Nokkrir Íslendingar hafa nýtt sér nýlega heimild í lögum til að gangast undir læknisaðgerðir erlendis, ef biðtími hér fer yfir ákveðin mörk. Sjúklingar fá þá endurgreitt frá Sjúkratryggingum.
Alls greiddi stofnunin 14 milljónir í fyrra vegna 7 slíkra aðgerða, en þær voru allar vegna liðskipta en biðtíminn eftir þeim verulegur og sjúklingar oft óvinnufærir.
Allir geta leitað upplýsinga hjá alþjóðadeild Sjúkratrygginga um hvort þeir eiga rétt á slíku, ef þeir hafa beðið lengi eftir nauðsynlegri aðgerð en fjölmörg skilyrði þurfa að vera til staðar.
Helgi Guðbergsson, yfirtryggingalæknir hjá Sjúkratryggingum, segir ljóst að fleiri aðgerðir en liðskipti geti komið til álita. Lengstu biðlistarnir séu í dag eftir aðgerðum á augasteini, þar hafi sumir þurft að bíða í allt að tvö ár, en þær aðgerðir eru gerðar á LSH og einkastofum. Þá er dæmi um að sjúklingur hafi sótt um niðurgreiðslu vegna kæfisvefnsrannsókna.
Sjúkratryggingarnar greiddu ennfremur 3 milljónir vegna 27 einstaklinga undir landamæratilskipuninni, 170 milljónir vegna endurgreidds sjúkrakostnaðar utan EES, 170 milljónir vegna notkunar íslenskra EES sjúkrakorta í Evrópu og 1,9 milljarða vegna brýnnar meðferðar erlendis.
En þar með er ekki öll sagan sögð. EES og Sviss koma til með að greiða íslenskum yfirvöldum tæpar 500 milljónir vegna notkunar erlendra EES sjúkrakorta á Íslandi á árinu 2016. Þessi upphæð fer stigvaxandi í takt við aukinn fjölda erlendra ferðamanna á Íslandi.