„Þegar við kynntumst þá vorum við einhleypar blaðakonur með happy hour á heilanum. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar,“ segir fjölmiðlakonan Þorbjörg Marinósdóttir, betur þekkt sem Tobba Marinós, um vinskap sinn og Kristínar Ýrar Gunnarsdóttur, sérfræðings hjá Alþýðusambandinu.
„Við erum reyndar ennþá með happy hour á heilanum, það er bara erfiðara að finna tíma til að koma honum að. Okkur tekst það samt inn á milli,“ bætir Kristín við og hlær. En síðan þær kynntust fyrir tæpum sjö árum, þegar þær unnu saman hjá Birtíngi, Kristín sem blaðakona á Vikunni og Tobba á Séð og heyrt, hafa þær báðar eignast börn og unnusta og önnur þeirra gengið í gegnum skilnað. Kristín eignaðist sitt þriðja barn fyrir rúmum þremur árum og Tobba sitt fyrsta fyrir tveimur og hálfu. Þær hafa því verið ansi samtaka í þessum efnum frá því þær kynntust.
Sambandið þróast mikið
„Okkar samband hefur þróast mjög mikið. Það fór úr því að vera svolítið mikið tengt skemmtanalífi yfir í stuðning við hvor aðra með lítil börn, karlmenn og fjölskyldu. Svo erum við alltaf að reyna að kenna hvor annarri eitthvað. Kristín reynir að kenna mér að slaka á og benda mér á hvað skiptir máli. Hún er búin að vera í mikilli sjálfsvinnu. Ég er hins vegar að reyna að kenna henni að versla, sem dregur aðeins úr sjálfsvinnunni sem hún er búin að vera í,“ segir Tobba og skellir upp úr. „Hún var semsagt pínd í fyrstu verslunarferðina fyrir jól,“ bætir hún við.
Tobba segist stundum fá undarlegar spurningar frá Kristínu, sem hringir gjarnan þegar hana vantar sértækar upplýsingar. „Hún hringir til dæmis í mig þegar hana vantar uppskrift, því hún kann ekki að elda. Hún spyr mig oft um skrýtna hluti, eins og hvað sé í kartöflusalati.“
Kristín viðurkennir þetta hiklaust og skammast sín ekkert fyrir það. „Þá er ég að reyna að slá um mig og þykist ætla að mæta eitthvað með agalega fínt kartöflusalat. En Tobba stingur yfirleitt upp á því að við gerum þetta bara í eldhúsinu hjá henni, því hún treystir mér alls ekki fyrir því sem ég ætla að gera.“

14 ára forskot í barnauppeldi
Tobba segir Kristínu annars vera mjög þægilegan félagsskap og seinþreytt til vandræða. „Hún segir líka góðar sögur. Ég er búin að reyna að kenna henni að elda og versla en ég held hún verið bara að fá að vera eins og hún er,“ segir Tobba og Kristín samsinnir því. Hún hefur þó meiri þekkingu á öðrum sviðum. „Ég hef fjórtán ára forskot á Tobbu í barnauppeldi, þannig ég kem sterk inn þar. Ég segi henni yfirleitt bara að vera aðeins kærulausari,“ segir Kristín.
„Það góða við hana er samt að hún er aldrei að reyna að þröngva neinu upp á mann þó að hún viti betur. Hún kann að bíða þangað til maður spyr hana ráða. Þetta er kannski eitthvað sem hún hefur lært af því að hún á ungling. En ein besta lexía sem hún hefur kennt mér er að nei þýðir nei. Ég á svo erfitt með að segja nei við barnið mitt. Hvað hana sjálfa varðar þá þýðir nei ekkert endilega nei. Þegar hún segir nei þá meinar hún yfirleitt: hvert á ég að mæta og klukkan hvað?“
Kvíðasjúklingur komst ekki í flug
Vinskapur þeirra er margslunginn og snýst ekki bara um að skóla hvor aðra til. Þær hafa prófað ýmislegt saman og gengið í gegnum súrt og sætt. Jafnvel hjólað líka. „Við förum saman í hjólreiðaferðir og göngum Fimmvörðuháls. Við sveiflumst á milli þess að vilja vera sjúklega heilbrigðar og að fá okkur kokteila. Við reynum að sinna hvoru tveggja til að enda ekki í ræsinu,“ segir Tobba kímin.
Þá eru þær duglegar að hvetja hvor aðra áfram og vera til staðar þegar eitthvað bjátar á. „Við höfum oft rætt það að konur þurfi að vera aggressívari í að hvetja hver aðra áfram, hvað varðar laun og svona. Karlmenn gera það óhikað. Þó maður sé kannski ekki alltaf að gaspra um launin sín þá er ekkert sem stoppar mann að ræða þau að einhverju leyti sín á milli. Ef vinkona manns þarf á einhverju „pepptalki“ að halda, ef hún þarf að heyra einhverjar tölur til að hún sé ákveðnari í sínu, þá finnst mér það eðlilegt,“ segir Tobba
„Við erum ótrúlega duglegar að drífa hvor aðra áfram. Það er alveg sama hversu bugaður maður er. Ef maður hittir vinkonurnar aðeins, eða heyrir í þeim, þá fær maður aukinn kraft,“ segir Kristín. „Við í vinahópnum komum líka allar úr mismunandi umhverfi og mætumst með okkar styrkleika. Mér finnst það hafa blandast vel saman,“ bætir hún við.
„Meðvirkni má aldrei taka yfir. Það er ekki hollt fyrir neinn. Kristín er mjög góð í því að koma í veg fyrir slíkt. Hún er svo tilfinningalega vel gefin, með mikla tilfinningagreind, enda er hún búin að vera í mikilli sjálfsvinnu. Það hefur veitt mér innblástur. Hún var mikill kvíðasjúklingur og var þannig að hún keypti sér flugmiða, keyrði út í Leifsstöð en fór ekki í vélina, en nú er hún jaxlinn á andlega sviðinu.“
Kristín fer hálfpartinn hjá sér þegar vinkona hennar lætur þessi orð falla. En hún veit að þetta er satt. Hún hefur þurft að sýna styrk í erfiðum aðstæðum og taka sjálfa sig í gegn.
Litla systir varð bráðkvödd
„Við höfum báðar átt mjög erfitt tilfinningalega síðustu misseri og gengið í gegnum ýmislegt. Þá hefur vinskapurinn verið einn af stærstu bjargráðunum,“ segir Tobba, en litla systir hennar varð bráðkvödd í maí á síðasta ári og það tók mikið á hana. Þá greindist dóttir Kristínar með svokallað Williamsheilkenni þegar hún var rúmlega ársgömul. Báðar hafa þær því gengið í gegnum sorgarferli á síðustu árum, með ólíkum hætti þó.
„Þegar áföll dynja yfir er svo dýrmætt að eiga góða vini. Þegar okkur líður virkilega illa þá sjáum við hverjir það eru sem treystir sér til að tala okkur. Það er meira en að segja það. Ég er sjálf ekkert góð í að vita hvað ég á að segja ef það kemur eitthvað upp á. Til dæmis ef fólk missir ástvin, þá á ég hrikalega erfitt með að tala við fólk. Ég verð vandræðaleg og kjánaleg. Eins og í tilfelli Kristínar. Dóttir hennar fékk þessa greiningu og ég vissi ekkert hvað ég átti að segja. Maður reynir að segja eitthvað en ég held að mesta björgin sé fólgin í því að standa með vinum sínum þó maður segi líklega eitthvað rangt. Maður segir þó allavega eitthvað,“ segir Tobba

Dugleg að segjast elska vinkonurnar
„Mér finnst það hafa tekist vel hjá okkur. Við getum verið hreinskilnar með það hvernig okkur líður. Ég reyni líka stundum að senda Tobbu og fleiri vinkonum mínum skilaboð og segi henni að ég elski hana, eða að hún sé frábær. Alveg upp úr þurru. Stundum þarf maður bara að fá að heyra að maður sé að standa sig vel,“ segir Kristín og heldur áfram: „Stundum er álag á vinum manns og ekki hægt að setjast niður þeim og ræða allt sem bjátar á. En þeir þurfa engu að síður að komast úr erfiðum aðstæðum og það gefur svo mikið að heyra eitthvað fallegt og jákvætt.“
Tobba tekur undir þetta. „Svo höfum við líka hist og ákveðið að tala ekki um börn eða ekki um erfiðleika. Tala frekar um vín, flugferðir eða ókunnuga karlmenn, þar sem Kristín er aftur orðin einhleyp,“ útskýrir Tobba. „Ég er nefnilega sú sem er alltaf að skilja,“ skýtur Kristín inn í og þær skella upp úr.
Þær segja þetta einmitt vera alvöru vinskap. „Það er mjög fallegt að geta fengið slíkt svigrúm. Það hafa ekkert allir þroskann til að gefa svigrúm. Fólk er að spá af hverju maður talar ekki við það og maður finnur að fólk verður stundum svolítið tilætlunarsamt á mann. Mig langar ekkert endilega að setjast niður og ræða læknisheimsóknir dóttur minnar,“ segir Kristín hreinskilin.
„Við erum alltaf til staðar ef það þarf að ræða erfiðu hlutina en það er í boði að sleppa því og það þýðir ekki að erfiðleikarnir hafi ekki haft mikil áhrif á mann,“segir Tobba.
Þær eru sammála um að það hafi haft þroskandi áhrif á vináttuna að vera til staðar hvor fyrir aðra á erfiðum tímum. Tobba grípur orðið: Það hefur þroskað mig mikið að fylgjast með Kristínu og læra af því hvernig hún tekst á við hlutina. Ég dáist svo að henni. Margir hefðu farið ofan í holu og ekki komið upp úr henni. Kristín hefur auðvitað tekist á við kvíða og þekkir svolítið inn á sig. Hún þekkir þær bjargir sem eru í boði. Hún á önnur börn og fjölskyldu og varð að gera það sem þurfti til að standa undir þessu. Mér finnst það svo aðdáunarvert. Og af því hún tókst svo vel á við þetta þá getur hún boðið manni góð og gild ráð.“
Bónorðið kom á óvart
En vinkonurnar sameinast ekki bara í sorg og erfiðleikum. Þær sameinast líka í gleðinni. Kristín var einmitt viðstödd eina af gleðistundum Tobbu í lífinu á dögunum.
En Tobba og unnusti hennar, Baggalúturinn Karl Sigurðsson, trúlofuðu sig skömmu fyrir jól. Hann bað hennar í lok jólatónleika hljómsveitarinnar að viðstöddum öllum vinahópnum, nokkrum ættingum og fullum sal af ókunnugu fólki í Háskólabíói.
„Ég var þarna í salnum og grenjaði mikið. Þetta var svo fallegt. Við vorum þarna allar vinkonurnar en vissum ekki neitt fyrirfram,“ segir Kristín.
„Hann vissi að þær myndu allar koma. Hann sá um að bóka miðana þannig hann lét okkur sitja óþarflega nálægt. Svo sá ég að systir hans var allt í einu mætt,“ segir Tobba sem spáði þó lítið í því fyrir tónleikana. En bónorðið kom henni algjörlega að óvörum.
Aðspurð segir Tobba þau ekki búin að festa stóra daginn, enda á hún eftir að setjast niður með vinahópnum, drekka ríflegt magn af kampavíni og fara yfir málin. „Þetta er ekkert bara á milli mín og hans. Þetta snýst meira um hvernig partí vinkonurnar hafa séð fyrir sér. Þetta verður óhefðbundið allavega,“ segir hún, en meira verður ekki gefið upp að sinni.
