Fleiri segjast ferðast utanlands í sumarfríinu í ár en í fyrra, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar MMR. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 41,6% ætla að ferðast utanlands í sumarfríinu og 10,3% sögðust eingöngu ætla að ferðast utanlands. Til samanburðar sögðust 38,2% ætla að ferðast utanlands árið 2013 og 7,2% sagðist eingöngu ætla að ferðast utanlands sama ár.
MMR spurði einnig um ferðalög innanlands og segjast nú færri ætla að ferðast hér á landi en í fyrra. Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar sögðust 73,8% ætla að ferðast innanlands í sumarfríinu, þar af sögðust 42,4% aðeins ætla að ferðast innanlands í sumarfríinu. Til samanburðar sögðust 83,1% ætla að ferðast innanlands árið 2014 og 52,1% sögðust eingöngu ætla að ferðast innanlands sama ár.
Fleiri sögðust ekki ætla að ferðast neitt í sumarfríinu en í fyrra. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 16,0% ekki ætla að ferðast neitt í sumarfríinu, borið saman við 9,7% í fyrra.
MMR greindi svörin einnig eftir stjórnmálaskoðunum þátttakenda. Þeir sem að sögðust styðja Samfylkinguna og Pírata voru líklegastir til að segjast ætla ferðast innanlands í sumar en stuðningsfólk Bjartrar framtíðar var líklegast til að segjast ætla að ferðast erlendis í sumarfríinu. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Samfylkinguna sögðust 82,0% ætla að ferðast innanlands í sumarfríinu og 78,3% þeirra sem studdu Pírata. Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Bjarta framtíð sögðust 55,0% ætla að ferðast erlendis í sumarfríinu.
The post Samfylkingarfólk og Píratar ferðast innanlands appeared first on FRÉTTATÍMINN.