Ólöf Elíasdóttir segist alltaf hafa verið á skjön við alla vini sína. Hún byrjaði fjórtán ára gömul með fyrrverandi manni sínum, var orðin þriggja barna móðir tuttugu og tveggja ára og amma rúmlega þrítug. Á meðan hún var að halda heimili og stofna fyrirtæki voru vinirnir ennþá í skóla og á djamminu. „Það var alltaf brjálað að gera í lífinu hjá okkur og ég ætlaði bara að vera alltaf með þessum manni. Alltaf,“ segir Ólöf. En skyndilega breyttist allt og allt í fyrsta sinn horfði hún á framtíðina og sá sig þar eina.
Ætlaði ekki að verða bitur
„Þetta er í raun eins og sorgarferli. Það myndast einhver hola innra með manni, einhver tómleiki sem maður verður að takast á við. Ef að maki þinn deyr þá er tekið utan um þig og það er hægt að leita á ýmsa staði en það er ekki þannig þegar þú skilur,“ segir Ólöf en í dag eru tvö ár síðan hún skildi.
„Ég ákvað mjög meðvitað að fylla þetta tóm innra með mér með einhverju góðu en ekki einhverju drasli. Ég ákvað strax að leita til sálfræðings því ég vissi að ég gæti ekki gengið í gegnum þetta hjálparlaust, og það hjálpaði mikið. Ég horfði á sjálfa mig einhversstaðar í gólfinu, mölbrotna, og velti fyrir mér hvernig í ósköpunum ég ætti púsla mér saman. Ég vissi að ég vildi ekki vera súra og bitra konan, og ég vissi líka að ég vildi ekki fara í netaskokkabuxum á barinn,“ segir Ólöf og skellihlær. „Ég ætlaði að komast frá þessum stormi heil.“

Hefur ekki áhuga á Tinder
Ólöf segir fólk ósjálfrátt gera ráð fyrir því að hún vilji finna nýjan maka. En hún segir nauðsynlegt að læra að vera einn með sjálfum sér í stað þess að finna sér „hækju“ til að styðja sig við.
„Ég þoli ekki þegar fólk vorkennir mér yfir því að vera ekki að deita. Ég hef engan áhuga á því að vera á deitmarkaðinum. Það er engin örvænting fólgin í því að vera ein. Ég er einhleyp, miðaldra og sjálfstæð og er búin að læra svo margt nýtt því ég var bara barn þegar ég fór í samband. Lausnin við vanlíðaninni felst alls ekki í því að leita sér að nýjum maka, og finnast maður þannig vera einhvers virði. Hún felst í því að læra að vera með sjálfum sér. Það er dáldið eins og ég hafi verið ein á svelli og ekki kunnað að skauta. En ég ákvað að læra að skauta sjálf, ein og óstudd, ná jafnvæginu án þess að hafa einhverja hækju. Eftir að ég tók þá ákvörðun hef ég ekkert verið að velta samböndum fyrir mér. Það kemur þegar ég er algjörlega fullfær á svellinu, þá hitti ég hinn eina rétta. Ég er ekki á Tinder og hef ekki farið á eitt einasta deit. Ekki það að mér sé ekki boðið út,“ segir Ólöf og hlær. „Ég vissi bara að ég þyrfti að læra að vera ein með sjálfri mér.“
Nauðsynlegt að rækta vinina
Eitt af því sem Ólöf ákvað að passa upp á í sorgarferlinu var að einangra sig ekki félagslega og að hafa samband við vini þó oft hafi hana ekkert langað til þess.
„Maður verður að hafa vit fyrir sjálfum sér. Að vera einn heima er allt í lagi ef þú ert að fara inn á við og vilt vera einn. Stundum má manni líka líða ógeðslega illa og maður á ekkert að skammast sín fyrir það, stundum er það bara þannig. Það má liggja heima og grenja í einhvern tíma en þegar þú ert búin að gera það í smá tíma þá þarftu að standa upp og snúa þér að öðru. Það koma tímar sem ég nenni alls ekki úr húsi, en þá geri ég meðvitað eitthvað í því. Ég á tvo hunda og kisu svo á ég 5 dásamleg barnabörn og krakkana mína. En þegar ég er búinn að sitja fjögur kvöld í viku uppí sófa og horfa á maraþon þætti, þá hringja einhverjar bjöllur og ég geri eitthvað í því. Ég er heppin að eiga vítt svið að félögum og vinum sem ég fer með á tónleika, bíó og hitt og þetta og ég er mjög oft þriðja hjólið, fimmta hjólið og sjöunda hjólið. Við komum oftast í settum en ég er ekkert feimin við að bjóða sjálfri mér með vinkonu og eiginmanni út að borða eða jafnvel erlendis,“ segir Ólöf.
Sótti styrk til ömmu
Hún segir að þrátt fyrir allt, allan sársaukann, hafi það líka verið spennandi að standa allt í einu frammi fyrir því verkefni að vera ein.
„Stærsti sigurinn í þessu lífi er að læra á sjálfan sig og vera við stjórnvölin í eigin lífi. Í dag líður mér eins og ég hafi fæðst á ný. Ég fór ein til Bali um daginn og það var dálítið eins og punkturinn yfir i-ið í þessu ferli. Ég ákvað að fara ein því ég er alltaf að hugsa um að styrkja sjálfa mig og læra að vera ein. En ég er líka meðvituð um að ég er algjör forréttindamanneskja. Einn tími hjá sálfræðingi kostar sextán þúsund og það hafa ekki allir efni á því. Og það geta ekki allir farið einir í sjálfsskoðun til Balí. Ég hefði heldur aldrei komist í gegnum þetta án þess að hafa húmor og geta hlegið að sjálfri mér.“
„Ég er búin að gera allskonar hluti til að styrkja mig en skilnaðurinn og allt ferlið í kringum hann var það erfiðasta og hræðilegasta sem ég hef gengið í gegnum. En það er líka eitthvað spennandi við að reyna að fylla þessa holu sem myndast innra með manni af einhverju góðu. Ég ákvað að líta á það sem áskorun og þakka fyrir það í dag. Það eru jú erfiðleikarnir sem kenna okkur og þroska okkur meira en annað, við færumst nær samkennd við hvert áfall, ” segir Ólöf en ein af hennar helstu fyrirmyndum í lífinu var henni líka mikill styrkur í öllu ferlinu. „Ég gleymi því aldrei þegar amma mín sagði mér að hún væri að deyja og að það myndi taka einhvern tíma en að henni þætti það mjög spennandi. Ég sótti styrk í hennar viðhorf og finnst mér eins og ég hafi lært að ganga upp á nýtt. Það felast tækifæri í breytingum og ég hlakka til að takast á við næsta kafla í lífinu.”
