Norðmenn njóta virðingar í alþjóðasamfélaginu fyrir að vera rausnarlegir í móttöku flóttamanna og úrræðagóðir í skapa fjölmenningarsamfélög. Þeir hafa hlutfallslega tekið við margfalt fleiri flóttamönnum en Íslendingar, og í Noregi býr 4,5% hærra hlutfall innflytjenda en á Íslandi.
Norðmenn reyndust árið 2014 vera fjórða besta þjóðin í móttöku og aðlögun innflytjenda, samkvæmt alþjóðlegri samanburðamælingu MIPEX. Í mælingunni var horft til hvernig pólitískar ákvarðanir þjóðanna hafa veitt innflytjendum gjaldgengi í samfélaginu. Mældir voru nærri 150 pólitískir áhrifaþættir og var horft til atvinnuþátttöku innflytjenda, menntunar, stjórnmálaþátttöku, aðgengi að heilbrigðisþjónustu og ekki síst verndar gegn mismunun. Þótt Norðmenn komi vel út úr þessum mælingum, hefur verndin gegn mismunum ekki náð til frumbyggja landsins, Samanna, sem enn eru beittir órétti og sviptir grundvallarmannréttindum. Í nýrri viðamikilli rannsókn sem gerð var af greiningarnefnd samískra málefna, á aðstæðum 12 þúsund Sama í Noregi, kemur í ljós að þeir eru fjórum sinnum líklegri til að verða mismunað en meðal Norðmönnum. Rannsóknin var gerð á Sömum í 25 sveitarfélögum í norðri og varpar ljósi á að enn sé langt í að Samar verði metnir til jafns við aðra Norðmenn. Þriðji hver Sami í Noregi hafði orðið fyrir einelti vegna uppruna síns, sýndi doktorsrannsókn frá árinu 2011 sem Ketil Hansson vann við háskólann í Tromsö.
Samarnir eru ævaforn þjóðflokkur sem býr í Sápmi, landsvæði sem nær frá Noregi til Svíþjóðar, Finnlands og yfir á Kólaskaga í Rússlandi. Þjóðflokkurinn telur um það bil hundrað þúsund og langflestir þeirra, rúmur helmingur, búa í Norður-Noregi. Lífsskilyrði Sama eru afar ólík eftir búsetu en eitt eiga þeir sameiginlegt – réttindi þeirra hafa verið þverbrotin í öllum löndunum.
Óþægilegur sannleikur hefur gægst upp á yfirborðið á undanförnum árum, um meðferð Norðmanna á Sömum. Þótt alkunna sé að Samar hafi verið beittir misrétti í gegnum tíðina hafa stofnanir á borð við UNESCO, Sameinuðu þjóðirnar og rannsóknarstofnun um málefni Sama bent á að enn sé brotið á réttindum þeirra. Sagan er óuppgerð. Afleiðingar hinnar svokölluðu norsku-væðingar þjaka samfélagið enn en það var stefna norska ríkisins fram til 1950 og hefur rænt fjölmarga Sama tungumáli sínu, trú, stolti og einstakri menningararfleifð.
Saga Samanna er að mörgu leyti svipuð annarra frumbyggja í heiminum, þar sem menning þeirra hefur verið bæld niður með kerfisbundnum hætti landnema. Þannig hafa Samar misst yfirráða- og eignarétt yfir landsvæðum sínum í norðri og tungumáli þeirra hefur verið útrýmt með lögum sem til dæmis bönnuðu kennslu á öðrum tungumálum en norsku. UNESCO telur að þremur mállýskum Sama hafi algjörlega verið útrýmt, og þrjár mállýskur séu enn í verulegri útrýmingahættu.
Í Noregi hófst aðförin að Sömum af fullum þunga á átjándu öld þar sem kirkjan, ríkið og meginþorri landsins lagðist á eitt við að ráða niðurlögum á hinum „frumstæðu“ siðum og venjum Samana. Samarnir hafa alla tíð lifað af hreindýrarækt og fiskveiði í harðgerri náttúrunni í norðri og hafa þróað með sér aðferðir við að lifa í kulda og myrkri.

Heimskir villimenn
Viðhorf Norðmanna til Sama virðist enn mótað af staðalmyndum sem dregnar hafa verið upp í fjölmiðlum í gegnum tíðina. Staðalmyndir af fáfróðum villimönnum sem skilja lítið í siðmenntuðu samfélagi og geta illa tileinkað sér nútímatækni. Um þetta er meðal annars er fjallað í bók Arne Johanssen sem rýnir í framsetningu Sama í fjölmiðlum á árunum 1970 til 2000. Þar er bent á að á síðari árum hafi fréttir af Sömum einkennst af neikvæðum átakafréttum þar sem reynt er að grafa undan þeirra helstu atvinnugreinum, svo sem hreindýraræktinni.
„Umfjöllun um hreindýrarækt var jákvæðari á áttunda áratugnum en hún hefur verið á undanförnum árum. Stöðugt hefur verið gefið í skyn að hreindýraræktin sé allt að því glæpsamleg og hlægileg. Fjölmiðlar fjalla um slagsmál, hreindýrastuldi og glæpi, rétt eins og ræktunin standi í vegi fyrir nútíma samfélagi. Neikvæðir atburðir eru oftast tilefni til fréttaskrifa um Sama og sífellt var hreindýraræktuninni stillt upp gegn öðrum atvinnugreinum eins og til dæmis námugreftri,” sagði Johannsen í Altaposten.
Gleymast „óvart“
Nýjar rannsóknarniðurstöður sýna hvernig mismunun Sama birtist í nútímanum. „Það er viðtekin venja í samfélaginu að Samarnir gleymast. Það á líka við í hinu opinbera kerfi. Það gleymist alveg óvart að þýða mikilvæga texta á samísku eða auglýsa mikilvægar stöður í fjölmiðlum Samanna,“ segir Ketil Hansen við NRK.
Hann nefnir sem dæmi þegar staða fylkismanns í Finnmörku var auglýst nýlega þá láðist að gera það í samísku blöðunum.
„Skilaboðin eru skýr þegar æðsta staða í stærsta Samafylki Noregs er ekki auglýst fyrir samíska alþýðu,“ segir ritstjórinn Geir Wulff í samtali við samíska blaðið Ságat. Málið hefur blossað upp í norskum fjölmiðlum að undanförnu enda tóku flestir undir að dæmið væri lýsandi fyrir útskúfun.
Annað hitamál sem lýsir viðhorfi Norðmanna til Sama, eru heiftarlegar deilur um það á hvaða tungumálum vegmerkingar og umferðaskilti í Norður-Noregi eigi að vera. Þegar merking á bæjarfélaginu Bodö var sett upp við þjóðveginn, var skiltið haft bæði á norsku og samísku. Aðeins liðu nokkrir dagar þar til krotað hafði verið yfir samíska heitið. Þegar skiltið var hreinsað, var krotað yfir það á ný og í kjölfarið var það margsinnis fjarlægt af þeim sem vildu aðeins hafa skiltið á norsku.
„Ég man ekki eftir öðru eins hitamáli í sögu blaðsins,“ sagði Jan-Eirik Hanssen ritstjóri Avisa Nordland í samtali við Tv2 árið 2011. „Við höfum ekki undan að fjarlægja óviðeigandi athugasemdir af vefsíðum okkar, hatursummæli og ærumeiðingar. Heiftin í þessu máli hefur náð áður óséðum hæðum. Þetta er ein birtingarmynd áralangrar afneitunar á samískri menningu í norsku samfélagi.“
Ljósmynd vakti bæjarstjórann
Þessi ljósmynd dúkkaði upp í norskum fjölmiðlum í vikunni en hún var kveikja að hjartnæmri grein sem fyrrum bæjarstjóri Tromsö, Jens J. Hjort, skrifaði á dögunum um þöggunina í norsku samfélagi á meðhöndlun Norðmanna á Sömum í aldanna rás. Á myndinni sést fulltrúi norska ríkisins taka höfuðmál af móðurömmu Hjort, sem var Sami. Mælingin var liður í að sanna þá kenningu að Samar væru líkamlega afbrigðilegir og vanþroskaðir. Í greininni sem Hjort skrifar í Nordlys, segir hann ljósmyndina hafi verið vendipunkt í sinni bæjarstjóratíð. Hann hafi byrjað embættistíð sína á að bregðast Sömunum á svæðinu en eftir að hann sá ljósmyndina varð honum ljóst að hann yrði að beita áhrifum sínum til að berjast fyrir verndun menningar þeirra og tungumáls. Hann segir tímabært að vinda ofan af mismunun Samanna og veita þeim þann sess í þjóðfélaginu sem þeir eiga skilið, meðal annars með því að tryggja að menningararfur þeirra glatist ekki. Hann nefndi nýleg dæmi úr skólakerfinu í Tromsö af mismunun Sama. Voru það nemendur bæði við háskólann í Tromsö og barnaskóla í bænum sem lýstu linnulausri stríðni sem þeir urðu fyrir vegna þess eins að þeir voru Samar. Nemendurnir þorðu ekki lengur að koma í Sama-fötum í skólann, þeir urðu fyrir ofbeldi og fengu að heyra niðurlægjandi Sama-brandara á hverjum degi. Hjort lýsir mótlætinu sem hann mætti meðal sinna eigin flokksmanna, eftir að hann fór að beita sér fyrir málefnum Sama. Hann lýsir rótgrónu viðhorfi sem þurfi að vinda ofan af með því að líta á Sama-kúltúrinn sem auðlind en ekki byrði.
Furðuverur í dýragörðum
Lifandi norskir Samar voru fyrst sýndir sem furðufyrirbæri af sýningarstjóranum William Bullock í London árið 1822. Þá voru hjónin Jens og Karen Thomasen Holm frá Röros til sýnis ásamt kornungum syni þeirra og tólf hreindýrum í Natural History and Pantherion – eða Egyptian Hall, sem Bullock hafði opnað tíu árum áður. Samasýningin vakti gríðarlega lukku og laðaði að sér 58 þúsund gesti. Markaði hún upphaf hundrað ára tímabils þar sem Samar voru sýndir í dýragörðum og fjölleikahúsum. Einnig voru þeir vinsæl sýningarfyrirbæri á svokölluðum heimssýningum sem ruddu sér til rúms um 1889, og haldnar voru af nýlenduherrum víða um heim. Þá voru Samarnir hafðir í fullum skrúða í litríkum þjóðbúningum sínum, með hreindýrahjarðir sér við hlið. Talið er að fleiri hundruð Samar hafi verið sýndir sem furðuverur á slíkum samkomum.
Eitt eldfimasta myndlistarverk í sögu Norðmanna, var sett upp í Frogner-garðinum í Osló fyrir tveimur árum tilefni af 200 ára afmæli norsku stjórnarskárinnar. Verkið var endurgerð á hinu svokallaða Kongó-þorpi sem reist var á sama stað hundrað árum áður, á eitt 100 ára afmæli stjórnarskrárinnar. Endurgerð Kongó-þorpsins var verk listamannanna Mohamed Ali Fadlabi og Lars Cuzner og varpaði ljósi á óþægilegan kafla í sögu Noregs sem sjaldan er rifjuð upp.
Kongó-þorpið var hluti af íburðamikilli hátíðarsýningu um norskt samfélag, sem átti að draga fram þróunina sem átt hafði sér stað í landinu frá bændasamfélagi til iðnvæðingar. Einn vinsælasti hluti hennar var „negrasýningin“ þar sem Norðmenn gátu virt fyrir sér 80 börn og fullorðna frá Kongó. Fólkið var látið klæðast hefðbundnum fatnaði frá heimalandi sínu og búa í stráhúsum í Frogner-garðinum í fimm mánuði. Alls sóttu 1,4 milljón manna sýninguna.
Endurgerð Kongó-þorpsins var aðeins sviðsmynd gamla þorpsins, en upphaflega stóð til að ganga lengra og sýna Afríkubúa með sambærilegum hætti og hundrað árum áður. Þó að mildari leiðin hafi verið valin, velti verkið upp spurningum um viðhorf Norðmanna til framandi menningar.
„Allt verkið snýst um þjóðarímynd, rétt eins og Kongó-þorpið gerði fyrir 100 árum . Upplifun Norðmanna af sjálfum sér í þessum málum, er afar jákvæð. Mögulega of jákvæð,“ sagði Fadlabi við norska ríkissjónvarpið. „Spurningin sem við vörpum fram, er hvort þjóðin þurfi að gleyma atburðum og afmá þá úr sögunni, til að geta byggt sjálfsmynd þjóðar á góðmennsku, eins og Norðmenn?
Verkið var svo umdeilt að það setti norskt samfélag gjörsamlega á hliðina og kveikti í umræðu um birtingamyndir hversdagsrasisma nútímans, í hverju hann fælist, þrátt fyrir að Norðmenn hafi þær hugmyndir um sjálfa sig að þeir séu umburðalyndir og opnir. Fjölmargir innflytjendur stigu fram og lýstu dæmum um mismunun í daglegu lífi og gagnrýndu óverðskuldaða upplifun Norðmanna af sjálfum sér.