„Við bjuggum í pínulítilli íbúð þangað til ég var fimm ára. Þá sváfum við öll í einu horni á stofunni og settum bara tjald á milli. Það var mjög kósí en svo fékk ég mitt eigið herbergi þegar ég var fimm ára,“ segir Júlía Karín Kjartansdóttir, sextán ára gömul menntaskólastúlka.
Er alltaf svona fínt hjá þér?
„Nei, en samt oftast. Mér líður betur ef það er fínt en mér líður samt ekkert illa ef það er drasl. Einu sinni var herbergið mitt alltaf eins og sprengja en það er ekki þannig lengur, ég hef breyst aðeins með það, eiginlega þegar við fluttum í þetta hús,“ segir Júlía en hún fékk þetta nýja herbergi fyrir ári síðan, þá nýkomin heim eftir ársdvöl með foreldrum sínum og tveimur yngri systkynum í Barcelona.
„Pabbi var í mastersnámi þar svo ég tók níunda bekk úti. Það var algjört æði því þar var ég með mitt eigið herbergi með litlum svölum, það var ótrúlega kósí og þá fór ég í fyrsta sinn að gera kósí og setja upp seríur og þannig.“
Hvernig gekk að skipta um skóla og læra á nýju tungumáli?
„Það var frábært, ég var mjög feimin að tala fyrst því mér fannst svo óþægilegt að tala ekki fullkomlega því ég er svo mikill perfeksjónisti, hef alltaf verið það. En samt var þetta líka þægilegt því ég hef alltaf verið svo upptekin af því að fá háar einkunnir en þar pældi ég ekkert í því og slakaði bara á. Svo ég lærði að slaka á og vera aðeins minni perfeksjónisti,“ segir Júlía og hlær.
Júlía byrjaði í MH í haust og elskar skólann. Þau vinirnir hittast oft í herberginu. „Við höngum frekar mikið hér. Og ég hangi líka mikið ein hérna, mér finnst mjög gott að æfa mig á hljómborðið, lesa og skrifa og hlusta á tónlist. Ég er mjög mikið í herberginu mínu því mér finnst gott að vera í friði. Það er svo mikið í gangi alltaf svo þess vegna mjög mikilvægt að hafa sinn eigin griðastað. Svo er gott að geta verið hér í friði þegar foreldrarnir eru pirraðir á mér eða ég á þeim.“
