Hrútskýringar (e. mansplaining) er hugtak sem hefur verið mikið í umræðunni hér á Íslandi og víðar. Það lýsir því hvernig karlar reyna að útskýra heiminn fyrir konum og segja þeim hvernig veröldin snýst.
Á vinnumarkaði í Svíþjóð þekkist þetta fyrirbæri vel, svo vel að nú hefur Unionen, stærsta stéttarfélag Svíþjóðar, sett upp sérstaka vinalínu vegna þessa samfélagsmeins. Opið hefur verið fyrir símann í þessari viku og símtölin eru þegar orðin á þriðja hundrað.
Þjónustan er tímabundin en þar er hægt að ræða við ráðgjafa um það þegar einhver þykist vita allt miklu betur en þú og ætlar að útskýra fyrir manni heiminn með niðrandi hætti. Allir þeir sem upplifa að hafa orðið fyrir þöggunartækni, aðferðum sem einn hópur notar til að sýna vald sitt yfir öðrum, geta hringt inn.
Samkvæmt talsmanni stéttarfélagsins, Jennie Zetterström sem vefmiðillinn Quartz ræddi við, er hægt að bera kennsl á hrútskýranda þegar gripið er fram í fyrir þér, það sem þú sagðir er endurtekið og hlutirnir útskýrðir í löngu máli og flóknu, án þess að þú hafir spurt viðkomandi álits.
Sérfræðingarnir tuttugu sem svara í símann í Svíþjóð koma úr ýmsum áttum. Þar á meðal eru rannsakendur og háskólafólk, íþróttamenn, grínistar, skopmyndateiknarar, rithöfundar og markþjálfar.
Verkefnið hefur vakið nokkra umræðu og athygli í Svíþjóð. Sitt sýnist hverjum, en til þess er leikurinn líka gerður. Umræðan um kynhlutverk á vinnustöðum og samskipti kynjanna er það sem öllu máli skiptir.