„Það tók auðvitað smá tíma að átta sig á þessu en maður var fljótur að ná sér niður. Lífið heldur áfram,“ segir Viktor Örn Andrésson matreiðslumaður sem hlaut bronsverðlaun í hinni virtu keppni Bocuse d’Or í lok janúar.
Árangur Viktors vakti að vonum mikla athygli enda ekki á hverjum degi sem Íslendingur kemst á verðlaunapall í keppninni. Raunar þarf að fara 16 ár aftur í tímann til að finna viðlíka árangur. Þeir sem fylgjast með í veitingaheiminum á Íslandi vita vel að Viktor er hæfileikaríkur og hefur hann margoft hlotið verðlaun fyrir störf sín, var meðal annars matreiðslumaður ársins 2013 og matreiðslumaður Norðurlandanna 2014.

Var boðið til Víetnam
Viktor kveðst hafa tekið sér smá tíma til að ná áttum eftir keppnina en hefur síðan tekið að sér smá verkefni, „hingað og þangað“ eins og hann orðar það.
Á miðvikudaginn sneri hann heim úr þriggja vikna reisu þar sem hann heimsótti Bandaríkin og Víetnam. Í Víetnam fór hann á matreiðsluhátíð en það bauðst eftir frábæran árangur á keppninni í Frakklandi.
„Svo verð ég frílans fram á sumarið en þá fer ég að kokka í veiðihúsi. Ég ætla að ferðast meira og verð gestakokkur úti. Til að mynda í Chicago í næsta mánuði en þá mun ég kynna íslenskan fisk og lambakjöt.“

Flókin eldamennska
Fyrsta stopp er þó á Grillinu á Hótel Sögu á laugardagskvöld en þar mun Viktor elda á sérstöku Bocuse d’Or kvöldi. Viktor og Siggi Helga, Bocuse d’Or fari árið 2015 og þjálfari Viktors í keppninni 2017, hafa útbúið sérstakan matseðil úr hráefnum sem þeir unnu með í keppninni á sínum tíma. Matseðillinn verður einungis framreiddur þetta eina kvöld.
Er ekki löngu orðið uppselt?
„Jú, ég held að það séu hundrað manns bókaðir. Það er meira en við bjuggumst við. Við ráðum reyndar ekki við meira í einu, þetta er ótrúlega flókinn matur,“ segir Viktor sem telur að gestir verði ekki sviknir af matseldinni. „Þetta verður alveg dúndur menjú.“
Mörg spennandi verkefni framundan
En aftur að framtíðinni. Hvað gerir maður eftir að hafa náð þriðja sæti í Bocuse d’Or?
„Nú er ég bara að hugsa um að vera skynsamur og velja skemmtileg verkefni. Ég hugsa bara um sjálfan mig og nýt þess að fá verkefni sem ég hefði annars ekki fengið. Eins og þetta í Víetnam. Það er allt í lagi að bíða aðeins og sjá hvaða dyr opnast. Það er margt spennandi í boði og maður er að skoða margt.“
Matseðillinn
00 Villisveppa hraun. Reyktur þorskur & sýrð agúrka. Ísbúa flögur.
01 Sjóurriði, ostrur, laukar & dill vinaigrette – 2015
02 Andalifur, grísaskankar, seljurót & blaðlaukur – 2014
03 Bocuse bronze „vegan“, Jarðskokkar, rauðrófur, epli & lauk gljái – 2017
04 Bocuse bronze „Bresse kjúklingur & humar“ Bresse kjúklingaleggir, andalifrar- og jarðsveppa kúla, gulbeður, kartöflur, kjúklinga- og humargljái – 2017
05 Skyr, aðalbláber & kryddjurtir
