Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Ólafur Elíasson sýnir á Cycle

$
0
0

Cycle listahátíð verður haldin í fyrsta skipti í sumar, dagana 13. til 16. ágúst 2015 í Kópavogi. Hátíðin leiðir saman bæði stórstjörnur úr listaheiminum, eins og Ólaf Elíasson, Gjörningaklúbbinn og Simon Steen-Andersen, og rísandi stjörnur eins og Eyvind Gulbrandsen, strengjasveitina Skark og slagverkstríóið Pinquins. Á hátíðinni verður boðið upp á tækifæri til að kanna samruna og samskeyti listformanna, þar sem verkefnin á hátíðinni teygja anga sína út fyrir hið hefðbundna form. Fjóla Dögg Sverrisdóttir, framkvæmdarstjóri hátíðarinnar, segir undirbúning hafa staðið í eitt ár.

Alþjóðlegt listafólk sem allt getur talist frumkvöðlar á sviði nýrrar tónlistar, gjörningalistar, myndlistar, hljóðlistar og arkitektúrs kemur fram á Cycle listahátíðinni og vinnur saman að listsköpun sem hverfist þó alltaf. Hátíðin fer fram í Kópavogi dagana 13.-16. ágúst næstkomandi, og er Fjóla Dögg Sverrisdóttir framkvæmdarstjóri hátíðarinnar. „Tilurð hátíðarinnar helgast af því að hún Guðný Guðmundsdóttir, sem er annar tveggja listrænna stjórnenda hátíðarinnar, hefur haldið tónlistarhátíð unga fólksins í Kópavogi undanfarin ár,“ segir Fjóla Dögg. „Hún, í samstarfi við samstarfsaðila okkar í Bretlandi og Noregi, fékk styrk frá Menningaráætlun Evrópusamstarfsins og Cycle listahátíðin gengur út á það að tengja saman tónskáld í Evrópu við ákveðna tónlistarhópa. Þegar styrkurinn kom þá settumst við niður og ákváðum að gera eitthvað meira úr þessu og hugmyndin að þessari hátíð varð til,“ segir Fjóla. „Það er akkúrat ár síðan þessi styrkur barst og þá um leið hófst undirbúningur fyrir hátíðina og hefur staðið síðan. Við gengum inn á skrifstofu Kópavogsbæjar og töluðum við Örnu Schram, sem er forstöðumaður listhúsanna í bænum, og þau tóku okkur opnum örmum.“
Á Cycle listahátíðinni koma fram margir listamenn og ber þar helst að nefna Gjörningaklúbbinn, Pál Guðmundsson frá Húsafelli, Simon Steen-Andersen og Eyvind Gulbrandsen. Stærsta nafnið á hátíðinni er þó án efa Ólafur Elíasson. Fjóla segir það ekki hafa verið erfitt að fá hann til þess að vera með. „Ólafur lánar okkur verkið sitt Speglagöng, sem eru þrír speglar sem raðað er saman og áhorfandanum líður eins og hann sé staddur við göng,“ segir hún. „Tónskáldið Páll Ragnar Pálsson hefur svo samið verk fyrir strengjasveitina Skark, þar sem hann notar hugmyndir úr þessum skúlptúr í sitt verk, sem verður mjög gaman að upplifa,“ segir hún. Hátíðin fer fram á fjórum stöðum í Kópavogi, í Gerðarsafni, Salnum, gamla Kópavogsbænum og gamla Kópavogshælinu.
„Kópavogsbær var svo vingjarnlegur við okkur að þessi hús voru rýmd fyrir þessa hátíð, sem er stórkostlegt,“ segir Fjóla Dögg Sverrisdóttir, framkvæmdarstjóri Cycle listahátíðarinnar. Allar nánari upplýsingar er að finna á www.cycle.is

The post Ólafur Elíasson sýnir á Cycle appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652