„Ég hekla mig í gegnum lífið. Ég hekla allt sem gerist í lífi mínu og þetta er í fullu samhengi við það,“ segir Tinna Þórudóttir Þorvaldar sem sendi nýlega frá sér Havana heklbók, sem er ekki bara innblásin af Kúbu heldur eru allar myndirnar í bókinni teknar í Havana. Tinna hefur mikil og sterk tengsl við Kúbu og er sannfærð um að hún hafi búið þar í fyrra lífi. Hún er nýgift kúbverskum eiginmanni sínum og á tvo drengi sem eiga kúbverskan föður. Eiginmaðurinn er væntanlegur til Íslands fyrir jólin og vonast þau til að geta haldið sín fyrstu jól saman hér heima.
Tinna situr að sjálfsögðu og heklar á meðan við tölum saman, enda leggur hún heklunálina sjaldan frá sér. Garndokkur eru í stæðum í hillunum í stofunni og hvert sem litið er má sá hekluð listaverk eftir hana. Hún heklar sig svo sannarlega í gegnum lífið.
Havana heklbók er þriðja bók Tinnu en þar að auki hefur hún ritstýrt einni heklbók. Bækurnar hefur hún unnið í samstarfi við þær Ingibjörgu og Lilju Birgisdætur, en sú fyrrnefnda er hönnuðurinn og sú síðarnefnda myndasmiður.
„Mig hafði langað til þess, alveg frá því ég gaf út fyrstu bókina, að gera bók þar sem allar myndirnar væru teknar á Kúbu. Þetta var pínu langsóttur draumur því ég vissi að það væri bras að framkvæma þetta,“ segir Tinna sem lét það þó á endanum ekki stoppa sig.
Kom heim með kúbverskan mann
Tinna fór fyrst til Kúbu fyrir ellefu árum í skiptinám frá Háskóla Íslands. Hana hafði alltaf langað til Suður-Ameríku og hafði lengi verið að leiðinni þangað. Hún bjó í Barcelona um tíma þegar hún var rúmlega tvítug, þar sem hún kynntist Suður-Ameríkubúum og þegar hún kom aftur heim til Íslands ætlaði hún að safna sér fyrir ferð þangað. „Mamma tældi mig á mjög snyrtilegan hátt til að skrá mig í Háskólann, enda gæti ég þá farið út í skiptinám. Mér fannst það sniðug hugmynd. Þá var nýkominn á skiptisamningur á milli háskólans í Havana og HÍ og prófessorarnir hvöttu mig til að fara þangað og prófa námið, en háskólinn þar þykir mjög góður. Ég var að hugsa um Venesúela en Kúba var líka heillandi. Svo er ég líka vinstrisinnuð og það hafði sín áhrif, en ég hafði gott af því að fara þangað og sjá hvað margt er erfitt. Ég er auðvitað ekki hlynnt stjórnvöldum þar, því á Kúbu er harðstjórn og kommúnisimi, sem er ekki það sama og sósíalismi.“
Tinna kom heim úr skiptináminu með kúbverskan mann upp á arminn og eignuðust þau tvo syni. Þau eru nú skilin en Tinna hefur alltaf haldið tengslunum við Kúbu, bæði vegna sonanna og svo kann hún vel að meta menninguna og litagleðina sem þar er ríkjandi. Mæðginin hafa því reglulega heimsótt landið á síðustu árum. Í skiptináminu eignaðist hún líka marga góða vini og einn þeirra, Maikel, er eiginmaður hennar í dag.
Eiginmaður ekki á dagskrá
„Bókin mín er tileinkuð honum. Við höfum auðvitað þekkst lengi og vorum fyrst saman fyrir mörgum árum en það tók hann töluverðan tíma að sannfæra mig um þetta allt saman, í ljósi þess að ég hafði áður verið í sambandi með Kúbverja. Ég ætlaði ekki aftur í þann pakka. Það er alltaf erfitt þegar fólk í sambandi er af sitt hvoru þjóðerni og þetta var svo sannarlega ekki á dagskrá,“ segir Tinna og skellir upp úr. „Hann tók nokkur ár í að sannfæra mig um að gefa sér séns, sem ég gerði á síðasta ári þegar við fluttum út. Ég ákvað að fara og prófa þetta og það var alveg yndislegt,“ segir Tinna en hún flutti til Kúbu með syni sína í byrjun árs 2015 og bjuggu þau í Havana í tæpt ár. „Mig langaði líka að breyta til, og vildi að synir mínir fengju að upplifa Kúbu og næðu betri tengingu við ræturnar. Mér líður sjálfri rosalega vel á Kúbu.“
Ákvörðunin um að flytja út átti sér þó ekki langan aðdraganda. „Svona hluti verður maður að gera með áhlaupi og ekki hugsa þá of mikið. Ég ákvað þetta með tveggja mánaða fyrirvara. Ég kláraði mastersritgerðina mína úti þannig ég var á námslánum fyrri hluta ársins og svo var ég bara að hekla. Ég segi ekki að ég hafi séð fyrir okkur með heklinu en ég var alveg farin að selja eitthvað, sem er mjög erfitt þarna úti. Strákarnir fóru í skóla og þetta var alveg yndislegur tími,“ segir Tinna dreymin þegar hún rifjar upp tímann á Kúbu. „Strákarnir voru rosa hamingjusamir með þetta. Þeim fannst reyndar erfitt í skólanum. Það var svolítið sjokk fyrir þá að fara úr Barnaskóla Hjallastefnunnar yfir í kommúníska skólakerfið. En í fríunum þá ultu þeir fram úr rúmunum á morgnana og léku sér í fótbolta úti á götu, berir að ofan í sandölum. Það er mjög öruggt að vera í Havana og gott að búa þar með börn. Þetta er bara svipað og hérna heima, krakkarnir leika sér saman úti í hverfinu og eru mjög frjálsir. Það er svo gaman að prófa að búa úti með börn því maður kemst meira inn í samfélagið. Maður kynnist foreldrum í skólanum og hverfinu. Það er öðruvísi en þegar maður er einn.“

Tældu módel úti á götu
Eftir Kúbudvölina í fyrra togaði það enn fastar í Tinnu að gera heklbók með myndum frá Kúbu og hún ákvað að kýla á verkefnið í byrjun þessa árs. „Lilja, yndislegi ljósmyndarinn minn, var tilbúin að fara í þetta ferðalag til Kúbu með mér. Þetta var þvílíkt ævintýri. Við fórum út með fulla ferðatösku af hekli, en ég fékk margar góðar konur með mér í lið til að hekla, því það var ekki möguleiki á að ég næði því sjálf á þeim tíma sem við höfðum. En allar uppskriftirnar og hönnunin er mín. Við byrjuðum á því að taka myndir í mínu hverfi og þar sem ég þekkti til, en svo fórum við með ferðatöskuna inn í gömlu Havana og tældum fólk úti á götu til að vera módel. Kúbverjar eru sem betur fer ekki feimnir við myndavélar og það voru því mjög fáir sem sögðu nei. Einstaka sinnum þurfti maður að beita smá skjalli. Erfiðast var að fá fólk í stórar lopapeysur í 30 stiga hita,“ segir Tinna og hlær. „Þetta var mjög skemmtilegt en rosa mikil vinna. Við unnum frá morgni til kvölds því það þurfti að ná öllu í hús. Það var ekki hægt að redda neinu seinna. Við pössuðum þó að enda vinnudagana með góðum kokteilum og dansi, svo þetta var ekkert smá skemmtileg ferð.“
Tinna segir það vissulega pínu fyndið að gefa út bók með svona suðrænu ívafi í svartasta skammdeginu, en flíkurnar henta engu að síður vel íslensku veðurfari. Þar má til dæmis finna kúbverska lopapeysu. Þá segir hún myndirnar hverja og eina vera algjört listaverk sem sé gaman fyrir alla að skoða. Meira að segja þá sem hafa ekki áhuga á hekli. „Það sem ég vildi gera með bókinni var að taka allt þetta sem ég ann svo heitt, öll mynstrin, litina og tónlistina og koma þessu frá mér á hekluðu formi.“
Tinna vann mikið af uppskriftunum þegar hún bjó úti á síðasta ári og sumar hugmyndinar kviknuðu einfaldlega því hana vantaði eitthvað. „Það eru þarna margnota hreinsiklútar, en það er ekki hægt að kaupa einnota hreinsiklúta til að taka af farða þarna úti,“ tekur hún sem dæmi.
Með óskalista út í búð
Hún viðurkennir að það hafi verið ansi erfitt að koma heim í grátt og drungalegt umhverfið á Íslandi fyrir síðustu jól, eftir að hafa eytt heilu ári í litadýrðinni í Havana. „Það er allt svo grátt og hornrétt hérna heima og það er ekkert fólk úti á götu. Það sem er skemmtilegast þarna úti er hvað það er ofgnótt mynstra og lita og öllu blandað saman. Í Havana þykir líka mjög eðlilegt að dansa úti á götu og það ómar tónlist alls staðar. Hérna heima er ég litin hornauga ef ég dansa úti á götu, en ég geri það nú samt,“ segir Tinna kímin. „Það var að vísu huggulegt að hafa aftur rennandi vatn, klósettsetur, þvottavél og þurrkara,“ bætir hún við.
Það var því ekki bara dans á rósum að búa úti og ýmsar áskoranir sem þurfti að takast á við. „Ástandið á Kúbu erfitt, það er neyð þar og mikill vöruskortur. Maður fer ekki með innkaupalista út í búð, maður fer með óskalista og kaupir það sem er til.“ Tinna segir hins vegar ýmislegt gott líka við kommúníska kerfið. „Við gengum til dæmis inn í skólakerfið og þurftum aldrei að borga krónu fyrir strákana þar. Þá þarf ekkert að borga fyrir þjónustu á barnaspítalanum og lyfin kosta mjög lítið. Við erum vön norrænni velferð en maður þarft alltaf að borga eitthvað.“

Brúðkaup á ströndinni
Tinna íhugaði það alvarlega að flytja alveg út með drengina, en það sem gerði útslagið varðandi ákvarðanatökuna var hvernig hún upplifði stemninguna í mannlegum samskiptum fólks. Hún vildi ekki ala drengina upp í slíku umhverfi á mótunarárum þeirra. „Það er búin að vera neyð lengi og það hefur áhrif á samfélagið. Það er svo mikið frumskógarlögmál í gangi alls staðar, það treystir enginn neinum og það er enginn ánægður fyrir annarra hönd. Þetta er ekki fólkinu að kenna heldur hefur samfélagið þróast svona vegna þess hve neyðin hefur varað lengi. Það getur verið erfitt. Mér fannst það eiginlega erfiðara heldur en að vera ekki með rennandi vatn. Ég er sjálf mjög trúgjörn og á erfitt með að ljúga þannig að frumskógarlögmálið hentar mér illa. Ég gæti auðvitað brynjað mig fyrir þessu en ég vil ekki að strákarnir læri það. Ég vil að þeir haldi áfram að trúa á það góða og að fólk sé almennt gott.“
En Tinna fór aftur með drengina sína út síðasta sumar og áttu þau dásamlegt sumar í Havana. Rúsínan í pylsuendanum var að sjálfsögðu brúðkaup þeirra hjóna. „Við giftum okkur berfætt á ströndinni undir pálmatrjánum og slógum svo upp svaka strandveislu. Það var alveg yndislegt og mjög rómantískt,“ segir Tinna einlæg með blik í augunum. Það fer ekki á milli mála að hún er ástfangin upp fyrir haus.
Væntanlegur fyrir jólin
Maikel, maðurinn hennar, er tónlistarmaður og deildu þau vinnustofu úti. Hún segir að tónlistin og heklið passi einstaklega vel saman. „Hann syngur og ég hekla, þetta gæti ekki verið betra.
Svo er hann yndislegur við strákana og þeir við hann. Það er mikil ást og kærleikur þar. Hann bað mín í vor, þegar ég var úti að mynda fyrir bókina, og það var mjög fyndið þegar ég sagði strákunum frá því, þeir voru þvílíkt spenntir, hlupu inn í herbergi, dönsuðu og sungu: við erum að fara að gifta okkur.“
Og nú er hann á leiðinni til Íslands. „Við ætlum að taka stikkprufu af Íslandi, prófa að búa hér í tvö ár og ef það gengur ekki þá er Spánn plan B. Fara einhvern milliveg. Ég er búin að vara hann við eins og ég get. Hann hefur ekki komið hingað áður þannig þetta verður sjokk fyrir hann. Hann kemur vonandi heim fyrir jólin þannig við getum haldið jólin saman á Íslandi. Það er allavega bót í máli að jólaljósin taka á móti honum í skammdeginu. Ég hlakka mikið til að halda jólin með honum, og vonandi tekst það, en það er svo mikið pappírsbras í kringum þetta og hann að safna fyrir miðanum. Við erum mjög ástfangin og hamingjusöm, en þetta ár er búið að vera frekar erfitt því við erum búin að vera mikið í sundur. Það tekur á að vera í fjarbúð,“ segir Tinna og ef allt gengur upp verða þetta fyrstu jólin þeirra saman. „Það er alveg vonlaust að halda jól á Kúbu, jólaskraut er bara venjulegt skraut í þeirra huga og er uppi allan ársins hring þar, enda allir mjög glysgjarnir. Jólunum var frestað eitt árið út af uppskeru og þau hafa ekkert verið tekin upp aftur. Það hefur reyndar aðeins breyst í seinni tíð, jólatré sett upp í búðum og svona, en það eru engar gjafir. Aðalhátíðin á Kúbu eru áramótin og byltingarafmælið,“ útskýrir Tinna.

Reyndi að verða eðlileg íslensk kona
Líkt og áður sagði var það ekki á döfinni hjá Tinnu að fara aftur í samband með Kúbverja og flækja þannig lífið. Hún reyndi meira að segja að berjast á móti ástinni í garð núverandi eiginmanns. „Ég reyndi eins og ég gat að gleyma Maikel og var komin í sambúð með yndislegum íslenskum manni. En allt kom fyrir ekki og þó ég reyndi mitt besta að vera praktísk og skynsöm þá gat ég aldrei hætt að hugsa um Maikel og að endingu leyfði ég hjartanu að ráða för. Enda í raun galið að berjast gegn ástinni þegar maður loks finnur hana. Það er margt erfitt við menningarmuninn en að sama skapi er margt frábært og það á til dæmis afskaplega vel við mig að geta dansað salsa heima í stofu hvunndags. Það er svo margt skemmtilegt við menninguna sem kemur einmitt fram í sambandinu líka. Maikel er til dæmis miklu einlægari en ég á að venjast. Íslenskir karlmenn geta verið svo brynjaðir. Svo trúi ég á fyrri líf og ég hef pottþétt búið þarna áður. Ég passa mjög vel inn í latínó menningu og líður eins og ég sé komin heim þegar ég kem til Kúbu. Stundum hugsa ég að ég hafi fæðst á vitlausum stað, en auðvitað eru það mikil forréttindi að hafa fæðst á Íslandi og ég vildi ekki hafa fæðst annars staðar. Ég passa samt ekki vel inn í þessa kassa hérna á Íslandi og það er stundum erfitt að vera á skjön við það sem þykir eðlilegt,“ segir Tinna hreinskilin og heldur áfram: „Ég reyndi alveg að vera eðlileg íslensk kona í sambúð og eiga stationbíl með krók, en það var ekki fyrir mig. Þannig kannski er lausnin bara að eiga yndislegan kúbverskan mann og búa á Íslandi. Fara milliveginn. Við getum þá haft litla Havana hérna á heimilinu, dansað, sungið og málað stofuna bleika, en samt búið við þægindin og öryggið. Við ætlum allavega að láta á það reyna. Við vitum bara að við viljum vera saman, hvar svo sem í heiminum það er, og mögulega flytjum við aftur til Kúbu í framtíðinni þegar strákarnir eru orðnir aðeins eldri.“

Byltingarstjörnur í jólabúningi
Hekluppskrift úr Havana heklbók eftir Tinnu Þórudóttur Þorvaldar
Skammstafanir:
L = lykkja LL = loftlykkja KL = keðjulykkja LB = loftlykkjubogi
FL = fastalykkja ST = stuðull Takki = 3 LL, tengið með KL í þriðju L frá nál
Garn: Marks Bianca eða Goldfingering, fæst í A4
Heklunál: nr. 2,5
Stjörnurnar eru heklaðar í hring eftir umferðum.
Fitjið upp 11 LL og tengið í hring með KL.
1. umf. Heklið 3 LL, 23 ST í loftlykkjuhringinn, tengið með KL í þriðju LL. (24 L)
2. umf. Heklið 10 LL, sl. 3 L, 1 FL í næstu L] x 5, 10 LL, sl. 3 L, 1 KL í síðustu L umferðar.
3. umf. Heklið 6 LL, heklið nú 3 ST + 1 takka + 3 ST efst í næsta LB, 3 LL, [1 ST í næstu FL, 3 LL, 3 ST + 1 takki + 3 ST í næsta LB, 3 LL] x 5,
endið með því að tengja með KL í þriðju loftlykkju.
Slítið frá, gangið frá endum og stífið með sykurvatni á frauðplötu.
Sykurvatn til stífingar
Efni og áhöld: sykur, vatn, pottur, lokað ílát t.d. glerkrukka, títuprjónar og frauðmót, frauðplata eða annað undirlag til að festa heklið á.
Það er hentugt að nota sykurvatn því það er auðvelt að búa það til. Sykurvatn er gert með því að hita vatn upp að suðu, taka það af hellunni og blanda því saman við sykur í helmingshlutföllum. Hrærið sykurvatnið þar til allur sykurinn hefur leyst upp í vatninu. Það má geyma sykurvatn í nokkra daga og nota aftur, þá er gott að geyma það í ísskáp í lokuðu íláti.
Þegar stífað er með sykurvatni er heklið lagt í bleyti í sykurvatninu og látið liggja í örfáar mínútur eða þar til það er blautt í gegn. Þá er það undið laust, svo hætti að leka úr því, og lagt niður eins og það á að líta út, fest niður með títuprjónum og látið þorna. Það flýtir mjög fyrir stífuninni að láta heklið þorna á miðstöðvarofni.

Myndir/Hari