Kaupsamningurinn var undirritaður fyrir helgi en samningurinn hljóðar upp á 3,7 milljarða króna. Hafnarfjörður óskaði eftir samningaviðræðum við FM hús á síðasta ári, en fyrir liggur að bæjarfélagið hefur tapað milljörðum á samningi við fyrirtækið sem var gerður árið 2000 í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Hvað varðar Áslandsskóla þá var samið til 27 ára og er ljóst að kostnaður bæjarins vegna samningsins verður orðinn sex milljarðar þegar tímabilinu lýkur.
90% af tekjuöflun félagsins eru leigusamningar við Hafnarfjarðarbæ og Garðabæ. Samkvæmt tilkynningu Regins til Kauphallarinnar er áætlað að heildarvirði eignasafns félagsins geti orðið allt að 12-15 milljarðar króna í lok fjárfestingatímabilsins.
„Þetta kemur verulega á óvart,“ segir Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, spurður út viðskiptin og bætir við að málið sé nú til skoðunar hjá lögfræðingum bæjarins. spurður hvort samningar gagnvart bænum breytist, segir hann eitt af því sem þurfi að kanna betur. Að svo komnu máli vill bæjarstjórinn ekki gefa það upp hvort bærinn leggist gegn sölunni.
Haraldur reyndi að hefja samningaviðræður við eigendur FM húsa á síðasta ári með það að markmiði að ræða kostnað vegna rekstrarhluta samningsins. Það er ljóst að þeir samningar tókust ekki, heldur var félagið selt til Regins og VÍS.
Oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, Gunnar Axel Axelsson, segir tímabært að hefja óháða úttekt á öllu málinu.
„Þetta er sorgarsaga og það er löngu tímabært að það verði gerð óháð úttekt á þessu máli öllu saman, meðal annars á því hvað þetta er búið að kosta bæjarbúa, en þær litlu upplýsingar sem við höfum benda til þess að það séu gríðarlegar fjárhæðir,“ segir Gunnar Axel sem bætir við: „Og nú er verið að braska með þessa gjörninga, hafnfirskur grunnskóli er orðin lína í eignasafni fasteignarisa sem er skráður á hlutabréfamarkaði.“