Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Fréttatíminn óskar stuðnings við frjálsa og óháða blaðamennsku

$
0
0

„Hefðbundnir fjölmiðlar um allan heim standa frammi fyrir þeirri staðreynd að viðskiptamódel þeirra er brostið,“ segir Gunnar Smári Egilsson, útgefandi Fréttatímans. „Eftir niðurskurð kostnaðar á undanförnum árum hafa þeir miðlar sem vilja stunda almannaþjónustu því margir gripið til þess ráðs að leita til almennings um stuðning til að stunda áfram frjálsa og óháða blaðamennsku, nú síðast The Guardian í Bretlandi. Við viljum freista þess að fara þessa sömu leið.“

Óháð blaðamennska mikilvæg

Gunnar Smári segir að núverandi útgefendur Fréttatímans hafi þreifað fyrir sér um útgáfuform það ár sem liðið er frá því að þeir komu að verkefninu: „Við efldum vefsvæðið og fjölguðum útgáfudögum, bættum við laugardagsblaði í maí á síðasta ári og gáfum út blað á fimmtudögum tímabundið fyrir jól. Við sjáum að auglýsingamarkaðurinn stendur undir útgáfu í þetta stóru upplagi sem dreift er til rúmlega 75 þúsund heimila, en ekki undir öflugri ritstjórn. Við getum því haldið áfram að dreifa auglýsingum innan um sæmilegt efni eða leitað til almenning um stuðning til að nýta slagkraft mikillar útbreiðslu til stunda öfluga blaðamennsku sem hefði víðtæk áhrif á samfélagið.“

Gunnar Smári bendir á að sú tegund blaðamennsku, sem flestir telja mikilvæga fyrir virkt lýðræðislegt samfélag, hafi byggst upp af efnahags- og tæknilegum ástæðum. Vegna fákeppni og/eða einokunar á dreifileiðum hafi byggst upp í fjölmiðlafyrirtækjum í einkaeigu fjárhagslegur styrkur til að halda uppi almannaþjónustu. Með stafrænni dreifingu og Internetinu hafi tæknilegar forsendur þessa brostið og afleiðingar þess hafi orðið sú að efnahagslegar stoðir hinna hefðbundnu miðla hafi brostið.

Markmið að bæta samfélagið

„Þegar fólk dáist að blaðamönnum The Boston Globe í bíómyndinni Spotlight er vert að hafa í huga að þegar sagan gerðist voru starfsmenn blaðsins meira en helmingi fleiri en í dag. Efnahagslegar forsendur fyrir þessari tegund blaðamennsku eru í raun brostnar. Ef við viljum viðhalda henni verðum við að gera eitthvað nýtt,“ segir Gunnar Smári.

Hann segir að samfélagið hafi í stórum dráttum um tvo kosti að velja. „Annað hvort látum við sérhagsmunina éta upp gömlu fjölmiðlana og nota þá til að verja stöðu sína í samfélaginu. Eða við finnum leið fyrir almenning til að styrkja óháða og frjálsa blaðamennsku sem gætir að almannahagsmunum.“

Gunnar Smári segir að í sjálfu sér sé engin ástæða til að gráta lengi yfir hrörnun þess viðskiptamódels sem var að baki sterkra fjölmiðla á seinni hluta síðustu aldar. Hann segir að þetta tímabil sé einfaldlega liðið. „Það má segja að við séum aftur komin á upphafsreit, til þess tíma á nítjándu öldinni að blöð spruttu upp af vilja fólks til að bæta samfélagið. Við viljum nýta útbreiðslu Fréttatímans og slagkraft, sem auglýsingamarkaðurinn skaffar, til að byggja upp öflugan fjölmiðil í almannaþjónustu. Markmiðið er að bæta samfélagið, það er ekkert launungarmál. Samfélag þar sem allir sterkir fjölmiðlar fyrir utan Ríkisútvarpið eru í eigu sérhagsmunaaðila mun halda áfram að ganga á almannahagsmuni.“

Einn kaffibolli á mánuði

Þeir sem áhuga hafa á að styðja Fréttatímann geta farið inn á vef Frjálsrar fjölmiðlunar, frjalsfjolmidlun.is, og gerst stofnfélagar í Frjálsri fjölmiðlun, félagi sem ætlað er að efla frjálsa og óháða blaðamennsku á Íslandi, í fyrstu með því að efla Fréttatímann.

Fólki getur bæði greitt andvirði eins kaffibolla á mánuði til stuðnings Fréttatímanum og tryggt þar með áframhaldandi útbreiðslu hans og áherslur á óháða blaðamennsku, eða valið aðrar upphæðir eða fyrirkomulag. Stefnt er að því að halda stofnfund félagsins eftir fáeinar vikur.

„Á sama tíma munum við styrkja bakland útgáfufélagsins og tryggja með því áframhaldandi útgáfu,“ segir Gunnar Smári. „Framlög almennings fara ekki til venjulegs rekstrar Fréttatímans heldur aðeins til að styrkja ritstjórnina.“

Að undanförnu hefur lestur Fréttatímans vaxið og kannanir sýna að traust á blaðinu hefur vaxið.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652