Börnin á leikskólunum Bæjarbóli í Garðabæ og Læk í Kópavogi eru alveg sammála um að það er ljótt að skilja útundan og að góður vinur sýnir umhyggju og virðingu í leik. Leikskólarnir eru báðir svokallaðir Vináttuleikskólar og vinna með Vináttu, forvarnvarverkefni gegn einelti í leikskólum frá Barnaheillum. Blaðamaður fékk að heimsækja báða leikskólana og fylgjast með tveimur hópum í Vináttustund. Starfsmenn leikskólanna segja að samskipti barnanna hafi tekið miklum og jákvæðum breytingum eftir að farið var að vinna með verkefnið og þeir leikskólastarfsmenn og sérfræðingar sem blaðamaður ræddi við eru sammála um að markvisst forvarnarstarf gegn einelti skipti miklu máli á þessum aldri. Nánari upplýsingar um Vináttu er að finna hér neðar á síðunni.
„Fátt er börnum og foreldrum þeirra mikilvægara en að börnunum líði vel í skólanum, eigi góða félaga og vini, hafi sjálfstraust og góða sjálfsmynd. „Þú mátt ekki vera með í leiknum“ eða „ég vil ekki leiða þig“, eru orð lítilla leikskólabarna í íslenskum leikskólum, barna sem eru að fóta sig í flóknum heimi og læra samskipti við jafnaldra sína. Svona samskipti virðast sakleysisleg, en ef þau eru endurtekin gagnvart sama barninu án þess að hinir fullorðnu grípi inn í, geta þau þróast í einelti eða útilokun, sem jafnvel getur varað árum saman. Mikilvægt er að byrgja brunninn og það er á ábygð hinna fullorðnu að gera það,“ segir Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri Vináttu hjá Barnaheillum. Verkefnið er byggt á nýjustu rannsóknum um einelti, ákveðinni hugmyndafræði og gildum. Það er danskt að uppruna og nefnist þar Fri for mobberi, og hefur gefið góða raun þar í landi. „Í Danmörku sýna kannanir það að Fri for mobberi hefur haft þau áhrif að einelti hefur minnkað í grunnskólum, en þau börn sem byrjuðu að vinna með verkefnið í leikskóla 2007- 2008 eru nú á miðstigi grunnskóla,“ segir Margrét.
Í viðtali í Fréttatímanum fyrir skömmu benti Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem hefur sérhæft sig í forvörnum gegn einelti, bæði í leik- og grunnskólum, á mikilvægi þess að hefja markvissar forvarnir gegn einelti strax í leikskólum. Nú, aðeins rúmu ári eftir að öllum leikskólum landins var boðið að taka þátt í Vináttuverkefninu hafa 76 tekið á móti Vináttutöskunni sem hefur að geyma kennslu- og verkefni handa börnum, foreldrum og starfsfólki leikskóla, en það eru um 30 prósent íslenskra leiksóla. Táknmynd verkefnisins er bangsinn Blær sem fylgir með töskunni og kemur alla leið frá Ástralíu.

Foreldrar settu reglur um afmælisboð
Það er mikið fjör á leikskólanum Læk þar sem Kristín Laufey Guðjónsdóttir aðstoðarleikskólastjóri tekur á móti blaðamanni. Hún hefur starfað á leikskóla í 20 ár og hefur því mikla reynslu af starfi með börnum. Ýmis mál hafa komið upp í gegnum tíðina sem hún hefur þurft að taka á og finnst henni því kærkomið að geta notað Vináttuverkefnin til að leysa vanda.
„Það koma upp samskiptaárekstrar í hópunum hjá okkur eins og gengur og gerist. En það er svo magnað hvað þetta verkfæri gefur okkur. Blær minnir börnin á að þau þurfa að vanda sig. Góð og heiðarleg samskipti skipta máli. Þau lesa ótrúlega vel í spjöldin og vita þetta allt. Við leiðum stundina áfram með vangaveltum þeirra og spurningunum sem eru aftan á spjöldunum. Við kennararnir þurfum líka að passa upp á að við séum góðar fyrirmyndir, hvernig við tölum við börnin, við hvert annað og um aðra,“ segir Kristín sem finnur líka jákvæðar breytingar á starfsfólkinu.
„Ég vil nefna eitt dæmi þar sem ég bauð foreldrum stelpuhóps á fund þar sem ég sá að samskipti stelpnanna voru ferleg. Við ræddum opinskátt um framkomu þeirra og líðan í hópnum. Þetta opnaði augu mæðranna sem áttuðu sig ekki beint á því sem var að gerast. Þær voru allar sammála um að samskiptin í hópnum væru slæm en gerðu sér ekki grein fyrir því að ein stelpan lenti oft fyrir utan hópinn. Þetta samtal okkar var mjög gagnlegt og sýnir glöggt hversu mikilvægt er að ræða opinskátt um vandamál og leita lausna.“
Kristín segir að foreldrar barnanna í Læk séu til fyrirmyndar þegar kemur að barnahópnum. Það er passað upp á að enginn sé skilinn út undan. Foreldrar eru opnir og samskiptin hreinskiptin og góð. Hún upplifir þakklæti foreldra með forvarnarvinnuna og mikil ánægja ríkir með vináttuverkefnið. Á kynningarfundi með foreldrum fengu foreldrar svo að gera raunhæf verkefni þar sem þeir tókust á við raunverulegar aðstæður. Allir fengu að segja sína skoðun og svo var komist að sameiginlegri niðurstöðu. „Foreldranir ákváðu meðal annars að setja reglu varðandi afmælisboð. Ef okkur tekst að virkja foreldrana þá kynnast þeir líka sín á milli. Stærstur hluti þessara barna fer í sama grunnskóla og þá er gott fyrir foreldrana að þekkjast.“

Opna á tilfinningar sínar
Kristín segir börnin miklu tilbúnari að opna á tilfinningar sínar í vináttustund heldur en til dæmis við matarborðið. „Þau hafa meiri styrk. Í hópnum ríkir virðing, börnin skipast á að tjá sig og allir fá tækifæri til að tala því hóparnir eru litlir og jafnræði ríkir. Allar skoðanir eru virtar og með því að kennarinn leiði umræðuna gefst tækifæri til að kafa dýpra. Vináttustundir eru trúnaðarstundir þar sem börnunum gefst tækifæri til að opna á samræður sem snúa að líðan, tilfinningum og upplifunum, þar skapast tækifæri til að segja frá því sem þeim liggur á hjarta. Þessar stundir gefa okkur kennurunum líka góða sýn á stöðu barnsins í hópnum.“
Kristín nær í nokkur börn úr elsta hópnum, sem fædd eru árið 2011. Þau ætla að eiga vináttustund með bangsanum Blæ. Ef það er ókyrrð í hópnum er gott að nota tónlistina sem fylgir vináttuverkefninu til að fá smá útrás. Þá er kannski dansað við bangsana undir fjörugu lagi. „Þegar hópurinn er tilbúinn þá byrjum við á því að taka eitt spjald eða lesum sögu með tilheyrandi spjalli. Við endum svo á því að taka nuddstund. Þá er lykilatriði að spyrja hvort þau megi nudda og svo auðvitað að þakka fyrir að nuddi loknu. Það kemur fyrir að einhver vill ekki láta nudda sig og það ber að virða,“ útskýrir Kristín
„Hugmyndin á bak við nuddið er sú að ef við sýnum öðrum umhyggju þá er líklegra að við fáum umhyggju til baka. Rannsóknir sýna að ef þú hefur sýnt einhverjum nærgætni og umhyggju og jákvæða snertingu þá ertu ólíklegri til að stríða honum,“ skýtur Margrét inn í.

Maður getur kysst á bágtið
„Velkomin í Blæstund,“ segir Kristín og stóri Blær knúsar börnin og alla litlu bangsana og býður börnin velkomin.
Kristín dregur eitt spjald úr töskunni sem taka á fyrir í stundinni. Á spjaldinu er mynd af fjórum börnum og einum kennara, en hluti barnanna virðist leiður.
„Það eru allir leiðir,“ segir prakkaralegur hnokki.
„Nei, það er einn glaður,“ grípur stúlka fram í.
„Þessi er að horfa á hana leiða,“ segir önnur.
„En hvernig líður þessum,“ spyr Kristín og bendir á brosandi strák á myndinni.
„Honum líður vel. Hann er brosandi.“
„Hvernig er maður góður vinur,“ spyr Kristín krakkana og ýmsar hugmyndir koma upp.
„Til dæmis þegar maður segir já þegar einhver biður mann að leika. Þá er maður góður vinur,“ útskýrir ein.
„Svo getur maður kysst á bágtið hjá einhverjum og sett plástur.“
„Hvernig líður ykkur þegar einhver er góður vinur?“ spyr Kristín.
„Vel,“ segja þau öll í kór. Alveg með það á hreinu.

Sýna umhyggju ef einhver grætur
Börnin á leikskólanum Bæjarbóli í Garðabæ ætla að ræða um umhyggju og hugrekki í sinni vináttustund. Rósa Berglind Arnardóttir aðstoðarleikskólastjóri tekur fram spjald með mynd af krökkum í leik. Börnin eru svolítið feimin, enda ekki vön því að hafa áhorfendur, en þau eru þó með öll gildin á hreinu.
„Hver ræður í leiknum?“ spyr Rósa.
„Allir,“ svara öll börnin í kór.
„Hvernig líður þeim sem vill ekki vera með í leiknum?“
„Illa,“ svara þau aftur í kór.
„Hvers vegna má ekki skilja útundan í leiknum?“
„Af því það er ljótt.“
„Hvað mynduð þið gera ef einhver væri skilinn útundan?“
„Hjálpa þeim. Leika við við þau.“
„En hvað getið þið gert ef ykkur finnst eitthvað erfitt í leiknum?“
„Sagt að við viljum hætta.“
„Og hvað segið þið ef einhver er að gera eitthvað við ykkur sem þið viljið ekki?“
„Stopp, kæri vinur. Ég vil þetta ekki.“
„Hvað gerir Blær?“
„Huggar okkur ef við erum að gráta.“
„En hvað getið þið gert ef einhver er að gráta?“
„Sýna umhyggju og ná í Blæ,“ segja þau öll í kór.
Þegar búið er að fara yfir spjaldið tekur við nuddstund og það er gaman að sjá hvað börnin eru dugleg að fylgja leiðbeiningum kennaranna um nuddið. En saga er lesin og þau nudda hvert annað í samræmi við það sem er að gerast í sögunni.
Áhrifamáttur bangsanna mikill
„Mér finnst þau tala miklu meira um að sýna umhyggju og virðingu í staðinn fyrir bara að hugga,“ segir Rósa, en hún hefur tekið eftir mjög jákvæðum breytingum á samskiptum barnanna eftir að Blær kom til sögunnar. „Það er líka svo auðvelt að grípa í spjöldin ef eitthvað kemur upp á og ræða það,“ bætir hún við.
„Áhrifamáttur þessara bangsa í verkefninu er í raun ótrúlegur þegar þeir eru notaðir með hugmyndafræði og gildi verkefnisins að leiðarljósi. Margar sögur væri hægt að segja af því. Þeir hjálpa börnunum við að tjá tilfinningar sínar, til að tengjast öðrum börnum og hjálpa félögum sínum og fleira. Börnin eru mjög ánægð með verkefnið í heild og ótrúlegur árangur af notkun þess. Börnin fara að þekkja tilfinningar sínar, þau sýna samkennd, hlýju og vináttu. Ný tengsl myndast í leik og gamlar mýtur um hverjir og hve margir geta leikið í einu brotna. Börnin læra að setja sér mörk og styðja félaga sína og verja,“ segir Margrét.
Vinátta er forvarnarverkefni gegn einelti og byggir á nýjustu rannsóknum á einelti og þeirri nálgun að einelti sé samfélagslegt mein en ekki einstaklingsbundið vandamál. Vinna þarf með skólabrag, samskipti og styrkleika barnanna strax í leikskóla og koma í veg fyrir að einelti nái að festa rætur og þrífast. Samkvæmt þeim rannsóknum sem Vinátta byggir á þrífst einelti í aðstæðum og umhverfi þar sem umburðarlyndi skortir gagnvart margbreytileikanum, gjarnan í umhverfi sem börn hafa ekkert val um að vera í og komast ekki burt úr, eins og skóla eða bekkjardeild.
Þegar tekist er á við þannig aðstæður er mikilvægt að að tryggja að allir komi út úr aðstæðum með reisn, en ekki séu búin til fórnarlömb og sökudólgar. Mikilvægt er að öll börnin fái tækifæri til að byggja upp sterka sjálfsmynd og samskiptahæfni og sé metin út frá eigin styrkleikum.
Það sem einkennir barnahópa þar sem einelti nær ekki að þrífast er hár þröskuldur umburðarlyndis. Þar er samkennd, börnin njóta virðingar og viðurkenningar. Þau finna sér sinn eðlilega sess í hópnum, sama hver þau eru, hvernig þau líta út, hvaða hlutverki þau gegna og hvers þau eru megnug. Gildi margbreytileikans er virt og umburðarlyndi fyrir því að hópurinn er samsettur úr mismunandi einstaklingum með mismunandi einkenni og mismunandi styrkleika.
Gildi Vináttu eru:
-Umburðarlyndi
Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu.
-Virðing
Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi. Að hafa skilning á stöðu annarra.
-Umhyggja
Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi.
-Hugrekki
Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.
Þegar leikskóli ákveður að gerast Vináttuleikskóli þarf starfsfólkið að byrja á því að sækja námskeið. Svo fær leikskólinn verkefnatösku þar sem er að finna efni handa börnum, foreldrum og starfsfólki leikskólans, auk kennsluleiðbeininga, þar sem jafnframt eru hugmyndir að frekari verkefnum. Hver leikskóli getur svo aðlagað efnið að sínu starfi og sérstöðu. Í töskunni er líka einn stór Blær bangsi og litlir bangsar fyrir hvert og eitt barn.
Blær er táknmynd vináttunnar í verkefninu. Blær minnir börnin á að gæta hvers annars vel og að vera góður félagi og hjálpar til við ýmis verkefni og faðmar, gleður og huggar börnin. Litlir bangsar fyrir hvert og eitt barn tákna samfélag Vináttu.
Myndir/Heiða