Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Menningartákn sjaldgæf þegar kemur að íslenskum glæpum

$
0
0

Lögreglan leitar manns sem stakk konu í handlegginn í Kópavogi þegar hún var á leið í vinnu sína á Grein­ing­ar- og ráðgjaf­ar­stöð rík­is­ins síðastliðinn mánudag, en sá var í samskonar búningi og raðmorðingjarnir í Scream myndunum.

„Það er oftast ungt fólk sem er í afbrotum, og það eru oft undir áhrifum poppkúltúrsins. Þau sjúga í sig svona menningaráhrif og því ætti ekki að koma á óvart að menn grípi til þessara menningartákna,“ segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði.

Hann bendir þó á að rannsóknir hafi sýnt að glæpir hér á landi séu oftast afar tilviljunarkenndir og framdir í miklu bráðræði. Oftast séu gerendur undir áhrifum vímuefna og tilgangurinn sé að fjármagna neyslu eða komast yfir peninga. Vilji menn hylja sig er lambhúshettan vinsælust. Það vekur því athygli afbrotafræðingsins að þarna hafi fundist grímubúningur á vettvangi.

„Það þýðir að viðkomandi hafi undirbúið gjörninginn að einhverju leyti með því að velja sér búninginn,“ útskýrir Helgi.

Frá því fyrsta Scream-myndin var sýnd árið 1996 hafa allnokkur morð verið framin af unglingum undir áhrifum kvikmyndanna. Þar á meðal þrjú í Frakklandi, en það síðasta var framið árið 2002, eftir því sem Fréttatíminn kemst næst.

Aðspurður hvort hann telji að viðkomandi hafi litið á árásina sem nokkurskonar forspil, eða æfingu, til þess að ganga lengra síðar meir, svarar Helgi að hann telji það ólíklegt. „Miðað við brotið, þá hef ég ekki trú á því að þetta sé einhverskonar æfing. Það er hugsanlegt í svona tilfellum að viðkomandi fái nokkurskonar „kikk“ út úr þessu, og vilji láta til skara skríða á ný, en mér finnst það ólíklegt,“ segir Helgi og bætir við: „Og miðað við staðinn þar sem afbrotið átti sér stað, þá finnst mér mjög líklegt að þarna sé á ferð einstaklingur sem eigi við alvarlegan vanda að stríða, og hafi átt í einhverjum viðskiptum við stofnunina áður, og telur kannski farir sínar ekki sléttar eftir það.“

Helgi segist ekki muna til þess að svona sterk menningartákn hafi verið hluti af svo alvarlegu broti áður á Íslandi. Það má þó finna eitt annað mál, en þá réðst andlega vanheill unglingur á níu ára stelpu í Hafnarfirði árið 2014. Sá var með heimatilbúna grímu og sagðist hafa framið ódæðið undir áhrifum frá Halloween hrollvekjunum. Fréttatíminn kannaði hvar sá piltur væri staddur í dag, en hann er enn í öryggisgæslu vegna árásarinnar.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652