Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Ævintýrið sem á að bjarga bæjum Íslands

$
0
0
Á eyjunni Lovund í Nordland-fylki í Noregi hefur íbúafjöldinn aukist um þriðjung frá árinu 2000 vegna laxeldisins sem þar er stundað. Í þorpinu á eyjunni búa nú 473 íbúar en fyrir tíma laxeldisins í byrjun áttunda áratugarins var íbúafjöldinn kominn niður í 230. Síðan þá hefur íbúafjöldinn vaxið og vaxið vegna laxeldisins sem fyrirtækið Nova Sea stendur fyrir í þorpinu. Framleiðslan nemur 150 til 230 tonnum á dag og síðastliðin ár hefur ríkt góðæri í þorpinu: Allir 290 starfsmennirnir fengu rúmlega 1300 þúsund króna bónus í fyrra og hluthafarnir í Nova Sea greiddu sér vel á annan milljarð króna í arð.
Einn af eigendunum, Hans Petter Melands, segir í bók norsku blaðakonunnar Kjersti Sandvik, Under overflaten: En skitten historie om det norske lakseeventyret, um laxeldið í Noregi að markmiðið snúist ekki um peninga. „Það var aldrei nokkurt markmið hjá okkur að verða ríkir. […] Það mikilvægasta var að halda eyjunni í byggð. Laxapeningarnir á Lovund eiga að renna til baka til samfélagsins hér og til þeirra sem búa á eyjunni.“ Bókin kom út í fyrravor og vakti talsverða athygli þar sem um er að ræða ítarlega greiningu á „laxeldisævintýrinu“ í Noregi eins og Kjersti kallar það.
Lovund og Tálknafjörður
Samfélagslegu áhrifin af þessari stefnu Nova Sea eru þau að ungt fólk kemur til eyjunnar til að vinna og búa, samkvæmt því sem stendur í bók Kjersti. „Íbúarnir á Lovund eru ungir. Leikskólinn er að verða of lítill, það sama á við um barna- og gagnfræðaskólann. Síðustu árin hefur búið fólk af 12 til 15 mismunandi þjóðernum á eynni. Hér standa engin hús auð, það er  húsnæðisskortur og íbúðakjarni hefur verið byggður á litlu eyjunni. Ný fúnkishús úr síberísku lerki standa alveg við sjávarkambinn. Það er Nova Sea sem sér um að redda húsnæði fyrir starfsmenn sína.“
Ísland hefur auðvitað glímt við fólksfækkun á landsbyggðinni í áratugi og hafa tilraunir til að snúa þeirri þróun við og halda smábæjum og þorpum í byggð almennt séð ekki skilað miklum árangri. Í samanburði við þorp eins og Tálknafjörð á Vestfjörðum, þar sem fyrirhuguð er margföldun á framleiðslu á eldislaxi upp í tugþúsundir tonna, er þessi þróun í Lovund gerólík. Íbúafjöldinn á Tálknafirði hefur minnkað stöðugt, meðal annars vegna sölu á kvóta stærsta útgerðarfyrirtækisins í þorpinu, og er nú kominn vel niður fyrir 300. Eins og skólastjóri grunnskólans á Tálknafirði, Helga Birna Berthelsen, sagði við Fréttatímann fyrir skömmu: „Yngstu börnin í þorpinu eru fædd árið 2014 og eru því rúmlega tveggja ára. Það er ekki vitað til þess að nein kona í bænum sé ólétt þannig að okkur fækkar rosalega hratt. Þarna er tveggja ára gat í skólanum hjá okkur því það er svo lítið af ungu fólki hérna. Unga fólkið okkar fer í burtu og kemur ekki til baka því þess bíður ekkert hérna. Auðvitað hef ég áhyggjur af því að byggðin hér geti lagst af.“
Laxeldi getur hjálpað til við að snúa þessari fólksfækkunarþróun við og hefur raunar gert það í litlum mæli nú þegar, til dæmis á Bíldudal.
Einar Kr. Guðfinnson, formaður Landssamtaka fiskeldisfyrirtækja, hefur mikla trú á laxeldinu en segir að fari þurfi með gát.
Einar Kr. Guðfinnson, formaður Landssamtaka fiskeldisfyrirtækja, hefur mikla trú á laxeldinu en segir að fari þurfi með gát.
Ísland í norsku ljósi
Þessi lýsing á forsendum laxeldisins á Lovund gæti allt eins átt við um nokkur þeirra fyrirtækja í laxeldi á Íslandi sem líta á framleiðslu á laxi sem svar við fólksfækkun í dreifbýli í landinu, til dæmis á Vestfjörðum. Þannig segir í skýrslu dótturfélags útgerðarinnar Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal, Háafells ehf., að laxeldið geti orðið vendipunkturinn fyrir byggðina. „Atvinnuáhrifin, verðmætasköpunin og margfeldisáhrifin af uppbyggingu í laxeldi geta snúið við þeirri neikvæðu þróun sem hefur verið viðvarandi á Vestfjörðum.“
Að mörgu leyti er hægt að spegla stöðu laxeldis á Íslandi, og framtíðaráætlanir eldisfyrirtækja, í reynslu Norðmanna.
Í samtali við Fréttatímann segir Einar Kristinn Guðfinnsson, stjórnarformaður Landssambands laxeldisstöðva og fyrrverandi alþingismaður úr Norðvesturkjördæmi, að byggðasjónarmiðin séu honum ofarlega í huga. Einar Kristinn er frá Bolungarvík en þar stendur til að hefja umfangsmikið laxeldi á næstu árum og eru það fyrirtækin Háafell, Arnarlax og Arctic Fish sem standa fyrir eldinu í Ísafjarðardjúpi. „Þarna getur verið um að ræða öfluga atvinnugrein sem getur búið til viðbótarstörf fyrir þjóðarbúið, störf og afleidd störf. Það sem við sjáum, sem er áhugavert, er að þessi uppbygging mun fyrirsjáanlega verða á landsvæðum sem staðið hafa höllum fæti í byggðalegu tilliti og vísbendingarnar sem við höfum nú þegar frá sunnanverðum Vestfjörðum sanna það og eru í samræmi við þá reynslu sem Norðmenn hafa, jafnvel þó að þeir framleiði auðvitað margfalt magn miðað við það sem við munum framleiða. Reynsla Norðmanna segir okkur nákvæmlega þetta.“
Tíföldun á Íslandi
Ísland stendur nú frammi fyrir því, í fyrsta skipti í sinni sögu, að hefja stórfellda framleiðslu á eldislaxi í fjörðum landsins alveg eins og Noregur fyrir rúmum fjörutíu árum síðan. Framleiðslan á Íslandi hefur einungis numið nokkur þúsund tonnum síðastliðin ár en til stendur að snarauka hana upp í allt að hundrað þúsund tonn á nokkrum árum. Norsk stórfyrirtæki í laxeldi eins og Salmar AS og Midt-Norsk Havbruk hafa fjárfest í íslenskum laxeldisfyrirtækjum og koma með fjármagn til þessarar aukningar. Bara í Ísafjarðardjúpi stendur til að framleiða 25 þúsund tonn.
Í Noregi nemur framleiðslan á eldislaxi 1.3 milljónum tonna á ári og stefna þeir að því að því að fimmfalda framleiðsluna fyrir árið 2050. Þessi lax er seldur til 100 ólíkra landa um allan heim. Mest af laxinum, 75 prósent, fer til landa í Evrópusambandinu. Tekjurnar af sölunni á laxinum námu rúmum 65 milljörðum norskra króna eða um 2/3 hlutum af útflutningstekjum Norðmanna í sölu á sjávarafurðum. Sala á eldislaxi er því miklu stærri en sala Norðmanna á veiddum fiski. Noregur er langstærsti framleiðandi af Atlantshafslaxi í heiminum og hefur farið í útrás með framleiðsluna til Síle, Kanada, Skotlands og nú líka Íslands.
Laxeldið í Noregi er hins vegar langt frá því að vera óumdeilt þar í landi og víðar.
Norski skipakóngurinn John Fredericksen rekur stærsta laxeldisfyrirtæki Noregs, Marine Harvest, en í bók Kjersti Sandvik kemur fram að fyrirtækið hafi hagnast um 10 milljónir norskra króna á dag í rúman áratug. Fredericksen sést hér annar til vinstri frá miðju þegar Marine Harvest var skráð í bandarísku kauphöllina árið 2014 en hann mætti í athöfnina með dauðan eldislax á fati.
Norski skipakóngurinn John Fredericksen rekur stærsta laxeldisfyrirtæki Noregs, Marine Harvest, en í bók Kjersti Sandvik kemur fram að fyrirtækið hafi hagnast um 10 milljónir norskra króna á dag í rúman áratug. Fredericksen sést hér annar til vinstri frá miðju þegar Marine Harvest var skráð í bandarísku kauphöllina árið 2014 en hann mætti í athöfnina með dauðan eldislax á fati.
Samþjöppun á eignarhaldi í laxeldi
Í Noregi gerðist það, eftir því sem meiri reynsla komst á laxeldið, að stórfyrirtæki keyptu upp minni fyrirtæki sem og framleiðsluleyfi í laxeldi. Árið 1990 framleiddu tíu stærstu laxeldisfyrirtækin í Noregi 8 prósent af framleiðslunni en árið 2001 var þessi tala komin upp í 46 prósent. Þessi þróun í eignarhaldi á laxeldisfyrirtækjum og laxeldisleyfum í Noregi er að hluta til svipuð þeirri þróun sem verið hefur í samþjöppun í eignarhaldi á aflaheimildum á Íslandi. Minni fyrirtæki selja kvótann til stærri fyrirtækja eins og Samherja, HB Granda og Síldarvinnslunnar sem alltaf verða stærri og stærri og dreifing verðmætanna um samfélagið verður minni.
Fjölskyldufyrirtækið Nova Sea á eynni Lovund, sem rætt var um fyrr í greininni, fór ekki varhluta af þessari þróun. Árið 1995 lenti Nova Sea í kröggum og keypti ríkisfyrirtækið Norsk Hydro hlut í því. Þessi hlutabréf enduðu svo hjá stærsta laxeldisfyrirtæki Noregs, Marine Harvest sem er í eigu norska skipakóngsins og milljarðamæringsins John Fredericksen, árið 2005. Fyrirtækið framleiðir 22 prósent af öllum Atlantshafslaxi í heiminum. Fredricksen keypti þá hollenskt fyrirtæki sem hafði eignast hlutabréfin á Lovund, og mörg önnur fyrirtæki, fyrir 1.3 milljarða evra. Marine Harvest er skráð á markað í kauphöllinni í New York og mætti Fredricksen á verðbréfamarkaðinn með dauðan eldislax á fati þegar viðskipti hófust með bréf félagsins. Í bók Kjersti Sandvik kemur fram að laxeldisfyrirtækið hafi skilaði hagnaði upp á tíu milljónir norskra króna á dag frá árinu 2005 og er nefnt að arðgreiðsla til hluthafa hafi numið 3.4 miljörðum norskra króna árið 2014, eða samtals rúmlega 40 milljörðum króna.
Núningur milli ólíkra heima
 
Þessi þróun hefur líka leitt af sér núning á milli stofnenda fyrirtækja eins og Nova Sea, sem reka fyrirtækin með ákveðinni umhyggju fyrir dreifðum byggðum Noregs, og fjárfesta eins og John Fredericksen sem telja að byggðasjónarmið eigi ekki í heima í viðskiptum, eins og kom fram í ársskýrslu Landsambands norskra eldisfyrirtækja, samkvæmt bók Kjersti Sandvik. „Krafa um samfélagslega ábyrgð virkar ekki í öðrum atvinnugreinum og mun heldur ekki virka í laxeldinu til lengri tíma litið. Þetta leiðir af því að af sjálfsögðu eru gerðar kröfur um hámarks arðsemi af hlutafé og sem hæstum arðgreiðslum til eigenda.“
Árið 2013 var eignarhald Marine Harvest á norskum laxeldisfyrirtækjum orðið svo umsvifamikið að það átti 24 prósent af öllum leyfunum. Í norskum lögum var í gildi ákvæði um að einstök fyrirtæki mættu mest eiga 25 prósent leyfanna. Þetta var gert meðal annars til að tryggja dreifða eignaraðild á laxeldisleyfunum og þar með til að tryggja að laxeldi færi fram á sem flestum stöðum um allan Noreg. Bakslag kom hins vegar í þessa viðleitni þegar mörkin voru svo hækkuð upp í fjörutíu prósent þegar Marine Harvest var komið upp að þessum 25 mörkum árið 2013.
Þannig getur regluverkið í laxeldi haft sams konar áhrif og frjálst framsal og veðsetning aflaheimilda á Íslandi. Stórfyrirtæki eignast fyrirtæki í dreifðum byggðum vegna þess að þau vilja eignast veiði- eða framleiðslukvóta þeirra á fisk. Hagsmunir stórfyrirtækisins felast hins vegar kannski ekki endilega í því að halda kvótanum eða laxeldisleyfunum í bæjarfélaginu heldur að hámarka arðsemina í fjárfestingum fyrirtækisins.
Leyfi í Noregi á allt að 800 milljónir
Þessi þróun í Noregi var möguleg vegna þess að bókfært verðmæti laxeldisleyfanna hafði rokið upp úr öllu valdi vegna þess hversu vel gekk í iðnaðinum. Norskir bankar voru reiðubúnir að lána stórfyrirtækjum háar fjárhæðir til að kaupa laxeldisleyfi af minni fyrirtækjum eins og Kjersti Sandvik rekur í bók sinni vegna þess að verðmæti leyfanna var svo ofmetið. Stórfyrirtækin gátu þá tekið lán, keypt leyfin og „lítil fjölskyldufyrirtæki gátu fengið milljónir norskra króna inn á bankareikninga sína“. Sambærilegar sögur úr samtíma Íslands eru þekktar, þar sem kvótaeigendur í litlum sjávarplássum seldu aflaheimildir sínar til stórfyrirtækja og kvöddu þorpin.
Öfugt við í Noregi kosta leyfin til að hefja laxeldi á Íslandi lítið og þau eru ekki takmörkuð auðlind vegna þess að Ísland er bara að stíga sín fyrstu skref í laxeldi. Á Íslandi þarf að greiða um 300 þúsund krónur til að hefja laxeldi auk þess sem fara þarf með framkvæmdina í gegnum Skipulagsstofnun, í umhverfismat eftir atvikum auk þess sem starfsemin lýtur eftirliti ríkisstofnana eins og Umhverfisstofnunar.
Í Noregi eru hins vegar bara gefin út ákveðið mörg leyfi og norska ríkið hefur hægt mjög á því að veita leyfi í ljósi umhverfisáhrifa laxeldisins. Þetta eykur markaðsvirði leyfanna. Síðast þegar norska ríkið seldi leyfi fyrir laxeldi fóru dýrustu leyfin á rúmlega 800 milljónir íslenskra króna en þau ódýrustu voru seld á meira en 100 milljónir króna – verð leyfanna veltur á umfangi laxeldisins og eins því hversu umhverfisvænt eða óumhverfisvænt það er.
Þessi takmarkaði fjöldi leyfa hefur leitt til þess að fjárfestar og spákaupmenn reyna að kaupa laxeldisleyfi ódýrt af ríkinu og selja þau svo aftur á margföldu verði. Kjersti Sandvik rekur eina slíku sögu í bók sinni þar sem viðmælandi hennar keypti leyfi á 8 milljónir norskra króna en seldi það svo strax aftur á 30. „Þetta er alveg ótrúlegt,“ er haft eftir manninum í bókinni.
Norska útrásin
Um aldmótin voru laxeldisleyfin í Noregi orðin mjög dýr og norsk yfirvöld orðin meðvitaðri um slæm umhverfisáhrif laxeldisins. Meðal annars laxalús, ýmsa sjúkdóma, að eldislaxinn næði alltaf að fara úr kvíunum og blandaðist villta laxinum sem og möguleg slæm áhrif á lífverur í sjónum, eins og rækju. Þá byrjuðu norsku laxeldisfyrirtækin að horfa til þess að hefja laxeldi í öðrum löndum eins og Síle. Rétt eins og á Íslandi flytja laxeldisfyrirtæki inn norskan lax til að ala í viðkomandi löndum er því um að aðra tegund að ræða en staðbundna villta laxastofna.
Á einungis örfáum árum varð Síle næst stærsti framleiðandi á Atlantshafslaxi í heiminum á eftir Noregi. Framleiðslan náði hámarki árið 2008 þegar 403 þúsund tonn voru framleidd – rúmlega fjórum sinnum meira en forsvarsmenn laxeldisins á Íslandi stefna á að framleiða nú – og var Marine Harvest með 5000 starfsmenn í landinu þegar mest lét. Árið 2009 hrundi framleiðslan hins vegar þegar smitsjúkdómurinn ILA kom upp í Síle og laxeldisfyrirtækin brugðust ekki nægilega hratt við því, til dæmis með því að slátra og farga sýktum fiskum fyrr. Árið eftir minnkaði framleiðslan um 75 prósent voru framleidd 90 þúsund tonn í landinu, segir Kjersti Sandvik í bók sinni.
Eftir þetta hefur framleiðslan í Síle aldrei náð sér á strik aftur og hefur Marine Harvest rekið starfsemi sína í landinu með tapi síðan og starfa nú 1280 hjá fyrirtækinu. Stjórnandi hjá Marine Harvest, Alf Helge Aarskog, viðurkenndi árið 2014 að farið hafi verið of geyst í Síle og að laxeldið hafi ætlað að stækka of mikið. „Sá einfeldnislegi ákafi sem felst í því að reyna að græða sem mesta peninga hefur líffræðilegar og umhverfislegar afleiðingar sem geta eyðilagt fyrir öllum.“
Útrás norskra laxeldisfyrirtækja til annarra landa hefur því haft slæmar afleiðingar í einhverjum tilfellum. En norsku fyrirtækin halda áfram að leita að nýjum löndum til að stunda laxeldi í. Eftirlit með laxeldi er nú orðið svo mikið, og regluverkið svo sterkt, að forsvarsmenn laxeldisfyrirtækja geta lent í fangelsi ef þeir brjóta lög og reglur um laxeldið, til dæmis ef laxar sleppa úr kvíum og fyrirtækin tilkynna ekki um það eða ef fyrirtækin láta undir höfuð leggjast að aflúsa eldislaxana eða að bregðast við sjúkdómum.
Gustav Witzoe er stofnandi og einn stærsti hluthafi Salmar ASA sem er eitt stærsta laxeldisfyrirtæki Noregs. Salmar hefur keypt hlut í stærsta laxeldisfyrirtæki Íslands, Arnarlaxi. Hann sést hér ásamt nafna sínum og syni. Á sama tíma og Salmar hefur starfsemi á Íslandi reynir fyrirtækið að finna aðrar framleiðsluaðferðir en sjókvíaeldi vegna þess að það er umhverfisspillandi.
Gustav Witzoe er stofnandi og einn stærsti hluthafi Salmar ASA sem er eitt stærsta laxeldisfyrirtæki Noregs. Salmar hefur keypt hlut í stærsta laxeldisfyrirtæki Íslands, Arnarlaxi. Hann sést hér ásamt nafna sínum og syni. Á sama tíma og Salmar hefur starfsemi á Íslandi reynir fyrirtækið að finna aðrar framleiðsluaðferðir en sjókvíaeldi vegna þess að það er umhverfisspillandi.
Í aflandseldi og Íslandseldi
Eitt af fyrirtækjunum sem leitar annarra leiða til að stunda laxeldi en að gera það í Noregi er Salmar AS sem í fyrra varð stærsti hluthafi sameinaðs fyrirtækis Fjarðalax og Arnarlax. Í bók Kjersti Sandvik er fjallað um það að Salmar AS sé nú orðið leiðandi á sviði þróunar á úthafslaxeldi, laxeldi sem er stundað í kvíum úti á hafsjó. „Hér er hugsunin sú að því lengra úti í hafi sem eldið fer fram þeim mun færri umhverfisvandamál þarf að leysa.“ Salmar hafði gert margar tilraunir til að sækja um ódýr og umhverfisvænni laxeldisleyfi sem kostuðu þar með minna en aldrei hafði norska ríkið selt fyrirtækinu slík leyfi. Fyrirtækið fékk því ókeypis tilraunleyfi til að byrja að þróa aflandseldið árið 2015 og árið eftir varð Salmar AS stærsti einstaki hluthafinn í strandlaxeldi á Íslandi. Ekki þarf að taka fram að regluverkið utan um laxeldi er ekki nándar nærri eins sterkt á Íslandi og í Noregi enda er þetta tiltölulega nýr iðnaður á Íslandi.
Hversu stórt verður laxeldið á Íslandi?
Engan hefði grunað að laxeldið í Noregi yrði svo stórt þegar það hófst á áttunda áratugnum. Árið 1985 voru framleidd 34600 tonn af laxi í Noregi og fimm árum síðar hafði framleiðslan tæplega fimmfaldast, upp í rúmlega 150 þúsund tonn. Svo jókst framleiðslan bara og jókst án þess að yfirvöld í Noregi næðu að fylgja þessari stækkun eftir með nægilega góði regluverki og eftirliti.
Íslensk laxeldisfyrirtæki ætla að tífalda framleiðsluna á nokkrum árum og fara upp í 100 þúsund tonna framleiðslu. Verður svo framleitt meira? Hvað segir Einar K. Guðfinnsson um það: „Ég hef forðast að nefna einhverja eina ákveðna tölu um framleiðsluna. Áður en farið er að taka ákvörðun um laxeldið þá þarf að liggja fyrir mat Hafrannsóknarstofnunar á burðarþoli þeirra fjarða sem gæti verið um að ræða og þetta mat liggur ekki fyrir að öllu leyti. Síðan náttúrulega markast þetta náttúrulega af markaðsaðstæðum og möguleikum fyrirtækjanna til að byggja sig upp.“
En við hvað er Einar smeykastur í laxeldinu?. „Áskoranir laxeldisins felast sérstaklega í þeim umhverfisspurningum sem verið hafa í umræðunni. Ég fyrir mína parta, og fiskeldismenn allir, tek þær spurningar mjög alvarlega. Það eru hagsmunir fiskeldisins að standa að uppbyggingunni af mikilli varúð.“
Ef reynsla Norðmanna í laxeldi getur kennt Íslendingum eitthvað þá er það að fara ekki of hratt í sakirnar í laxeldinu og að fyrirtækin vaxi of mikið og of hratt án þess að eftirlit og regluverk hins opinbera þróist samhliða þessari uppbyggingu.
Aukaefni:
Kjersti Sandvik, höfundur bókarinnar um laxeldið í Noregi sem stuðst er við hér, segir að laxeldisfyrirtækin í Noregi þurfi að byrja að nota aðrar framleiðsluaðferðir vegna umhverfisástæðna. Á sama tíma er Ísland að fara að margfalda laxeldi á Íslandi með sömu aðferðum og Norðmenn hafa notað.
Kjersti Sandvik, höfundur bókarinnar um laxeldið í Noregi sem stuðst er við hér, segir að laxeldisfyrirtækin í Noregi þurfi að byrja að nota aðrar framleiðsluaðferðir vegna umhverfisástæðna. Á sama tíma er Ísland að fara að margfalda laxeldi á Íslandi með sömu aðferðum og Norðmenn hafa notað.
Laxeldisfyrirtækin hlusta
ekki á rök og vilja ekki samtal
Spurningar Fréttatímans til norsku blaðakonunnar Kjersti Sandvik og svör hennar
Hver er þín sýn á laxeldið í Noregi?
Laxeldið er orðið að mikilvægri atvinnugrein í Noregi. Atvinnugreinin hefur skapað störf á svæðum þar sem verið hefur fólksfækkun og hún er orðin að mikilvægri útflutningsgrein. En laxeldið hefur líka sína slæmu hliðar. Litlar rannsóknir hafa farið fram á neikvæðum afleiðingum laxeldisins fyrir umhverfið. Bæði á áhrifunum á fisktegundir sem lifa í sjónum meðfram ströndinni og eins á villta laxinn. Síðustu ár hefur laxeldið lent í erfiðleikum út af lús og sjúkdómum og má því ekki stækka meira í Noregi. Lokaðar kvíar í sjó eða á landi fyrir hluta eða alla framleiðsluna myndu verja náttúruna. En laxeldisfyrirtækin vilja ekki viðurkenna að framleiðsluaðferðirnar sem notaðar eru í dag séu umhverfisspillandi. Ef laxeldið á að stækka tel ég að það þurfi að skipta um framleiðsluaðferðir.“
Hvaða ráðleggingar myndir þú gefa Íslendingum, sem eru að stíga sín fyrstu skref í tilraunum til að koma upp stórfelldu laxeldi í landinu?
Laxeldið má ekki stækka meira en náttúran þolir. Á hverjum tímapunkti þurfa yfirvöld að hafa stjórn á umhverfisvandamálunum sem fylgja eldinu. Í bókinni minni segir prófessor í hagfræði að ef það sé einhver atvinnugrein sem ríkisvaldið verði að stýra með stífum reglum þá sé það laxeldið. Ég tel að það eigi að fylgja þessu ráði. Þetta er líffræðileg framleiðsla í vistkerfi náttúrunnar og þá mega efnahagslegar ástæður ekki bara ráða för. Ég vil meina að í Noregi hafi yfirvöld treyst of mikið á laxeldisfyrirtækin og ekki hlustað nægilega mikið á líffræðinga, vísindamenn og þá sem tala um hættuna sem steðjar að öðrum atvinnugreinum og villta laxinum. Ég myndi einnig hugleiða að taka upp laxeldi í lokuðum kvíum. Það er fjárfesting sem mun bera ávöxt til lengri tíma litið.“
Hvernig hefur það verið fyrir þig sem blaðamann að gagnrýna og benda á brotalamir í svo mikilvægri atvinnugrein í Noregi þar sem hagsmunirnir eru svo miklir? Ertu álitin „fjandmaður fólksins“?
Mér hefur verið boðið víða til að tala um bókina en laxeldisfyrirtækin hafa ekki haft áhuga á að rökræða málin. Kannski er taktíkin að þegja mig í hel vegna þess að ég hef ekki fengið svör við neinu sem ég gagnrýni laxeldisfyrirtækin fyrir. Mér finnst það vera synd að laxeldisfyrirtækin séu ekki reiðubúin að annað fólk beri einnig taugar til norskra stranda og að það sé hrætt um að laxeldi í opnum sjókvíum geti valdið skaða í umhverfinu. Laxeldisfyrirtækin hafa tilhneigingu til að stimpla alla gagnrýni, hvort sem hún er uppbyggileg eða ekki, sem andstöðu við laxeldið. Að þeirra mati er ég andstæðingur laxeldisins. Þetta mjög svart-hvít sýn og er ekki rétt. Þvert á móti. Ég er ekki andstæðingur laxeldisins. Mér finnst bara að laxeldisfyrirtækin eigi að sýna meiri auðmýkt og að ræði einnig neikvæðar afleiðingar eldisins og að þau viðurkenni að þau gætu þurft að breyta um framleiðsluaðferðir til að stækka meira.“
Víkingur Gunnarsson segir að reka þurfi laxeldið á rekstrarlegum forsendum en ekki út frá byggðasjónarmiðum.
Víkingur Gunnarsson segir að reka þurfi laxeldið á rekstrarlegum forsendum en ekki út frá byggðasjónarmiðum.
Sér samfélagsbreytingar út um gluggann sinn
Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax á Bíldudal, segir að samfélagslegu áhrifin af laxeldinu séu nú þegar orðin talsverð á sunnanverðum Vestfjörðum. 110 starfsmenn vinna hjá Arnarlaxi á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði.
Hann segist ekki þurfa að gera annað en að líta út um gluggann á skrifstofunni sinni. „Á þessum stöðum þar sem er fiskeldi í gangi, bæði í þorpum hér á Íslandi og annars staðar, er fjölgun á barnafólki, það er fjölgun í barnaskólunum og svo framvegis. Á Bíldudal og Patreksfirði er þetta augljóst: Fjölgun íbúa, hærra húsnæðisverð, tekjur sveitarfélagsins hafa aukist. […] Ef ég horfi hérna út um gluggann minn sé ég flutningabíla sem eru í eigu nýs fyrirtækis sem ungur maður stofnaði hérna til að keyra lax úr bænum. Þetta skapar líka afleidd störf því fyrirtæki verða til sem vinna fyrir laxeldisfyrirtækin. Þetta eru bara jákvæð áhrif sem ég get séð út um gluggann: Það er verið að lesta bílana með laxi og svo verður laxinn bara keyrður í burtu í kvöld.“
Víkingur segir að auk þess sé miklu meiri trú á samfélaginu á sunnanverðum Vestfjörðum en fyrir nokkrum árum. „Þetta er svæði sem búið var að afskrifa.“
Aðspurður um hvað honum finnist um byggðarökin fyrir mikilvægi laxeldis segir hann að á endanum þá snúist þetta bara um það hvort laxeldið gangi vel eða ekki, en ekki hvar það sé stundað. „Ég held að við þurfum aðeins að taka umræðuna um laxeldið á vitrænt stig. Það gengur vel að reka þessi fyrirtæki; fjárfestar eru ekki að leggja peninga í laxeldið út af byggðasjónarmiðum og til að hafa atvinnu úti á landi. Þetta skapar störf, þetta skapar fjölbreytt störf og þetta skapar störf sem krefjast alls kyns menntunar. Og svo er eitt í þessu sem er afar skemmtilegt: Þetta skapar bæði karla- og kvennastörf.“
Aðspurður um hvað hann telji raunhæft að hægt sé að framleiða mikið af laxi á Íslandi segist hann ekki telja við hæfi að nefna tölur. „Ég vil ekkert vera að blása það út sem hægt er að gera í laxeldi á Íslandi. Það er fullt af leyfum sem verið er að sækja um en það er ekki víst að það verði allt að veruleika. Hafrannsóknarstofnun á eftir að greina burðarþol fjarða og það þarf að vinna þetta með eftirlitsstofnunum.“
Arnarlax stefnir á 30 til 40 þúsund tonna framleiðslu á eldislaxi, þar með 10 þúsund tonn í Ísafjarðardjúpi sem og framleiðsluaukningu í Arnarfirði og á sunnanverðum Vestfjörðum.
Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra vill taka upp auðlindagjald í laxeldi á Íslandi.
Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra vill taka upp auðlindagjald í laxeldi á Íslandi.
Björt vill taka upp auðlindagjald í laxeldi
„Mín sýn á alla framleiðslu og atvinnuuppbyggingu, hvort sem það er laxeldi eða eitthvað annað, er að starfsemi geti aðeins verið leyfð ef hún stenst kröfur um verndun umhverfis og náttúru,„ segir Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra.
Þannig fer það alveg eftir umgjörðinni sem fiskeldinu er búin og aðstæðum á þeim stað þar sem fyrirhugað er að starfrækja fiskeldi, hvort starfsemin er réttlætanleg eða ekki.
En ég vil taka það fram að kröfurnar um aðbúnað eiga að vera mjög ríkar.
Í dag eru leyfi vegna fiskeldis háð ýmsum skilyrðum sem lúta m.a. að umhverfismálum og þurfa áform um fiskeldi að fara í gegn um mat á umhverfisáhrifum áður en starfsleyfi er gefið út. Á árinu 2014 voru gerðar endurbætur á regluverkinu með breytingum á lögum á fiskeldi sem var meðal annars ætlað að stuðla að auknu öryggi í fiskeldi og draga úr umhverfisáhrifum þess. Með þeim breytingum var sú skylda lögð á rekstraraðila að láta burðarþolsmat fylgja með umsókn um starfsleyfi.
Það er líka ljóst að vegna aukinnar kröfu um burðarþol fjarða, að það eru ekki margir staðir eða firðir hér við land þar sem hægt er að stunda fiskeldi í stórum stíl og þannig setur umhverfið slíku eldi náttúrulegar skorður.
En einmitt vegna þess að laxeldi við Ísland verður alltaf takmarkað á þennan hátt finnst mér mjög eðlilegt að ríkið taki auðlindagjald fyrir þessi takmörkuðu gæði, það er þessa fáu firði sem eru nógu djúpir við Ísland til að bera fiskeldið.“

Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652