Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Viðburðarík verslunarmannahelgi

$
0
0
Stærsta ferðahelgi sumarsins er runnin upp. Á meðan sumir eru búnir að telja niður síðan um síðustu verslunarmannahelgi eru aðrir sem hafa lítið sem ekkert skipulagt. Það er hins vegar óþarfi að örvænta því hér er stiklað á stóru um hvað verður um að vera á öllum helstu útihátíðum landsins, stórum sem smáum, um helgina. Hvernig væri að skella sér í vatnasafarí á Úlfljótsvatni, furðubátakeppni á Flúðum eða í mýrarbolta á Ísafirði?

Innipúkinn í Reykjavík
Tónlistarhátíðin Innipúkinn hefur fest sig í sessi sem einn aðalviðburður verslunarmannahelgarinnar. Hátíðin í ár fer fram samtímis á tónleikastöðunum Húrra og Gauknum. Boðið verður upp á tónleika í bland við uppistand öll kvöldin þrjú og meðal þeirra sem koma fram eru Amabadama & Jakob Frímann Magnússon, Maus, Ylja, Sin Fang, Mammút, Samúel Jón Samúelsson Big Band og Bylgja Babýlons.      

22535 reykjavik mammút

Mammút er á meðal þeirra hljómsveita sem koma fram á Innipúkanum í ár.

Sæludagar KFUK og KFUM í Vatnaskógi
Skógarmenn KFUM ásamt KFUM og KFUK á Íslandi standa fyrir vímulausri fjölskylduhátíð um helgina. Dagskrá hátíðarinnar er í anda sumarbúðastarfs KFUM og KFUK og á að höfða til flestra aldurshópa, meðal annars bænastundir, kvöldvökur, íþróttaviðburði og tónleika þar sem Friðrik Ómar, Regína Ósk og Pétur Ben munu koma fram.

Flúðir um verslunarmannahelgina
Flúðir í Hrunamannahreppi iða af lífi um helgina og öll fjölskyldan ætti að finna viðburði við sitt hæfi. Á föstudag verður meðal annars Pub-Quiz í félagsheimilinu og dansleikur með Á móti sól. Á laugardag fer hin gríðarlega vinsæla og árlega furðubátakeppni fram á Litlu-Laxá. Um kvöldið verður Laddi með sýningu í félagsheimilinu og Stuðlabandið mun leika á dansleik fram eftir nóttu. Á sunnudagskvöldið mun Grétar Örvarsson stýra brekkusöng í Torfdal og afmælisdrengirnir í Sniglabandinu verða með stórhátíðardansleik í félagsheimilinu.

Fjölskylduhátíð á Úlfljótsvatni
Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni stendur fyrir hátíð þar sem fjölskyldan verður í fyrirrúmi. Allir eru, eins og alltaf, velkomnir á tjaldsvæðið og engin þörf á að vera skáti til að geta notið sín. Leikhópurinn Lotta, bogfimi, bátar, klifurturn, vatnasafarí, hoppukastalar, folf, varðeldar og skátasmiðjur er meðal þess sem er í boði.

22535 úlfljótsvatn

Bogfimi er meðal fjölda afþreyingar sem verður í boði á fjölskylduhátíð á Úlfljótsvatni um helgina.

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum
Gleðin ræður ríkjum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, en engin önnur útihátíð á sér sögulegri rætur. Fastir dagskrárliðir eru brenna á Fjósakletti á föstudagskvöldi, vegleg flugeldasýning á laugardagskvöldi, brekkusöngur og blys á sunnudagskvöldi. Herjólfur mun sigla allan sólarhringinn svo það er aldrei of seint að skella sér til Eyja!

Ein með öllu á Akureyri
Yfirbragðið hátíðarinnar er vinalegt og munu heimamenn og gestir taka virkan þátt í hátíðarhöldunum. Meðal vinsælla dagskrárliða eru fimmtudagsfílingur í göngugötunni með N4, kirkjutröppuhlaupið, óskalagatónleikar í Akureyrarkirkju, góðgerðaruppboð á Muffins í Lystigarðinum, 80´s Dynheimaball, Leikhópurinn Lotta, Ævintýraland að Hömrum, siglingar á pollinum, Tívolí, Paint Ball, söngkeppni barnanna að ógleymdum lokatónleikum og flugeldasýningu á sunnudagskvöldinu.
22535 ein með öllu akureyri

Unglingalandsmót UMFÍ á Akureyri
Börn og unglingar á aldrinum 10-18 ára taka þátt í 18. Unglingalandsmóti UMFÍ og stefnir í metþátttöku. Meðal keppnisgreina eru badminton, stafsetning og siglingar, en alls verður keppt í 29 greinum á mótinu og hafa þær aldrei verið fleiri. Afþreyingardagskrá mótsins er glæsileg og þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

22535 umfi akureyri

Síldarævintýri á Siglufirði
Ævintýri fyrir alla fjölskylduna. Síldarævintýrið nær hámarki um helgina en hitað hefur verið upp með sérstökum Síldardögum alla vikuna. Dagskráin er fjölbreytt og skemmtileg. Meðal annars verður boðið upp á sjóstangaveiði, golf, síldarhlaðborð, fjölda tónlistaratriða, auk þess sem Sirkus Íslands mun leika listir sínar.

Mýrarboltinn á Ísafirði
12. Evrópumeistarmótið í Mýrarbolta fer fram á Ísafirði undir yfirskriftinni „Drullaðu þér vestur“. Milli leikja munu Blaz Roca, Skítamórall, Retro Stefson, Rythmatic og Húsið á sléttunni halda uppi stuðinu í íþróttahúsinu á Torfnesi.22535 ísafjörður

Neistaflug í Neskaupstað
Sannkölluð fjölskyldustemning verður á Neistaflugi. Frítt er inn á hátíðarsvæðið og boðið verður upp á barnadagskrá og af afþreyingu fyrir unglingana og að sjálfsögðu nóg af skemmtun fyrir fullorðna fólkið. Bæjarbúar munu skreyta bæinn og fjölbreytt tónleikadagskrá verður öll kvöld. Meðal þeirra sem koma fram eru Valdimar, Sigga Beinteins, Todmobile og Í svörtum fötum.

The post Viðburðarík verslunarmannahelgi appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652