Mustapha Sebaa, eða Jamal, eins og hann er kallaður hefur fengið að gista á sófum hjá ókunnugu fólki að undanförnu.
Hann er 34 ára og segist hafa yfirgefið heimaland sitt árið 2004. Síðan hafi hann verið á flótta, meðal annars á Írlandi og Grikklandi. Hann sótti um hæli á Íslandi fyrir sex mánuðum og hefur á þeim tíma verið fluttur milli fimm mismunandi búsetuúrræða á höfuðborgarsvæðinu. Fyrst um sinn dvaldi hann í móttökustöð Útlendingastofnunar, því næst í Arnarholti á Kjalarnesi, og svo í húsnæði fyrir hælisleitendur á vegum Reykjavíkurborgar. Þar fékk hann áminningu fyrir að vera með gesti. Fyrir þremur vikum var honum svo vísað úr húsnæðinu fyrir að hafa brotið húsreglur. Jamal segist hafa verið beðinn um að yfirgefa staðinn samstundis.
„Fulltrúi Reykjavíkurborgar sagði að ég mætti ekki búa þarna lengur og að leigubíll biði eftir mér. Bílstjórinn skutlaði mér til félagsmálayfirvalda og þar var mér vísað á gistiskýli fyrir heimilislausa. Ég stóð því bara úti í grenjandi rigningu, ekki einu sinni með strætókort.”

