Soffía Dögg Garðarsdóttir er flestum fagurkerum landsins löngu kunn enda haldið úti hinum feiknavinasæla vef Skreytum hús í nokkur ár. Á Facebook-hóp hennar Skreytum hús deila 35.000 meðlimir lausnum fyrir heimilið en í því er Soffía sjálf algjör snillingur, sérstaklega þegar kemur að frumlegum og ódýrum lausnum. Soffía er nýbúin að taka jólin niður sem henni finnst næstum því jafn skemmtilegt og að setja þau upp. „Það kemur svo skemmtileg ró yfir og svona hreinleikatilfinning. Á þessum tíma er kjörið að nýta tímann og prófa að færa hluti til, það sem skiptir öllu máli er að leika sér með þetta allt saman. Sniðugt er að setja sér áskorun um að enginn hlutur megi fara á „sinn“ stað – hvað kemur út úr því?“
Nú þegar jólin eru komin í kassa stefnir Soffía á að taka barnaherbergin í gegn. Fyrst á dagskrá er að búa til nýtt rúm fyrir dótturina, hálfgerða himnasæng. Til þess mun Soffía nota gamalt rúm sem henni áskotnaðist í Skreytumhús-söluhópnum og úr viðarhillum af nytjamarkaði. „Barnaherbergi eru eilífðarverkefni og eitthvað sem þarf alltaf að fara reglulega í gegnum. Börn eiga svo mikið af leikföngum, svo bætist alltaf við um jólin og það er um að gera að fara yfir það sem er ekki lengur í notkun og koma því þangað sem aðrir njóta góðs af. Við fórum yfir alla fataskápana hérna og erum með stóra poka sem eru að fara í Konukot og í Rauða krossinn, eins förum við með leikföng sem er hætt að nota og komum þeim í umferð aftur.“







Góð janúarráð frá Soffíu
„Ólíkt mörgum þá finnst mér janúar og febrúar ferlega kósí mánuðir. Veturinn er alltaf skemmtilegur fyrir DIY-verkefni (Gerðu það sjálf/ur)innan dyra, þar sem sumarið er oft undirlagt af garðvinnu og öðrum utanhúsverkefnum. Ég veit að margir eru hræddir við að byrja á einhverju svona DIY, finnst það yfirþyrmandi, en það er um að gera að fara á nytjamarkað og kaupa sér kertastjaka eða eitthvert smotterí og prófa sig áfram. Það er bara að taka fyrsta skrefið og láta reyna á það. Því fylgir því mjög góð tilfinning að endurnýta hluti og að skapa eitthvað fallegt, eitthvað sérstakt sem að fellur að þínum einstaka smekk. Heimilið á að vera framlenging á þér og þínum persónuleika,“ segir Soffía.