Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Kynnir sér fæðu guðanna í Gvatemala

$
0
0

Kamilla er stödd við Atitlan-vatnið í Gvatemala. Eldfjöll umlykja flennistórt vatnið sem Maya-indíánar trúðu að væri heilagt hlið dauðlegra manna til guðanna. Í hundruð ára hefur staðurinn laðað til sín fólk og í hlíðum eldfjallanna hefur fjölbreyttur hópur aðkomufólks komið sér fyrir í þorpunum meðal innfæddra innan um banana- avókadó- og kakótré. Í San Marcos, einu af stærri þorpunum, er hægt að finna næstum allt sem leitandi hugur girnist og segir Kamilla stemninguna vera afslappaða og hippalega, þarna séu allskonar skrítnar og skemmtilegar skrúfur og nóg um að vera fyrir fólk með opinn huga í leit að ævintýrum.

GettyImages-599373396

Eitt af því sem hægt er að nálgast á þessum stað eru kakó-athafnir en kakó hefur alltaf verið talin fæða guðanna í menningu Maya-indíána. Alla þeirra tíð hafa baunir kókóávaxtarins hafa verið þurrkaðar, ristaðar og geymdar til að brugga heitt súkkulaði, eða kakó. Kakó Mayanna á ekki mikið skylt við það kakó sem flestir þekkja í dag, enda blandað úr óunnu kakói og hvorki blandað með mjólk né sykri heldur við vatn og stundum aðrar jurtir. En kakóið er ekki bara fæða í menningu Mayanna heldur magnaður seiður sem á að hjálpa mönnum að tengjast sjálfum sér og jafnvel einhverju fleira. Á þessum slóðum hefur kakóið alltaf verið notað við trúarlegar athafnir og hverskyns hátíðlegar athafnir og er það ennþá svo í dag.

Kakótréð, Theobroma cacao, er heilagt í menningu Maya-indíána. Ávöxtur þess gefur af sér kakóbaunina sem er talin vera fæða guðanna, eins og nafnið gefur til kynna; í grísku þýðir „theo“ guð, og „broma“ matur.
Kakótréð, Theobroma cacao, er heilagt í menningu Maya-indíána. Ávöxtur þess gefur af sér kakóbaunina sem er talin vera fæða guðanna, eins og nafnið gefur til kynna; í grísku þýðir „theo“ guð, og „broma“ matur.

Upphaf áhuga síns á kakói segir Kamilla mega rekja til algjörrar kulnunar í starfi sem fékk hana til að endurskilgreina sjálfa sig. Eftir að hafa sett vinnuna í fyrsta sæti í mörg ár ákvað hún að tími væri kominn til að líta inn á við. „Í dag spyr ég mig alltaf einnar spurningar áður en ég geri nokkurn skapaðan hlut í lífinu; veitir þetta mér gleði? Ef svarið er nei, þá sleppi ég því,“ segir Kamilla og skellihlær í símtólið. Hún hefur komið sér vel fyrir á veröndinni við kofann þar sem hún býr, með útsýni yfir Aititlan-vatnið, að sjálfsögðu með kakóbolla í hendi.

31856 c

„Fyrr á öldum var kakóbaunin notuð sem gjaldmiðill og hér er borin ótrúleg virðing fyrir kakói, súkkulaði og öllu sem tengist henni,“ segir Kamilla. „Þetta kakó sem ég drekk og sem við notum í athöfnunum er auðvitað ekki á sömu plánetu og Nesquick, þetta er tvennt algjörlega ólíkt.“
Kamilla bruggar sitt eigið kakó á hverjum degi, sem hún segir vera einstakt. Bragðið af kakóinu sé rammara en við eigum að venjast því hún noti engan sykur en stundum blandi hún engifer saman við. Í kakóathöfnum er chili oft blandað saman við því það á að magna áhrif kakóbaunarinnar upp. Kamilla segir áhrifin af blöndunni vera örvandi en samt ekki minna neitt á kaffi, og á sama tíma verði einbeitingin miklu sterkari. Hún hafi til að mynda náð að hugleiða hátt í þrjá tíma eftir einn kakóbolla.
„Þegar blaut kakóbaunin er möluð verður hún dálítið eins og súkkulaðimauk sem er svo sett í poka og vakúmpakkað þar sem það harðnar og verður eins og klumpur. Svo sker maður lítinn bita af klumpnum og bræðir hann saman við soðið vatn. Þetta er algjör súperfæða, stútfull af magnesíum sem er vöðvaslakandi, en á sama tíma veldur efnið theobromin því að hjartslátturinn eykst og blóðflæði til heilans, þess vegna nota margir þetta við skapandi störf. Svo er líka anandamide í kakói sem er efnið sem heilinn framleiðir þegar við erum glöð. Þannig að það er mjög falleg tenging á milli kakósins og hjartans og vellíðunar. Ekki nóg með að kakóið opni hjartað og sé örvandi þá hreinsar það líka kransæðarnar við hjartað og lækkar blóðþrýsting. Það er auðvitað til fullt af rannsóknum sem sýna hvað súkkulaði er gott fyrir heilsuna, sérstaklega hjartað.“

Orðið yfir fæðu guðanna, „kakawa“ eða cacao, kemur fyrst fyrir í ritmáli á landsvæði Mayanna í Mið-Ameríku, í Mexíkó og Gvatemala, um 1000 fyrir Krist. Orðið „chocolate“ er samsett úr mexíkósku indíánamáli; „choco“ þýðir froða, og „atl“ þýðir vatn, en í upphafi var súkkulaðis aðeins neytt í drykkjarformi.
Orðið yfir fæðu guðanna, „kakawa“ eða cacao, kemur fyrst fyrir í ritmáli á landsvæði Mayanna í Mið-Ameríku, í Mexíkó og Gvatemala, um 1000 fyrir Krist. Orðið „chocolate“ er samsett úr mexíkósku indíánamáli; „choco“ þýðir froða, og „atl“ þýðir vatn, en í upphafi var súkkulaðis aðeins neytt í drykkjarformi.

 

Kamilla fór í sína fyrstu kakóathöfn í Reykjavík síðastliðið vor og heillaðist upp úr skónum. Hún ákvað að elta baunina uppi, fara til heimkynna hennar og kynnast hennar ævafornu menningu og manninum sem vinnur við að breiða hana út, bandaríska grasalækninum Keith Wilson, betur þekktur sem súkkulaði-shamaninn. Keith þessi er eins og hálfgerð rokkstjarna í San Marcos. Áður en hann ákvað að setjast þar að fyrir fimmtán árum bjó hann í Pennsilvaníu og vann við grasalækningar. Hann ferðaðist mikið vegna áhuga síns á plöntum og áhrifum þeirra og eitt þessara ferðalaga leiddi hann að Atitilan-vatni. Þar kynntist hann ævafornum kakóathöfnum og ákvað að setjast þar að og tileinka líf sitt því að kynnast betur heilandi áhrifum kakóbaunarinnar. Í dag vita flestir við vatnið hver hann er og hvar húsið hans er, þar sem hann og konan hans, Barbara, halda súkkulaðiathafnir þegar þau eru ekki að ferðast um heiminn og breiða út boðskap kakóbaunarinnar.

 „Þegar þú tekur þátt í kakóathöfn fær heilinn ákveðið „rush“ vegna aukins blóðþrýstings sem veldur því að einstaklingurinn getur haldið margvíðum fókus í allt að 4-5 klukkustundir. Einbeitingin verður svo sterk að einstaklingur finnur ekki fyrir andlegri þreytu og það verður auðveldara að hugleiða. Drekktu súkkulaði, farðu hátt og kafaðu djúpt. Ég kalla kakó lyf, líkt og allar aðrar lækningarjurtir.“ Af vefsíðu Kieth Wilon.

„Þegar þú tekur þátt í kakóathöfn fær heilinn ákveðið „rush“ vegna aukins blóðþrýstings sem veldur því að einstaklingurinn getur haldið margvíðum fókus í allt að 4-5 klukkustundir. Einbeitingin verður svo sterk að einstaklingur finnur ekki fyrir andlegri þreytu og það verður auðveldara að hugleiða. Drekktu súkkulaði, farðu hátt og kafaðu djúpt. Ég kalla kakó lyf, líkt og allar aðrar lækningarjurtir.“ Af vefsíðu Keith Wilson.

„Keith er ástæðan fyrir því að ég kom hingað fyrst. Hann er ein af fjöldamörgum skrítnum skrúfum í þessum gullfallega bæ sem ég er búin að læra svo margt af. Ég kynntist kakóinu fyrst í athöfnum hjá Júlíu Óttarsdóttur sem er algjörlega frábær en mig langaði til að læra að búa til mínar eigin athafnir, því engar athafnir eru eins. Athafnirnar snúast að miklu leyti um að tengjast sjálfum okkur á ný. Kakóið hjálpar okkur að fara inn á við og tengja saman hug og hjarta, komast aftur að innsæinu. Það eru svo margir á yfirsnúningi í dag og ég hef líka verið þar sjálf,“ segir Kamilla sem hafði unnið sleitulaust í 10 ár þegar hún missti skyndilega alla orku. „Ég fór í nám í Kaospilot-skólanum í Danmörku, í skapandi verkefnastjórnun og verkefnahönnun með áherslu á samfélagslega ábyrgð. Eftir námið vann ég við tónlistarbransann í 10 ár, fyrst við að markaðssetja íslenska tónlist á erlendri grundu og svo sem kynningarstjóri Iceland Airwaves hátíðarinnar og svo vann ég fyrir Of Monsters and Men og túraði með þeim um allan heiminn. Í öll þessi ár setti ég alltaf vinnuna í fyrsta sæti því ég er þannig gerð að ég er rosalega dugleg og vinn vanalega á við nokkrar manneskjur. Þetta endaði með því að ég lenti í algjöru „burnouti.“

 

„Margir fljóta í gegnum lífið án þess að hlusta á draumana sína og leyfa þeim að rætast, eða eru ósáttir við hlutskipti sitt í lífinu og gera ekkert til að breyta því. En ég trúi því að það sé hægt að breyta þessu og ég trúi því að kakóið geti hjálpað til við það,“ segir Kamilla sem ákvað eftir vikulanga dvöl við Atitlan-vatnið að hún yrði að fara aftur og vera í langan tíma. Frá því í desember hefur hún stundað kakó-athafnir og farið í einkatíma til Kieth auk þess að undirbúa sig undir jógakennarapróf. Hún segist vera að finna sínar eigin leiðir með kakóinu. „Það gerast magnaðir hlutir í þessum athöfnum og ég hef séð fólk leita langt inn á við og taka miklum breytingum. Allar athafnir eru ólíkar og fara eftir því hver stjórnar þeim. Andleg málefni eru auðvitað ekki fyrir alla en það sem er fyrir alla er að losa um streitu og líta aðeins inn á við. Við erum öll að glíma við allskonar hlutverk á lífsleiðinni og sumt viljum við losna við á meðan annað viljum við styrkja, fyrir mér er kakóið ákveðinn farvegur til þess. Hluti af því sem ég lærði í mínu námi í Danmörku var „coaching“, að leiðbeina fólki, og nú finnst mér spennandi að blanda kakóinu inn í það, án þess að gera það á einhvern andlegan hátt. Ég er frekar mikið „no bullshit“ kona, raunsæ og jarðbundinn en ég leyfi mér samt líka að vera með opinn huga og fljúga hátt,“ segir Kamilla sem stefnir á að vera með sérstakar kakóathafnir fyrir konur í framtíðinni. „Tónlist er stór hluti af mínu lífi svo ég á eftir að nota mikið tónlist. Fyrst og fremst á þetta að vera gefandi og skemmtilegt.“

Kamilla í jógastöðu á veröndinni við Atitla vatn.
Kamilla í jógastöðu á veröndinni við Atitla vatn.

„Í dag er planið að vinna til að geta lifað en ekki að lifa til að geta unnið. Og það er einmitt það sem ég er að gera núna,“ segir Kamilla sem á erfitt með að yfirgefa fallega þorpið í hlíðum eldfjallsins þar sem dagurinn byrjar á drykk guðanna með útsýni yfir heilagt vatnið. Hún hefur nú þegar framlengt ferðina um heilan mánuð. „Foreldrar mínir eru algjörir hippar og voru grænmetisætur löngu áður en þau áttu mig. Ég hef alltaf verið mjög heilbrigð og með mikið jafnvægi í lífinu en ég týndi því þegar allt fór að snúast um vinnuna. Eftir að ég jafnaði mig hefur hamingja og heilsa verið númer eitt, tvö og þrjú í mínu lífi og þessi staður er kjörinn til að rækta það. Ég er búin að læra svo mikið á því að vera hér, bæði af fólkinu sem ég hef kynnst, en líka af menningunni sem er svo nægjusöm. Þetta er auðvitað langt frá íslenska lífsstílnum, þar sem allt snýst dálítið mikið um að eignast hluti. Ég held áfram að framlengja ferðina þó ég hafi ekki mikið af fötum og bara kalt vatn til að þvo og vaska upp,“ segir Kamilla og í því heyrist hanagal í símtólið. Eru líka hanar í kofanum? „Já,“ segir Kamilla og skellihlær. „Það er nú annað sem ég er búin að læra, að hanar gala ekki bara á morgnana heldur allan liðlangan daginn! Alltaf lærir maður eitthvað nýtt.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652