Fyrirtæki á Íslandi stunda viðskipti í nokkrum af verstu skattaskjólum heims, samkvæmt lista sem alþjóðlegu hjálparsamtökin Oxfam birtu í nýrri skýrslu þann 12. desember. Í skýrslunni er fjallað um áhrif skattaskjóla á skatttekjur í heiminum og útskýrt af hverju tiltekin fimmtán ríki eru verstu skattaskjól heimsins en eyjan Bermúda er í efsta sæti. Oxfam tekur sem dæmi að bandarísk fyrirtæki hafi komið 80 milljörðum dala í skattaskjól á Bermúda árið 2012.
Eitt af því sem vekur athygli er að Evrópusambandslönd eins og Holland og Írland eru í þriðja og sjötta sæti á listanum, fyrir ofan ríki eins og Ermarsundseyjuna Jersey og Bresku Jómfrúareyjar. Þá er Kýpur í tíunda sæti en útgerðarrisinn Samherji hefur um árabil stundað útgerð í Afríku í gegnum fyrirtæki á Kýpur. Ástæðan fyrir stöðu Hollands á listanum er sú að hollensk yfirvöld bjóða fyrirtækjum og fjárfestum upp á sérstök úrræði í skattamálum til að fá þá til að vera með starfsemi í landinu auk þess sem engan tekjuskatt þarf að greiða þar, samkvæmt Oxfam.
Einn af þeim íslensku kaupsýslumönnum sem notast hefur við fyrirtæki í Hollandi í gegnum tíðina er Ólafur Ólafsson í Samskipum en eignarhald hans á þessu stærsta skipafélagi Íslands, og sjöunda stærsta fyrirtækis Íslands út frá tekjum, er í gegnum hollenskt eignarhaldsfélag, Samskip Holding BV. Samskip er með tæplega 90 milljarða króna tekjur á ári og greiðir út arð sem lendir í Hollandi. Eignarhaldsfélag Ólafs í Hollandi fékk til dæmis einn milljarð króna í arð á árunum 2012 og 2013. Þá notaði Ólafur einnig félag í Hollandi til að halda utan um hlutabréf sín í Kaupþingi á árunum fyrir hrun og fékk greidda tvo milljarða króna í arð til þess á árunum 2006 og 2007.
Lúxemborg er í sjöunda sæti á listanum en margir einstaklingar og fyrirtæki á Íslandi hafa í gegnum árin notast við Lúxemborg í viðskiptum. Ein af aðalástæðunum fyrir veru Lúxemborgar á listanum er, að því er Oxfam segir, að „sönnunargögn bendi til þess að miklum hagnaði hafi verið komið þangað“ frá öðrum löndum. Þetta er sérstaklega áhugavert í íslensku samhengi þar sem eitt af álfyrirtækjunum sem er með starfsemi á Íslandi, Alcoa á Reyðarfirði, hefur greitt um 60 milljarða króna í vexti af lánum sínum til móðurfélags síns í Lúxemborg á síðustu þrettán árum. Slík viðskipti eru kennd við „þunna eiginfjármögnun“ þar sem hagnaði af rekstri er skotið undan sem vöxtum. Vaxtagreiðslurnar nema rúmlega öllu bókfærðu tapi Alcoa á Íslandi á þessu tímabili en vegna taprekstrar hefur Alcoa aldrei greitt fyrirtækjaskatta á Íslandi.
Þrátt fyrir að Oxfam segi brýnt að setja reglur til að bregðast við þessari gerð viðskipta með reglusetningu þá gæti slíkt ekki gagnast íslenskum stjórnvöldum til að bregðast við háttsemi Alcoa þar sem það er bundið í samninga ríkisins við Alcoa að ekki megi banna fyrirtækinu að draga vaxtagreiðslur frá tekjuskattsstofni sínum. Slíkt frumvarp til að reyna að takmarka þunna eiginfjármögnun liggur nú fyrir til umræðu og samþykktar á Alþingi Íslendinga.
Þarna er komið að öðru atriði sem Oxfam gagnrýnir í skýrslu sinni: Að stjórnvöld í löndum heimsins verði að hætta að gera sérstaka skattalega hagkvæma samninga við einstaka fyrirtæki. „Hættið að bjóða skattalega hagkvæma samninga. […] Allir samningar eiga að vera með endurskoðunarákvæði til að koma í veg fyrir gróða einkaðila til langs tíma og skaða fyrir almenning.“