Með uppsagnarbréfið í vasanum

Fanney Snorradóttir og Ingunn B. Arnarsdóttir voru meðal þeirra kennara sem gengu út úr Norðlingaskóla kl 13.30 á þriðjudag. Þær hafa báðar yfir 10 ára starfsreynslu og segjast vera löngu vera komnar með nóg.
„Við erum að vekja athygli á málstaðnum því við viljum eitthvað verði gert í okkar málum. Þetta er skemmtilegasta vinna í heimi en þetta er orðið rosalega dýrt hobbí,“ segir Ingunn B. Arnardóttir en hún hefur starfað sem kennari í rúm 10 ár.
„Við lifum ekki af þessum launum,“ segir Fanney Snorradóttir. Fanney hefur starfað sem kennari í 15 ár en segist þurfa að leita sér að aukavinnu til að ná endum saman. „Þess vegna er ég með uppsagnarbréfið í vasanum. Að kenna er það skemmtilegasta sem ég geri en þetta er erfitt starf og er alltaf að verða erfiðara. Maður reynir að vera eins mikill fagmaður og maður getur en það er ekki endalaust hægt að gefa og gefa. Maður verður að fá eitthvað til baka og nú er mælirinn fullur. Ég er ekki spennt fyrir verkfalli og ætla frekar að segja upp.“
Ingunn er algjörlega sammála starfssystur sinni þó hún sé ekki enn komin með uppsagnarbréfið í vasann. „Verkfall er ekki inni í myndinni hjá mér heldur og ég er farin að huga að uppsögn, sem mér finnst alveg grátlegt því mér finnst svo gaman að kenna. En starfið hefur breyst alveg rosalega mikið frá því að ég byrjaði. Þetta er gríðarlegt álag og utanumhald. Þetta snýst orðið um svo miklu, miklu meira en að bara kenna,“ segir Ingunn og Fanney tekur undir.
„Það er allt þetta utanumhald en svo er líka mikið af veikum einstaklingum í skólakerfinu,“ segir Fanney. „Ég persónulega er til í að vinna öll þau störf sem kennarar þurfa að vinna því ég get það en við erum alls ekki að fá það sem við viljum fyrir það.“
Verkfall mun bitna á öllum, sérstaklega foreldrum og börnum

„Ég styð kennara algjörlega 100%. Þeir eiga bara að fá hærri laun fyrir alla þessa vinnu,“ segir Katrín Garðarsdóttir, foreldri tveggja barna í Norðlingaskóla. Katrín er formaður foreldrafélags Norðlingaskóla og ein þeirra sem skrifuðu undir stuðningsbréf foreldrafélags skólans við kennara. Hún segir foreldrafélagið hafa fengið ótrúlega jákvæð viðbrögð við stuðningsbréfinu, bæði frá foreldrafélögum í öðrum skólum og frá þakklátum kennurum.
„Við höfum mjög miklar áhyggjur af þessu ástandi. Það virðist vera komið að algjörum þolmörkum hjá kennurum og við foreldrarnir verðum að styðja við bakið á þeim því annars á þetta álag eftir að bitna á börnunum okkar. Og ef til verkfalls kemur þá á það eftir að bitna á öllum, sérstaklega börnum og foreldrum. Það eru alls ekki allir í stakk búnir til að taka sér frí í vinnu til að vera heima. Það er vitað að þó að
börn eru send heim með áætlun og heimavinnu þá líta þau á svona verkföll sem frí en það kemur bara í bakið á þeim þegar líður á skólaárið. Þetta er gríðarlega mikið álag á krakkana sem eru að stefna á að komast í framhaldsskóla næsta vetur. Við vonum innilega að önnur foreldrafélög taki við sér og styðji opinberlega við bakið á kennurum. Þetta, ásamt leikskólakennurum og heilbrigðiststarfsfólki, eru grunnstoðirnar í samfélaginu. Þjóðfélagið getur ekki verið án þessa fólks, það er nokkuð ljóst.“
Dóttir Katrínar, Andrea Rut Halldórsdóttir, er nemandi í 10. bekk og segist hún hafa miklar áhyggjur af ástandinu. Hún stefni á að komast í Versló næsta haust og vilji því alls ekki missa úr skólanum.
En hvað finnst henni um að kennarar skuli ganga út úr skólanum til að vekja athygli á kjarabaráttu sinni?
Mér finnst það í fínu lagi því kennarar ættu að fá hærri laun fyrir vinnuna sína.

Kennarar eru að brenna út

„Það er uggur og ótti í fólki. Það hefur lengi verið þung undiralda í gangi sem skaust upp á yfirborðið í síðustu viku og er að koma aftur upp núna,“ segir Ragnar Þór Pétursson, trúnaðarmaður kennara við Norðlingaskóla. Ragnar er einn þeirra tólf kennara sem nú hafa sagt starfi sínu lausu.
„Ég veit að margir eru með bréf tilbúin en flestir eru að bíða og halda í vonina. Eins og flestir muna þá voru kennarar notaðir sem blóraböggull fyrir síðast launaskrið, það var gefið í skyn að kennarar hefðu fengið mjög rækilega launahækkun árið 2013 en sú launahækkun var að stórum hluta keypt með meiri vinnu og var því í raun ekki launahækkun. Á þessum þremur árum höfum við svo dregist aftur úr í launum en þurfum samt að kvitta upp á að launin verði áfram lág til að viðhalda friði og stöðugleika á vinnumarkaði.“
Ragnar segir baráttuna fyrst og fremst snúast um launin en auk þess hafi síðustu hækkanir verið keyptar með meiri vinnu. Sú yfirvinna sé núna að skila sér í allt of miklu álagi með tilheyrandi veikindum kennara.
„Það hefur blasað við í mörg ár að stéttin er ekki að endurnýja sig og við sáum fram á mjög alvarlegan kennaraskort strax árið 2013. Samningurinn sem kennarar gerðu þá var mjög umdeildur en þar var aðalatriðið það að elstu kennararnir tóku að sér að kenna miklu fleiri stundir en þeir höfðu gert fram að því. Þeir kennarar sem ekki skrifuðu upp á það fengu ekki hækkanir og eru því verst launaðir í dag. Í raun og veru fjármögnuðu elstu kennararnir hækkanirnar síðast með meiri vinnu. Það er að koma í bakið á okkur núna með veikindum kennara. Það hefur sýnt sig í Reykjavík þar sem langtímaveikindi hafa aukist stórkostlega. Fólk er einfaldlega að gefast upp undan álagi og það þarf ekki marga kennarar í veikindaleyfi í einum skóla til að álagið verði miklu meira álag á alla. Rannsóknir hafa sýnt að það tekur ungan kennara örfá ár að brenna út sem getur að hluta til verið ástæða þess hversu illa gengur að halda í unga fólkið. En svo geta gamalgrónir kennarar líka brunnið út á ógnarhraða ef aðstæðurnar verða yfirþyrmandi og það er að gerast út um allan bæ.“
Mikið af nemendum í vanda
Ragnar segir niðurskurð eftir efnahagshrunið ekki einungis hafa bitnað á kennurum heldur einnig nemendum. „Hrunið bitnaði mjög illa á ákveðnum þjóðfélagshópum. Þau vandamál hafa skilað sér á einn eða annan hátt inn í skólana og sérstaklega vegna þess að sveitarfélögin brugðust við hruninu með því að skera niður allt sem mögulega var hægt að skera niður, þar á meðal stuðning við nemendur í vanda. Þannig að þetta blandast þarna allt saman, efnahagshrunið, hár meðal aldur stéttarinnar og lítil endurnýjun. Staðan hefur ekki verið jafn alvarleg í mörg ár.“