„Við samþykktum þetta, en til þess að flýta hreinlega fyrir,“ segir Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en hún og Halldór Halldórsson, oddviti flokksins í borginni, bókuðu á fundinum að það væri gagnrýnivert að ekki væri betur staðið að málum á þessu svæði þar sem reynt hefur verulega á þol rekstraraðila og íbúa þar sem áætlanir hafa ekki staðist varðandi framkvæmdatíma.
„Þetta er búið að taka allt of langan tíma og allir þarna í kring eru orðnir langþreyttir,“ segir Hildur um lokun fyrir umferðina. Hildur segir þó ágætt að fá stæði séu undir, og að bílastæðahús séu mjög nálægt.
Hún segir borgina hafa lofað að það yrði aftur opnað fyrir umferð 30. nóvember, þegar jólavertíðin fer að hefjast fyrir alvöru. Spurð hvort hún sé bjartsýn á að það takist svarar hún: „Þeir hafa lofað að taka þennan krana niður með góðu eða illu á þeim tíma. Verður maður ekki bara að trúa því?“ -vg