Brexit kom flestum stjórnmálaskýrendum á óvart, og niðurstöður kosninganna á Íslandi voru ekki fyllilega í takt við skoðanakannanir heldur. Flestir telja að Hillary Clinton verði næsti forseti Bandaríkjanna, en heldur er farið að draga saman með henni og Trump. Hvað veldur því að niðurstöður kosninga koma svona oft á óvart? Og hvers vegna er fylgi öfgamanna víða að vaxa, þó flestir kjósendur staðsetji sig nálægt miðjunni? Svarið felst ef til vill í minnkandi kosningaþátttöku, sem farin er að hafa áhrif á úrslit kosninga víða um heim.
Kosningaþátttaka í Bandaríkjunum hefur lengi verið lítil og fer sjaldnast yfir 55 prósent. Í þingkosningunum árið 2014 kusu þó ekki nema um 36 prósent kjósenda, sem er lægsta hlutfallið í 72 ár. New York Times kallaði þetta slæmt fyrir Demókrata, en enn verra fyrir lýðræðið. Áætlað er að mikill meirihluti þeirra sem situr heima myndi annars kjósa Demókrataflokkinn, en niðurstaða kosninganna varð hinsvegar sú að Repúblikanar hafa ekki haft jafn mikla yfirburði á þinginu síðan 1928.
Kosningaþátttaka er almennt meiri í Evrópu, en hefur þó farið minnkandi. Þetta er sérstaklega áberandi í stórum lýðræðisríkjum eins og Bretlandi og Frakklandi, þar sem hún hefur minnkað um 20 prósent á undanförnum áratugum og rétt um helmingur fólks kýs nú reglulega. Í Finnlandi hefur hún minnkað um 15 prósent, í Noregi um fimm, á Íslandi um tíu prósent, en í Danmörku og Svíþjóð hefur hún aukist lítillega. Í Svíþjóð náði hún lágmarki upp úr bankakreppunni þar árið 1990, en hefur síðan aukist á ný. Stemmir þetta ágætlega við reynsluna á Íslandi og í Bandaríkjunum, þar sem kreppur virðast draga úr kjörsókn.
Kosið gegn innflytjendum, ESB og friði
Þar sem kosningaþátttaka er lítil er til mikils að vinna fyrir nýja flokka að reyna að höfða til þess stóra hóps sem er óákveðinn eða þá afhuga stjórnmálum. Þá getur reynst best að leggja ofuráherslu á eitt málefni sem fær fólk sem annars hefur litla trú á stjórnmálaflokkum til að mæta á kjörstað. Sem dæmi má nefna að í nýafstöðnum borgarstjórakosningum í Berlín jókst kosningaþátttaka um sjö prósent, en stór hluti þeirra sem ekki hafði kosið áður kaus nú Alternativ für Deutschland, sem er mjög andsnúinn innflytjendum. Kosningaþátttöku í Þýskalandi hefur þess utan almennt hrakað og í síðustu þingkosningum voru fleiri sem kusu ekki en þeir sem kusu sigurflokkinn, Kristilega demókrata. Werner Peters, sem hefur í 15 ár verið formaður samtaka þeirra sem kjósa ekki, fagnaði þessu með orðunum „Sofandi risi hefur vaknað.“
Sá sofandi risi er sumsstaðar enn stærri. Um 98 prósent ungverskra kjósenda kusu nýlega gegn því að Evrópusambandið gæti úthlutað flóttamannakvótum á meðlimalönd. Hinsvegar var aðeins um 44 prósenta þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Í Kólumbíu kusu 50.2 prósent á móti friðarsamningum við FARQ samtökin, en þátttaka var ekki nema 38 prósent.
Í þjóðaratkvæðisgreiðslunni um Evrópusambandið í Bretlandi höfðu stjórnmálaskýrendur spáð því að ef kosningaþátttaka færi yfir 75 prósent yrði Bretland áfram í ESB, en hún náði ekki nema 72 prósentum þegar uppi var staðið. Eldra fólk var hlynntara Brexit og mætti frekar á kjörstað á meðan kjörsókn var minnst á þeim svæðum þar sem stuðningur við Evrópusambandið var mestur, svo sem í London og Skotlandi. Nigel Farage, leiðtogi Brexit-sinna, sagði að helsti styrkur þeirra væri ástríða fólks fyrir málstaðnum og úrslitin virðast styðja þetta.
Trump trompar Sanders
Í Bandaríkjunum hefur sú breyting orðið á að í stað þess að höfða til óákveðinna og sækja inn á miðju reyna stóru flokkarnir nú hvað mest þeir mega að virkja stuðningsmenn sem hætta er á að sitji heima. Með tilkomu nýrrar tölvutækni og tölfræðilíkana er hægt að staðsetja mun betur hvar þeir búa sem er hlynntir flokknum en kjósa sjaldan. Hægt er að hafa samband við þá persónulega, sníða boðskapinn að þeim og keyra þá á kjörstað, sem er árangursríkara en að eyða fjármunum í að reyna að tala óákveðna til sem svo kannski kjósa ekki. George W. Bush var fyrsti forsetaframbjóðandinn til að tileinka sér þessa tækni, sem leiddi til þess að flokkurinn færðist til hægri og áhrif kristinna íhaldsmanna jukust til muna.
Eftir að hafa tapað tvennum forsetakosningum í röð fóru Demókratar svipaða leið. Demókratinn Tim Kaine vann óvæntan sigur í Repúblikanavíginu Virginíu með því að staðsetja hvar efnaða blökkumenn var að finna sem voru almennt hlynntir Demókrötum en kusu sjaldnast. Kaine varð fylkisstjóri og er nú varaforsetaefni Demókrata, en enginn hefur náð jafn miklum árangri með hinni nýju tækni og Obama.
Hjá jaðarframbjóðendum skiptir hinsvegar mestu máli að sem flestir kjósi. Í forkosningunum í ár jókst kosningaþátttaka hjá Repúblikönum mikið, sem var almennt talið gagnast Trump þar sem hann átti sér harðasta áhangendur. Hjá Demókrötum minnkaði hún hinsvegar, sem er talið hafa gagnast Hillary Clinton. Meðal helstu stuðningsmanna keppinautarins Bernie Sanders voru ungt fólk og verkafólk, en kosningaþátttaka reyndist dræm meðal þessara hópa. Því virðist sem Trump hafi verið duglegri að virkja fólk en Sanders.
Þeir sem kjósa ekki eru næst stærsti flokkur Íslands
Hér sem annarsstaðar hefur kosningaþátttaka almennt farið minnkandi og var sú minnsta í sögu lýðveldisins núna, eða um 79 prósent. Er þetta um tveim prósentum minna en í síðustu Alþingiskosningum árið 2013 og hefur ekki verið minna síðan í kreppunni miklu. Miðað við síðustu kosningar eru Píratar sá flokkur sem helst sækir fylgi sitt til aldurshópsins 18-29 ára og reikna má með að það sama eigi við nú, en þetta er sá hópur sem er líklegastur til að sitja heima.
Í skuggakosningum sem haldnar voru í framhaldsskólum landsins hefðu Sjálfstæðismenn minnkað um fimm prósentustig, niður í 24 miðað við í kosningunum sjálfum, en Píratar hækkað um fjögur, upp í rúmlega 18 prósent. Miðað við síðustu skoðanakönnun Gallup bættu bæði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur við sig tveim prósentum á kjördag, en Píratar misstu um þrjú og hálft. Hlýtur þetta að skýrast að einhverju leyti af því að kjósendur stjórnarflokkanna fyrrum voru duglegri að skila sér á kjörstað en stuðningsmenn Pírata.
Meiri kosningaþátttaka hefði því kannski ekki gerbreytt úrslitum kosninga hér, en hefði þó haft nokkur áhrif. Þau 20 prósent kosningabærra manna sem kjósa ekki gætu samanlagt myndað næst stærsta flokk landsins. Nýir flokkar eiga því mikið undir að reyna að virkja þennan hóp.
Magnús Sveinn Helgason
ritstjorn@frettatiminn.is