta eftir næstu kosningar.
Methafar í fylgisaukningu
Það eru mörg met í hættu í komandi kosningum. Píratar hafa enn ágæta möguleika á að slá Íslandsmet í fylgisaukningu. Núgildandi met setti Alþýðuflokkurinn 1978 þegar fylgi hans stökk upp um 12,9 prósentustig eftir kröftuga kosningabaráttu þar sem Vilmundur Gylfason var einna mest áberandi. Til að slá það met þurfa Píratar að ná 18,0% atkvæða. Þeir voru vel yfir því hjá MMR (19,6%), rétt yfir hjá Gallup (18,3%) en undir metinu hjá Félagsvísindastofnun (17,5%). Annað sætið í fylgisaukningu á Framsóknarflokkurinn undir forystu Hermanns Jónassonar frá 1959. Þá hækkaði Framsókn um heil 11,6 prósentustig. Til að krækja í silfrið þurfa Píratar því að komast í 16,7% atkvæða. Þau eru enn yfir því marki í öllum könnunum.
Annars er topp tíu listinn yfir fylgisaukningu eldri framboða þessi:

Það kemur kannski mörgum á óvart hversu lítil hreyfing á fylgi fleytir flokkum inn á þennan lista. Meginreglan er að fylgi flokka hreyfist lítið milli kosninga, það þarf mikið að ganga á svo flokkar bæti við sig mörgum prósentum.
Íslandsmet nýliða
Viðreisn gæti slegið metið í fylgisaukningu með góðum endaspretti. Flokkurinn mælist nú með á bilinu 10,2% (MMR) til 12,4% (Gallup). Þaðan er ekki svo langt í 12,9%. Þótt það náist ekki á Viðreisn möguleika á öðru Íslandsmeti, í flokki nýrra flokka. Gildandi Íslandsmet á Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar frá 1987, 10,9%. Sama ár fékk Kvennalistinn 10,1% atkvæða.
Topp listi nýrra flokka er annars svona í dag. Hér eru ekki talin með sameiningar flokka og því teljast ekki með fyrstu framboð Samfylkingarinnar, Alþýðubandalagsins eða Sósíalistaflokksins. Þessir flokkar teljast til arftaka eldri flokka. Klofningsframboð teljast hins vegar með og þar á meðan Vinstrihreyfingin – grænt framboð.


Ég veit ekki hvort raunhæft sé að Flokkur fólksins komist upp fyrir fylgi Frjálslynda flokksins frá 1999. Ári eftir þær kosningar var kosningalögum breytt svo að flokkar, sem ekki ná inn kjördæmakjörum þingmanni, þurfa að fá 5 prósent eða meira til að koma til greina við útdeilingu uppbótarmanna. Það kann því ekki að duga Flokki fólksins að komast yfir Sverri Hermannsson og félaga til að ná inn á þing.
Þegar listinn er skoðaður verður að segjast að það er nokkurt afrek hjá Benedikt Jóhannessyni að vera kominn í þá stöðu að sigra á þessum lista. Þarna eru margir af helstu refum og baráttujöxlum íslenskra stjórnmála; Albert, Steingrímur J., Hannibal, Vilmundur, Jóhanna og Sverrir Hermannsson, auk Gvendar Steingríms og Birgittu. Benedikt yrði eini forystumaðurinn sem ekki hefur áður setið á þingi, fyrir utan Birgittu og aðra frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar.
Íslandsmet í tapi
Íslandsmet í fylgistapi liggur hjá Samfylkingunni 2013, nokkrum mánuðum eftir að Árni Páll Árnason tók við af Jóhönnu Sigurðardóttur sem formaður. Þá missti Samfylkingin 16,9 prósentustig. Næstum því sjötti hver Íslendingur var í þeim hópi sem kaus Samfylkinguna 2009 en ekki 2013.
Miðað við skoðanakannanir eiga aðeins Framsóknarmenn möguleika á að slá þetta met. Til að ná því má Framsókn ekki fá meira en 7,5 prósent atkvæða. Flokkurinn þyrfti þá að tapa miklu á síðustu tveimur vikum því hann hefur fengið á bilinu 8,6 til 9,8% í síðustu könnunum. Það er því líklegra að Framsókn kræki í silfurverðlaun í fylgistapi. Til þess þarf hann að komast undir 11,5 prósent. Þá nær hann silfrinu af Sjálfstæðisflokknum í fyrstu kosningum eftir Hrun, en þá féll flokkurinn um 12,9 prósentustig. Sjálfstæðisflokkurinn á líka bronsið, en eftir að Albert Guðmundsson klauf sig úr flokknum 1987 féll flokkurinn um 11,4 prósentustig í kosningum.


Skiljanlega raða Framsókn og Sjálfstæðisflokkur sér á þennan lista. Flokkar sem hafa haft mesta fylgið hafa mestu fylgi að tapa. Það vekur hins vegar athygli hversu mikið af forystufólki dagsins í dag hefur mátt þola mikið tap; Árni Páll, Bjarni og Katrín. Þau hafa hins vegar öll þá afsökun að hafa erft vonlitla stöðu frá forverum sínum; Jóhönnu Sigurðardóttur, Geir H. Haarde og Steingrími J. Sigfússyni.
Sögulegur toppur
Nokkrir flokkar eiga möguleika á að ná sögulegu hámarki í fylgi. Píratar eru líklegastir. Úr þessu má heita ómögulegt að þeir fari ekki yfir þau 5,1% sem þeir fengu 2013. Björt framtíð fékk 8,2% 2013 og eygir möguleika á að slá það met, hefur verið með á bilinu 7,7 til 8,2% í síðustu könnunum. Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Samfylking eiga enga raunhæfa möguleika á að slá út sína bestu útkomu og VG þyrfti að eiga stórkostlegan endasprett í kosningabaráttunni til að komast yfir þau 21,7 prósent sem flokkurinn fékk 2009. Í könnunum undanfarið hefur flokkurinn mælst með 14,5 til 17,7 prósent.
Sögulegur botn
Nokkrir flokkar stefna að sögulegum botni. Hingað til hefur Samfylkingin ekki fengið lakari útkomu en í síðustu kosningum, 12,9%. Í síðustu skoðanakönnunum hefur flokkurinn mælst með 6,9 til 9,0 prósent. Frambjóðendur flokksins þurfa að eiga stórkostlegan endasprett til að komast yfir sögulegan botn. Samfylkingin er líkleg til að fara undir sögulegan botn forvera sinna.

Sjálfstæðisflokkurinn er einnig líklegur til að fara undir sitt minnsta sögulega fylgi, sem er 23,7 prósent 2009, fáum mánuði eftir Hrun og aðeins mánuði eftir að Bjarni Benediktsson tók við af Geir H. Haarde sem formaður flokksins. Í síðustu könnunum hefur Sjálfstæðisflokkurinn mælst með 21,4 til 22,6 prósent og þarf því góðan endasprett til að koma sér yfir fylgið frá 2009.


Framsóknarflokkurinn fór lægst árið 2007 þegar Jón Sigurðsson leiddi flokkinn í kosningabaráttu eftir erfitt kjörtímabil. Halldór Ásgrímsson hafði þá tekið við forsætisráðuneytinu af Davíð Oddssyni en gefið það aftur frá sér og hætt í stjórnmálum. Jón tók þá við flokknum og leiddi kosningabaráttu sem skilað aðeins 11,7 prósent atkvæða. Framsókn mælist nú með 8,6 til 9,8 prósent fylgi og því er líklegra en ekki að flokkurinn fari undir sína lélegustu útkomu.


Fjórflokkur slær smæðarmet
Það þarf ekki að taka fram að þegar þrír af hinum svokallaða fjórflokki eru undir sínu lélegasta fylgi að þá er líklegt að samanlagt fylgi fjórflokksins sé það. Síðustu kannanir hafa sýnt samanlagt fylgi Sjálfstæðisflokks, Framsóknar, Samfylkingar og VG í 54 prósent og rétt rúmlega það. Í síðustu kosningum fengu þessir flokkar 74,9 prósent atkvæða, eilítið meira en þeir og forverar þeirra fengu 1987 þegar Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar og Kvennalistinn fengu báðir góða kosningu. Þá fékk fjórflokkurinn 74,6 prósent atkvæða. Annars hafa þessir flokka alla tíð verið með um og yfir 90 prósent fylgi, að aðeins einum kosningum undanskildum; 1995 þegar bæði Þjóðvaki og Frjálslyndi flokkurinn náðu mönnum á þing. Þá fékk fjórflokkurinn 86,1 prósent atkvæða.
Sósíalisminn nálægt botni
Samanlagt fylgi Samfylkingarinnar og VG í könnunum er nú 21,6 til 24,6 prósent í könnunum. Það er nálægt sögulegum botni þessara fánabera sósíalismans, helstu stjórnmálastefnu síðustu aldar. Í síðustu kosningum guldu flokkarnir mikið afhroð og fengu samanlagt 23,8 prósent atkvæða. Þeir eru samkvæmt könnunum á svipuðum stað í stað og gætu jafnvel slegið metið frá því síðast, met í dræmu fylgi sósíalismans. Leita þarf aftur til 1931, 85 ár aftur í tímann, til að finna lægra fylgi sósíalísku flokkanna en þá fengu Alþýðuflokkur og Kommúnistaflokkurinn samanlagt 18,7 prósent fylgi.
Fyrst í kjördæmum
Kosningarnar í lok mánaðarins gætu einnig orðið merkar fyrir það að annað hvort Einar Aðalsteinn Brynjólfsson Pírati eða Steingrímur J. Sigfússon í VG gætu orðið fyrstu þingmenn Norðausturkjördæmis ef miða má við kannanir. Það væri sögulegt ef Pírati yrði fyrsti þingmaður þessa kjördæmis en fyrir utan Steingrím J., eftir kosningarnar 2009, hafa aðeins Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn fengið flest atkvæði allra flokka í þessum kjördæmi og forverum þess; Norðurlandi eystra og Austurlandi.
Það gæti líka gerst í Reykjavík norður að þar yrði Pírati fyrsti þingmaður, Birgitta Jónsdóttir, eða þá Katrín Jakobsdóttir hjá VG. Samfylkingin náði þessum heiðurssessi af Sjálfstæðismönnum tvívegis; 2003 og 2009. Samfylkingin var líka með fyrsta þingmann Reykjavíkur suður 2009. Annars hafa Sjálfstæðismenn ætíð verið fyrstu þingmenn Reykjavíkurkjördæmanna og Reykjavíkurkjördæmis áður en borgin var klofin. Miðað við kannanir er enn líklegra að Sjálfstæðisflokkurinn missi fyrsta þingmann Reykjavíkur suður og það verði annað hvort Svandís Svavarsdóttir frá VG eða Ásta Guðrún Helgadóttir Pírati.
Það þarf hins vegar mikið að ganga á til að Sjálfstæðismenn nái ekki fyrstu þingmönnum Suðvestur-, Norðvestur- og Suðurkjördæmanna. Framsóknarmenn eiga ekki raunhæfa möguleika á að verða stærstir í neinu kjördæmi, öfugt við síðustu kosningar þegar Gunnar Bragi Sveinsson í Norðvestri, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í Norðaustri og Sigurður Ingi Jóhannsson í Suðri voru allir fyrstu þingmenn síns kjördæmis.
Fæstu atkvæðin
Alþýðufylkingin og Húmanistaflokkurinn keppa í sérdeild fyrir þessar kosningar, eins og síðast, ef marka má kannanir; í flokki flokka sem fá um og yfir hundrað atkvæði.


Eins og sjá má eiga bæði Þorvaldur Þorvaldsson og Júlíus Valdimarsson ágæta möguleika á að ná að skrá nafn sitt öðru sinni á lista yfir þau framboð sem hafa fengið fæst atkvæði. Sturla Jónsson, sem nú er í framboði fyrir Dögun, fékk 222 atkvæði í kosningunum 2013 og vermir ellefta sætið á þessum lista.










Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is