Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Moji féll fyrir Esjunni

$
0
0

Alda Lóa Leifsdóttir
aldaloa@frettatiminn.is

Við Moji hittumst á Snaps á óvenju gráum degi, 8 nóvember, daginn sem Bandaríkjamenn gengu til forsetakosninganna. Moji hafði þá komið til landsins að spila á Airwaves og kynna nýtt efni hljómsveitarinnar, The Midnights Sons, en hljómsveitina skipa þeir Frosti Jón og Bjarni M. Sigurðsson ásamt Moji.
Það er hrollur í henni þennan dag, en með sér til landsins tók hún stuttan leðurjakka annarsvegar og þykka vetrarkápu hinsvegar. „Mig vantar flík þarna á milli, ég held að ég kaupi mér trefil til þess að brúa bilið,“ segir hún. Moji segir Íslendinga vera mjög tískumeðvitaða, hún segir það einkennandi hvernig Íslendingar taka smá tísku frá Evrópu og smá tísku frá Bandaríkjunum, blanda því saman og bæta við smá tvisti og ná fram sínum eigin íslenska stíl. Sjálf er hún líka einhversstaðar mitt á milli, fædd í Bandaríkjunum með rætur í Nigeríu. „Ég fæddist í Atlanta í suðurríkjunum en við flökkuðum á milli Nigeríu og Bandaríkjanna og sem barn dvaldi ég flest jól og sumarfrí í Nigeríu.“

Pólitíkus og bissnessmaður

Þegar Moji segir frá föður sínum og móður og flakkinu á milli Bandaríkjanna og Nigeríu, rifjast óhjákvæmilega upp bækur og smásögur Chimamanda Adichie sem er nígerískur rithöfundur sem hefur slegið rækilega í gegn. En sögusvið hennar er gjarnan líf nígerískra innflytjenda í Bandaríkjunum sem lifa á milli tveggja heima.
Gloria, móðir Moji, flutti til Bandaríkjanna í nám og útskrifaðist þar sem læknir og kynntist manni sínum, M. K. O. Abiola, sem var töluvert eldri en hún, viðskiptafræðingur frá skóla í Skotlandi. Faðir Moji, M. K. O. Abiola, á sér stórbrotna sögu, en hann barðist úr sárri fátækt, var eina barnið af 23 börnum pabba síns sem komst á legg. Hann gerðist viðskiptajöfur mikill og fékk æðstu höfðingjanafnbót Yoruba ættbálksins. Hann sat í ótal stjórnum í fyrirtækjum og sjóðum á Vesturlöndum og Nigeríu og fjárfesti og rak ógrynni af fyrirtækjum, stofnaði marga skóla, bókasöfn, sjúkrahús og sitt eigið fótboltafélag í Nigeríu. 1993 bauð hann sig fram til forseta sem endaði með því að hann var tekin fastur og dó síðan daginn sem hann var látinn laus, nokkrum árum síðar. En hann var ekki bara stórtækur á hinu opinbera sviði heldur kom það Gloríu í opna skjöldu þegar þau höfðu verið gift um hríð að maður hennar átti margar aðrar konur og fleiri ástkonur, en sumar heimildir segja að hann hafi eignast 40 börn og aðrar 70 börn en Moji okkar er eitt af börnum hans.

Moji kom til Íslands með opinn hug og hjarta og uppskar samkvæmt því. Fyrir stuttu kom út diskur hennar með íslensku piltunum úr The Midnight Sons.
Moji kom til Íslands með opinn hug og hjarta og uppskar samkvæmt því. Fyrir stuttu kom út diskur hennar með íslensku piltunum úr The Midnight Sons.

Dansmúsík í Nigeríu

„Ástandið er ekki gott í Nígeríu,“ segir Moji. „Ofan á spillingu valdhafa þá er landið núna að ganga í gegnum kreppu. Olían var aðal útflutningur Nígeríu og með rýrnun olíuverðsins kemur berlega í ljós að infrastrúktur landsins er mjög tæpur. Á meðan það voru peningar þá var hægt að halda uppi einhverri blekkingu en núna þegar fólk á vegum ríkisins, embættismenn, kennarar og löggan, fær ekki borgað eykst óánægjan. Upp úr sjötta áratugnum var mikið „braindrain“, fólk sem var með hugmyndir og hugsjónir yfirgaf landið og spillingin og ójöfnuður fékk frítt spil. Núna eru afkomendur þessa fólks hinsvegar að snúa til baka til Nígeríu. Þannig að það er fullt af ungu fólki sem er komið til landsins aftur með stórkostlegar hugmyndir um betra samfélag. En gamla fólkið heldur um völdin og sogar alla peninga til sín og á meðan verður almúginn fátækari.“
Moji óttast mest að stjórnleysi og glæpir muni aukast við þetta ástand og hefur áhyggjur af sinnuleysinu af því henni sýnist fólk vilja bara gleyma. Hún segir þetta sinnuleysi endurspeglast í þeirri músík sem er vinsælust Í Nigeríu, sem er dansmúsík, músík sem fólkið notar til þess að gleyma að það er svangt og á ekki peninga fyrir mat.

Hlustendur framkvæma

En er músíkin þess konar afl sem gæti bylt samfélagi? „Það veltur á ýmsu,“ svarar Moji. „Í músík hefur þú bæði flytjandann og hlustandann og ef eyrun nema ekki það sem er í boði, þá gerist ekkert. Tónlistarfólk er fólkið sem býr til hljóðrásina en hlustendurnir eru þeir sem verða að framkvæma.“ En Moji telur fólk vera afskiptara í dag og flestir hugsi aðeins um eigin hag. Þrátt fyrir internetið lifi fólk einmanalegu lífi, meira núna en áður fyrr. „Öll þessi samskipti á netinu geta líka haft öfug áhrif, fólk er í minni raunverulegum samskiptum og þunglyndið eykst bara hjá fólki allsstaðar.“ Moji vitnar í úrræði við þunglyndi sem hún hafi heyrt um þegar fólki er ráðlagt að minnka notkun sína á samfélagsmiðlum þegar það er að ganga í gegnum sálarháska og þunglyndi. „Við lifum á tímum þar sem við vitum meira um hvort annað en nokkurn tíma fyrr, en fólk er samt ekki í raunverulegum samskiptum þegar þau fara fram á feisbúkk, twitter og instargram,“ segir hún.

Á síðasta ári sagði Moji sig frá vinnu til margra ára hjá olíufyrirtæki í Houston í Texas og tók meðvitaða ákvörðun um að snúa sér að músík sinni.
Á síðasta ári sagði Moji sig frá vinnu til margra ára hjá olíufyrirtæki í Houston í Texas og tók meðvitaða ákvörðun um að snúa sér að músík sinni.

Þrjú ár að segja upp

Moji fær sér sopa af kamilluteinu og segir síðan ákveðin „Okkur er flestum ljóst hvað er að gerast í heiminum, stríð og vondir hlutir, en fólk er kannski ekki tilbúið að bregðast við. Í það heila hefur dregið úr þátttöku fólks í friðarstarfi og sjálfboðaliðastarfi, en allir eru tilbúnir að borga fyrir eitthvað sem snýr að þeirra eigin öryggi. Við erum ekki tilbúin til þess að breyta heiminum til hins betra. Kannski tekur það þetta tíma.“

„Það tók mig þrjú ár að taka ákvörðun um að segja upp verkfræðistarfi mínu í olíuiðnaðinum og helga mig músíkinni. Ég lærði verkfræði í Pennsylvaníu og fékk starf í olíuiðnaðinum í Texas. Ég vann á vettvangi sem teymisstjóri á borsvæðinu. Þegar olíuiðnaðurinn hrundi árið 2014 þá fékk ég mig lausa. Ég hafði unnið 60-80 tíma á viku og var mjög óhamingjusöm. Yfirmaður minn sagði að það hefði ekki gerst í 30 ár á hans tíma að einhver segði upp til þess að fylgja draumum sínum en hann hló, hann hafði komið að sjá mig syngja og hann var ánægður með ákvörðun mína. Þannig að þegar það var verið að segja upp fólki í fyrirtækinu sem ég vann hjá, þá grét fólk af angist en ég hló af ánægju yfir því að vera loksins laus. Samstarfsfólk mitt hélt að ég væri að fá taugaáfall af því að ég var að missa vinnuna,“ segir hún og hlær.

Glen Hansard

Þegar Moji hætti að vinna í olíuiðnaðinum ákvað hún að treysta lífinu með opnum hug. En Glen Hansard verður að kallast sterkur áhrifavaldur í lífi hennar. Glen er írskur rokk-þjóðlaga músíkant og þekkist úr kvikmyndunum Commitment og Once. Hann var á tónleikaferðalagi með hljómsveit sinni í Houston í nóvember 2009. Moji var meðal áhorfenda og hann heyrði í henni út í áhorfendahópnum. „Röddin mín getur verið ansi hávær en Glenn heyrði í mér og kallaði mig upp á svið og við tókum lagið saman. Þetta var örlagaríkt kvöld að því leyti að það kviknaði í mér þessi þrá að vinna við músik aftur. Ég hafði lagt til hliðar draum um óperusöng en þarna kviknaði eitthvað innra með mér. Við sungum saman „High hopes“ en ég þekkti ekki lagið þá en söng samt á minn hátt með honum. Nokkrum árum síðar hitti ég aftur Glen á Írlandi þar sem hann og Eddie Vedder hituðu upp fyrir Springsteen tónleika. Ég var í tveggja vikna fríi á Írlandi árið 2013 og kynntist fullt af yndislegu fólki í gegnum Couchsurfing sem er netsamfélag í kringum heimagistingu. En eitt leiddi af öðru og aftur fór Moji á svið með Glen en núna á íþróttavelli í Írlandi sem tók mörg þúsund manns. Hún tók tvö lög, High hopes og Her mercy með þeim Glen og Eddie Vedder.
„Í vinnunni heima þurfti ég oft að standa fyrir framan hóp af mönnum og útskýra stöðuna eða fara með erindi og leið alltaf illa, mér var líkamlega illt en þarna á sviðinu á íþróttavellinum fyrir framan mörg þúsund manns leið mér stórkostlega vel, eins og í stofunni heima hjá mér. Ég vissi hvað áhorfendur vildu heyra frá mér og ég vissi að ég gat gefið þeim það sem þeir vildu.“ Og þá var ég sannfærð, þetta er það sem ég vil gera. Ég þurfti bara að safna mér peningum, sem tók mig tvö ár.

Frosti á Dillon

Eftir að hafa fengið sig lausa frá starfinu í Houston flaug Moji til Íslands á leið sinni til Parísar. „Ég kom við á Dillon kvöldið áður en ég tók flugið til Parísar. Þetta sama kvöld hafði Frosti (Frosti Jón Runólfsson) hlaupið í skarðið fyrir Andreu sem er D.J. á Rokkbarnum. Um tvö leytið um nóttina fór ég að spjalla við Frosta sem endaði með því að við fórum heim til hans að semja músík. Ég vissi ekkert um hann, hvort hann ætti fjölskyldu eða neitt. Hann spilaði fyrir mig hljóðrás eftir sig og Bjarna (Bjarna M. Sigurðsson) sem býr í sama húsi og hann. En Bjarni nota bene vaknaði við hávaðann í okkur. Ég hlustaði fyrst á eitt lag, en það hentaði mér ekki og síðan kom annað lag og ég gat sungið með því. Ég sagði, við skulum taka þetta upp og ég söng inn á. En þarna um nóttina sömdum við „Broken Bird“ sem er lag númer þrjú á plötunni okkar.“

30319_moji-1

Fimm lög á mánudegi

Ég flaug síðan til Parísar en Frosti sendi mér póst og sagði: „Hæ, það eru allir mjög ánægðir með upptökuna okkar, ef þú kemur aftur til landsins væri gaman að hittast og spila meira saman.“ Þannig að á bakaleiðinni til Bandaríkjanna hitti ég Frosta og Bjarna. Ég afsakaði mig við Bjarna en við höfðum haldið fyrir honum og fjölskyldunni vöku um nóttina sem við Frosti gerðum Broken Bird. Bjarni gaf lítið út á það en þakkaði mér fyrir að biðjast afsökunar. Við settumst síðan niður og pöntuðum pítsu og hlustuðum á músíkina þeirra Bjarna og Frosta og ég söng og samdi og við tókum upp. Við Bjarni vinnum dásamlega vel saman, Bjarni er stórkostlegur gítaristi og við sömdum saman alveg áreynslulaust. Eitt lagið varð til þegar Bjarni var að stilla gítarinn sinn og þegar hann snerti svona strengina, þá sá ég þessa Nevada eyðimörk fyrir mér og þá varð til saga og ég byrjaði að syngja, „Daddy was a bad man, meener than the devil,“ og út kom lagið Cut me down. Ég held við höfum kannski breytt tveim orðum í endanlegu útgáfunni.

„Yes, tank you“

Músíkin ykkar nær yfir alla ameríska grasrótarmúsík, kántrí, blús,rokk, fólk og röddin þín er svo mjúk og blíð á köflum en svo sveiflar þú þér yfir í eitthvað annað, og tekur Kate Bush í nefið?
„Ég ímynda mér rödd mína sem væri hún hljóðfæri, og ég er alltaf dálítið öfundsjúk út í gítar og píanó þar sem hægt er að spila hljóma, röddin er aðeins ein nóta í einu. Þannig að ég reyni að finna leið til þess að nota röddina eins og hljóðfæri, ná út fyrir takmörk hennar, upp fyrir og út fyrir textann sem ég er að flytja.

En eftir að við sömdum fimm lög á þessum mánudegi fór ég aftur á Kex að hvíla mig og hlustaði á lögin aftur og lagaði sitthvað. Á miðvikudeginum voru þau tilbúin til flutnings á tónleikum sem við héldum á Dillon daginn fyrir flugið mitt heim. Þegar ég hlustaði á upptökurnar í flugvélinni og lenti á JFK þá lofaði ég mér að ég skyldi alltaf vera opin og móttækileg fyrir öllu því góða sem er í boði í lífinu. „Yes thank you.“

Hlýri á Snaps

Natalie DJ Yamaho kemur inn á Snafs og sest hjá Moji. Þær panta sér báðar hlýra í hádegismat. Þegar þjónninn er horfinn dæsir Natalie, „ég er með svo miklar áhyggjur af kosningunum. Ég er jafnvel að hugsa um að finna mér eyðieyju og flytja þangað með hænu og gítarinn, í alvöru, ég er stödd þar núna. Ef hann verður kosinn þá fer ég ekki til Bandaríkjanna á næstunni, það er alveg bókað.“ „Ég bið fyrir kosningunum,“ segir Moji, „það getur allt gerst. Ég á eftir að fylgjast með viðbrögðum fjölskyldu minnar á SnapChat í kvöld, við erum 150 manns sem tölum saman á SnapChat og það eru alltaf gífurleg viðbrögð þar við öllu sem Trump segir og gerir,“ segir Moji og hlær.

Natalie DJ Yamaho sagðist ætla að flytja á eyðieyju ef Trump næði kjöri en Moji segir Trump endurspegla reiða fólkið
Natalie DJ Yamaho sagðist ætla að flytja á eyðieyju ef Trump næði kjöri en Moji segir Trump endurspegla reiða fólkið

„Það er einn úr fjölskyldunni, frændi minn, sem ætlar að kjósa Trump og hann fékk þvílík viðbrögð frá hinum sem spurðu hann hvort að hann elskaði ekki móður sína? Hvernig getur þú kosið mann sem fyrirlítur allt kvenfólk ef hann hefur ekki kynferðislega ánægju af því? Frændi minn varð alveg óður. En Trump er vá og hann fyllir marga með ótta um líf sitt í Bandaríkjunum, hann hótar að senda Mexíkana til Mexíkó og Afríkumenn til Afríku og þetta er sérstaklega ógnvekjandi fyrir börn sem hlusta á þennan ósóma í honum. Sonur vinar míns kom heim um daginn og sagði við pabba sinn: Trump segir að við eigum að fara til Mexíkó en pabbi ég þekki engann í Mexíkó! Það verður hryllilegt ef maður sem er rasisti, sexisti og borgar ekki skatta verður forseti Bandaríkjanna.

Eftir hlýrann kveð ég Moji og Natalie sem hafa undanfarið verið önnum kafnar að spila á Airwaves í sitt hvoru lagi, en þennan eftirmiðdag, 8 nóvember, gafst þeim loksins tími til þess að setjast niður fyrir framan græjurnar og skiptast á músík og stilla sig saman. Vonandi kemur eitthvað undurfagurt úr þeirri samvinnu. En platan sem kom út fyrir stuttu með Moji and the Midnights Sons spratt meir og minna fram fullkláruð á einum mánudegi á síðasta ári. Falleg músík.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652