Koma hefði mátt í veg fyrir líkamsárásina á Höfn í Hornafirði því árásarmaðurinn var nýlega dæmdur til tveggja mánaða fangelsisrefsingar fyrir önnur brot. Hann var á biðlista eftir fangelsisvist. Auk þess hefur hann verið ákærður fyrir fíkniefnaræktun og verður það mál tekið fyrir hjá héraðsdómi Austurlands.
Maðurinn er 32 ára gamall og réðist lífshættulega að föður sínum þann 17. nóvember. Lögregla var kölluð að heimili feðganna á Höfn í Hornafirði og var faðirinn þá svo illa leikinn eftir soninn að hann var fluttur til Reykjavíkur með þyrlu. Maðurinn hafði lamið föður sinn ítrekað í höfuðið svo höfuðkúpan brotnaði og tvísýnt er um sjón hans. Hann er þó ekki í lífshættu. Vegna áverkanna var faðirinn ekki í líkamlegu ástandi fyrir yfirheyrslu fyrr en í gær, en hún fór fram á Landspítalanum.
Árásarmaðurinn gengst við brotunum og faðir hans hefur fengið skipaðan réttargæslumann til að gæta hagsmuna sinna, enda talið að um alvarlegt heimilisofbeldi sé að ræða.
Íbúar á Höfn lýsa í samtölum við Fréttatímann að mikil ógn hafi stafað af manninum, sérstaklega þegar hann var undir áhrifum vímuefna. Hann á áralanga sögu um ofbeldi, fíkniefni og þjófnað og hefur lögregla þurft að hafa afskipti af honum margoft.
Samkvæmt heimildum Fréttatímans var manninum stungið inn á Litla-Hraun strax eftir árásina og hefur því formlega hafið afplánun á eldra máli. Hann bíður nú dómsmeðferðar á fíkniefnaræktun og auk þess má búast við að hann verði ákærður fyrir alvarlega líkamsárás á föður sinn.
„Það er grafalvarleg staða að fólk sé á biðlistum eftir afplánun. Bæði er það slæmt fyrir fólkið sjálft, að fá ekki að klára sín mál, og svo er það alvarlegt þegar um er að ræða brotamenn sem eru varasamir umhverfinu,“ segir Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi rannsóknardeildar á Suðurlandi.
Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi á Suðurlandi, segir alvarlegt að dæmdum mönnum sé ekki stungið inn.