Faxaflóahafnir eru samlag nokkurra sveitarfélaga og á hvert þeirra fulltrúa í stjórn samlagsins. Fyrir hönd Reykjavíkurborgar sitja fimm pólitískt kjörnir fulltrúar í stjórn Faxaflóahafna. Stjórnin fundar mánaðarlega og fær hver stjórnarmaður 152.588 krónur fyrir. Formaðurinn er Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og fær hann tvöföld laun, eða 305,176 krónur á mánuði.
Stjórnarseta í Faxaflóahöfnum hefur löngum verið bitastætt starf launanna vegna. Þau eru samkvæmt fyrsta flokki í launakerfi fastra nefnda hjá Reykjavíkurborg. Fram til ársins 2012 voru launin fyrir stjórnarsetu í Faxaflóahöfnum um 16% af þingfararkaupi en þá var hlutfallið hækkað og nemur nú 20% af þingfararkaupi.
Laun stjórnarmanna í Orkuveitu Reykjavíkur eru heldur ekkert slor en þau lúta öðrum lögmálum. Sérstök starfskjaranefnd Orkuveitunnar leggur til hve há laun stjórnarmenn fá en það eru stjórnarmenn Orkuveitunnar sem skipa í starfskjaranefndina. Sex stjórnarmenn hittast mánaðarlega og fá 150.816 krónur fyrir. Stjórnarfomaðurinn, Brynhildur Davíðsdóttir, fær tvöföld laun þeirra, eða 301,632 á mánuði.

Formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur er Brynhildur Davíðsdóttir og Gylfi Magnússon er varaformaður. Aðrir fulltrúar eru Sigríður Rut Júlíusdóttir, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Valdís Eyjólfsdóttir. Björn Bjarki Þorsteinsson er áheyrnarfulltrúi Borgarbyggðar.