„Um leið og við fluttum þá fóru spurningarnar að hrúgast inn. Hvernig það væri eiginlega að búa í Hveragerði og hvort þetta væri ekki erfitt og fleira í þeim dúr. Þetta hljómaði eiginlega eins og við værum flutt til útlanda, en ekki í hálftíma í burtu frá Reykjavík, yfir eina heiði,“ segir plötusnúðurinn, samfélagsmiðlagúrúinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Atli Viðar Þorsteinssson sem flutti til Hveragerðis ásamt konunni sinni Kristjönu Björk, fyrir fimm mánuðum. Flutningarnir komu vinum og vandamönnum mikið á óvart og mega þau svara spurningum um hagi sína í tíma og ótíma. Spurningaflóðið var orðið það mikið að Atli sá sig knúinn til að birta svör við helstu spurningunum á facebook-síðunni sinni. En svörin er hægt að sjá hér neðar á síðunni.
Atli og Kristjana höfðu verið að leigja litla íbúð í Hlíðunum af vinum sínum og var leigan því mjög hagstæð. Þegar íbúðin var svo seld enduðu þau á almennum leigumarkaði. „Við ætluðum aldrei að flytja í Hveragerði, en okkur bauðst að kaupa þar parhús og þegar við áttuðum okkur á því hve sturlað leiguverðið er í bænum þá ákváðum við að láta slag standa.“
Pabbi Atla býr í húsinu við hliðina á, en þau keyptu sitt hús af konunni hans. „Þeirra samskipti eru þannig að eina leiðin til að þau geti verið saman er að búa í sitthvoru húsinu. Á tímabili var hún með þvottavélina og hann með kaffivélina. En hún er slæm í hnjánum og varð að flytja í hús á einni hæð. Við græddum á því. Húsið er, eins og svo margt í Hveragerði, pínulítið fyrir utan normið. Það hentar okkur því rosalega vel.“
Atli segir það vissulega hafa vaxið þeim í augum að flytja til Hveragerðis, en þau sjá ekki eftir því í dag. „Eftir að hafa búið í Hveragerði í fimm mánuði þá erum við ekkert að fara að flytja aftur til Reykjavíkur. Það tekur okkur hálftíma að keyra til Reykjavíkur og við gerum það fimm daga í viku, enda vinnum við bæði í Reykjavík. Við höfum í raun alla kosti Reykjavíkur án þess að borga sturlað hátt leiguverð og sleppum við leiðindaumferð í miðbænum.“
Þá upplifa þau hjónin samfélagið í Hveragerði mun manneskjulegra en í Reykjavík. „Um jólin þá fengum við til dæmis kort inn um bréfalúguna okkar. Á því var mynd af hjarta og undir stóð: Kveðja GÍH. Við héldum að þetta væri ástarbréf sem hefði lent á vitlausum stað, en í ljós kom að þetta var frá Grunnskólanum í Hveragerði, en nemendur bera út knúskveðju í hvert einasta hús um jólin. Það er æðislegt.“
Og þótt allir vinirnir séu í Reykjavík þá kemur það ekki að sök, enda gestagangurinn í blómabænum mikill. „Á þeim fimm mánuðum sem við höfum búið í Hveragerði hafa fleiri komið og heimsótt okkur, kíkt í bröns og kaffi, heldur en á þeim tveimur árum sem við bjuggum í Hlíðunum. Þetta virðist vera miklu meira í leiðinni fyrir fólk. Þetta er orðið þannig að við erum alltaf heima á sunnudögum með kaffi ef einhver skyldi kíkja við.“
Svör við algengum spurningum um flutninga til Hveragerðis:
Já við fluttum til Hveragerðis í september á seinasta ári.
Já okkur líður vel þar.
Nei þetta er ekki langt að fara. Maður er 35 mínútur að keyra frá Hveragerði til Reykjavíkur.
Við höfum tvisvar verið veðurteppt í RVK, þá gistum við hjá mömmu.
Við keyrum til Reykjavíkur ca 5 daga af 7 í vikunni.
Nei við söknum ekki Reykjavíkur.
Ef okkur langar að djamma þá skiptumst við á, eða gistum í bænum.
Já það er bar í Hveragerði.
Öll þjónusta er á Selfossi. Það er 10 mínútna akstur til Selfosss.
Já húsið okkar er að fyllast af blómum.
Nei við erum ekki með heitan pott.
Þeir sem vilja fylgjast með lífinu í Hveragerði geta kíkt á snapchat Atla – jjlambertsen.