Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Íslenskur vínsérfræðingur í óvænta útrás

$
0
0

„Þetta er auðvitað ofsalega gaman og ánægjuleg viðurkenning eftir að hafa verið að skrifa um vín í rúm 25 ár,“ segir Steingrímur Sigurgeirsson vínsérfræðingur.

Bók Steingríms, Vín — Umhverfis jörðina á 110 flöskum, sem gefin var út í fyrra hjá Crymogeu kom nýverið út á Ítalíu. Þar í landi kallast bókin Il grande libro illustrato del vino. Bókin vakti mikla athygli hér á landi enda var hún einkar glæsilega myndskreytt af þremur ungum listakonum, þeim Lóu Hjálmtýsdóttur, Rán Flygenring og Siggu Björgu.

Rán Flygenring, Sigga Björg og Lóa Hjálmtýsdóttir myndskreyttu bók Steingríms af mikilli list. Mynd/Hari
Rán Flygenring, Sigga Björg og Lóa Hjálmtýsdóttir myndskreyttu bók Steingríms af mikilli list. Mynd/Hari

Þetta er nú ekki amalegt, að vera að segja Ítölum til um vín og víngerð…
„Nei, enda má segja að Ítalía sé að mörgu leyti vagga víngerðarinnar. Rómverjar færðu þjóðum á borð við Frakka og Spánverja víngerðina. Það er mjög gaman að fá að skrifa um vín fyrir Ítali og gaman að glugga í eigin texta á ítölsku.“

En hvernig kemur það til að íslensk bók um vín er gefin út á Ítalíu? Steingrímur segir að ítalskir vínsérfræðingar skrifi mest um ítölsk vín og því kunni fjölbreytni bókarinnar að þykja áhugaverð.
„Við búum auðvitað ekki til vín sjálf og eigum því ekkert heimalið. Því er allur heimurinn undir í þessari bók,“ segir hann.

„Við vorum öll mjög ánægð með hvernig til tókst með þessa bók hér heima, enda er þetta svolítið öðruvísi nálgun við vínbækur en maður hefur oftast séð og myndskreytingarnar gæða bókina miklu lífi. Okkur datt í hug að bókin ætti kannski erindi víðar og á bókamessunni í Frankfurt sýndu þessir Ítalir henni áhuga og vildu skoða hana betur. Þeir eru með vínritstjóra sem fór í kjölfarið yfir bókina til að athuga hvort hún væri ekki í lagi. Þetta var allt eftir kúnstarinnar reglum og að því búnu sögðust þeir endilega vilja gefa hana út,“ segir Steingrímur. Umrætt forlag, EDT, er í Tórínó og gefur út mikið af efni um mat og ferðalög, til að mynda Lonely Planet-bækurnar á ítölsku.

Að því búnu var bókin þýdd yfir á ítölsku. „Ég hitti þennan þýðanda í sumar því það þurfti að staðfæra ákveðna hluti. Þessi bók er auðvitað skrifuð fyrir Íslendinga og við breyttum nokkrum íslenskum tilvísunum. En það voru reyndar nokkrar slíkar sem fengu að halda sér.“

Bók Steingríms kallast Il grande libro illustrato del vino í ítalskri útgáfu.
Bók Steingríms kallast Il grande libro illustrato del vino í ítalskri útgáfu.

Steingrímur segist aðspurður lengi hafa verið aðdáandi ítalskra vína.
„Já, ég hef alltaf verið einstaklega hrifinn af Ítalíu og Frakklandi, það voru ekki síst þau lönd sem kveiktu hjá manni áhugann á vínum og vínmenningu. Ég hef ferðast um Ítalíu þvera og endilanga, frá Piemonte í norðri til Sikileyjar í suðri, og heimsótt vínframleiðendur og kynnst hefðunum og menningunni á hverjum stað.“

Bókin er seld í búðum um alla Ítalíu og í bóksölum á netinu, til að mynda bæði ítölsku og spænsku útgáfunni af Amazon, að sögn Steingríms.

Verður útgáfunni eitthvað fylgt eftir. Býður þín rauður dregill þar syðra?
„Nei, það er enginn rauður dregill, ekki í bili að minnsta kosti,“ segir hann hlæjandi.

Stendur til að bókin komi út víðar en á Ítalíu?
„Það eru forlög í fleiri löndum að skoða hana. Það er aldrei að vita hvað gerist næst.“

Sjá einnig viðtal við teiknarana þrjá sem birtist í Fréttatímanum í fyrra.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652