Íbúar á Seltjarnarnesi eru reiðir yfir því að bæjaryfirvöld geti ekki tryggt framtíð Systrasamlagsins við íþróttamannvirki bæjarfélagsins. Í spjallhópi á Facebook segja íbúar að Systrasamlagið sé límið í hverfinu sem glæði það lífi og bjóði upp á hollan og góðan mat. Þeir saka bæjaryfirvöld um að fæla burt frábæra en viðkvæma starfsemi.
„Nú er ekki rekstrargrundvöllur fyrir okkur hér lengur. Húseigandinn hefur aðeins fengið árs leigusamninga í senn, undanfarin þrjú ár. Vegna óvissunnar hefur hann ekki viljað kosta viðhald á húsinu. Við systurnar höfum því ákveðið að færa okkur um set og opnum á Óðinsgötu 1 um miðjan janúar. Við hefðum viljað vera áfram því hér eigum við djúpar rætur,“ segir Guðrún. Þær systur eru fjórða kynslóð sem heldur til á þessum stað á Nesinu en forfeður þeirra voru útvegsbændur á jörðinni. Systrasamlagið hlaut umhverfisviðurkenningu bæjarfélagsins og var valið fyrirtæki ársins 2015 á Seltjarnarnesi.

Bæjarfulltrúar Samfylkingar hafa tekið málið upp í bæjarstjórn og vilja tryggja Systrasamfélaginu áframhaldandi samning. Meirihluti bæjarstjórnar hefur ekki viljað það.
„Leigusamningur húseigandans rann út 2014 og vegna samþykktar frá 2007 um að gera bílakjallara á þessum stað, höfum við ekki viljað leigja út nema til árs í senn. Við lofuðum samt leigjanda að gefa góðan fyrirvara á framkvæmdirnar. Að öðru leyti er þetta mál Systrasamlagsins og húseigandans,“ segir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Ásgerður segir þó ekkert ákveðið um hvort eða hvenær gera eigi bílakjallarann.
–Hvort telur þú mikilvægara að hafa bílakjallara eða verslun á staðnum?
„Ég tel öryggi gangandi vegfarenda og bílaumferðar vega þyngst,“ segir Ásgerður.
Björn Leifsson, sem rekur World Class við sundlaugina, segir bílakjallarann óþarfan. „Fyrir níu árum var á teikniborðinu að gera bílakjallara sem hefði bætt við um 30 stæðum. Það er alltof dýr framkvæmd fyrir svona lítinn ávinning, auk þess sem við gátum bætt við stæðum fyrir aftan húsið. Ég hefði viljað hafa Systrasamlagið þarna áfram, þær skapa líf í hverfinu.
„Algjörlega ótrúlegt þegar loksins einstaklingar eru tilbúnir að hefja rekstur á Nesinu, byggja upp öflugt vörumerki í anda stefnu bæjarins; fjölskylduvænt og grænt – að þá er bærinn ekki tilbúinn að framlengja samning,“ skrifar Guðrún Tinna Ólafsdóttir, íbúi á Seltjarnarnesi, á íbúasíðu Seltirninga á Facebook um ákvörðun bæjaryfirvalda.
