Rúmlega 300 manns voru handtekin í alþjóðlegum lögregluaðgerðum Europol og samstarfsaðila stofnunarinnar á dögunum og náði aðgerðin til ríflega fimmtíu landa. Um er að ræða samstarfsverkefni undir heitinu Operation Ciconia Alba þar sem ráðist hefur verið gegn skipulagðri brotastarfsemi um allan heim. Fjölmargir, eða um 70, voru handteknir í tengslum við rannsóknir mansalsmála, 529 einstaklingar reyndust vera fórnarlömb mansals, þar af tvær konur hér á landi.
„Málið er náttúrulega á frumstigi,“ segir Snorri Birgisson, hjá mansalsdeild lögreglu. Mansalsmálin tvö snúa að fjórum vændiskonum og er enn of snemmt að segja að konurnar séu fórnarlömb í málinu, að sögn Snorra.
Spurður hvort grunur leiki á að Íslendingar standi að baki mansalinu segir Snorri það ólíklegt.
„Það er líklegra að þetta tengist erlendum einstaklingum, eða erlendum brotahópum sem senda einstaklinga hingað til lands í þessum tilgangi,“ segir Snorri. Hann segir mikla aukningu á vændi hér á landi meðfram auknum ferðamannastraumi. Það sé nýr veruleiki hjá lögreglunni.
„Þannig að maður er farinn að hafa nokkrar áhyggjur af því hvað það eru orðnir miklir peningar í þessu,“ segir Snorri en Ísland hefur hingað til ekki verið í alfaraleið þegar kemur að því að senda erlenda vændiskonur hingað til lands. Þeir sem standa á bak við vændið geta auðveldlega nýtt sér netið til þess að undirbúa komu kvennanna sem staldra yfirleitt stutt við. Þjónusta þeirra er svo auglýst víða á netinu. -vg