Fréttatíminn hefur heimildir fyrir því að Eiríkur Fannar Traustason hafi áreitt konu ítrekað úr fangelsinu, áður en hann fékk sérstakt leyfi frá afplánun vegna fjölskylduaðstæðna. Ekki er vitað hvort fangelsyfirvöldum var kunnugt um áreitið, en það ku hafa verið ógnandi.
Eiríkur Fannar hlaut fimm ára fangelsisdóm í Hæstarétti í byrjun júní fyrir grófa nauðgun í Hrísey. Hann fór inn í tjald hjá 17 ára gamalli stúlku, ýtti höfði hennar ítrekað niður í svefnpoka hennar, hótaði að drepa hana og sló hana í höfuð og líkama. Stúlkan var franskur ferðlangur en hún var ein á ferðalagi um Ísland á reiðhjóli sínu. Eiríkur Fannar játaði brot sín fyrir dómi og samþykkti bótaskyldu. Honum var gert að greiða stúlkunni 1,6 milljónir í miskabætur. Dómurinn mat brot Eiríks „mjög alvarlegt.“
Auk þess kærði fimmtán ára gömul stelpa hann fyrir nauðgun í haust. Málið er á borði héraðssaksóknara Reykjavíkur en stúlkan kærði málið hjá Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra í sumar. Barnavernd og Barnahús hafa sömuleiðis komið að málinu. Meðferð þessa máls var ekki lokið þegar Eiríkur Fannar fékk að fara í sérstakt tímabundið leyfi úr fangelsinu vegna alvarlega veikinda nýfæddra barna sinna.
Hann gengur enn laus og er nú kominn til Akureyrar ásamt fjölskyldu sinni. Leyfið hefur verið gagnrýnt harkalega og þykir fordæmalaust. Helga Vala Helgadóttir héraðsdómslögmaður sagði við RÚV að allt liti út fyrir að fangelsismálayfirvöld hefðu gert mistök þegar leyfið var veitt, í ljósi þess að hann sætir annarri rannsókn fyrir kynferðisbrot gegn barni. Arnbjörg Sigurðardóttir, réttargæslumaður stúlkunnar, sagði það hafa komið sér mjög á óvart hversu opin heimild fangelsismálayfirvalda sé, til þess að gera hlé á afplánun fanga. Hún sagði einnig að horfa verði á eðli þeirra brota sem fangar sitji inni fyrir, þegar þeim er veitt hlé frá afplánun, og lögunum sé verulega ábótavant.
Ekki náðist í Páll Winkel fangelsismálastjóra við vinnslu fréttarinnar en hann hefur sagt í fjölmiðlum áður að í þeim tilvikum, sem hlé á afplánun fanga er samþykkt, séu aðstæður viðkomandi mjög alvarlegar. Slíkt sé aðeins gert í undantekningartilvikum.