Forsvarsmenn BDSM á Íslandi eiga í viðræðum við fulltrúa Samtakanna´78 og hafa óskað eftir því að tilheyra regnhlífasamtökunum, ekki síst til að geta betur komið fræðslu til ungmenna. Hinsegin dagar í samstarfið við BDSM á Íslandi stóðu fyrir málstofu í vikunni um hvort BDSM sé kynhneigð eða áhugamál. Ung kona sem situr í fræðslunefnd BDSM félagsins segir fólki hafa komið á óvart hversu mikil áhersla sé lögð á öryggi og samþykki í BDSM-leikjum. Hún segir fordómana enn gríðarlega og þekkir dæmi um að BDSM-hneigð hafi verið notuð gegn fólki í forræðisdeilu.
„Það sjónarmið að flokka skuli BDSM sem hneigð frekar en áhugamál hefur orðið sífellt meira áberandi í umræðunni hér á landi og á Norðurlöndunum. Þessi viðurkenning á BDSM-hneigð er því orðin eitt af helstu baráttumálum félagsins BDSM á Íslandi,“ segir Soffía sem situr í fræðslunefnd félagsins. Soffía er reyndar ekki hennar rétta nafn heldur það nafn sem hún gengur undir innan BDSM senunnar. „Ég hef enn ekki sagt fjölskyldu minni frá þessum hneigðum mínum, auk þess sem það ríkja enn miklir fordómar í garð BDSM-fólks. Þess vegna treysti ég mér ekki til að koma fram undir eigin nafni. Ekki enn,“ segir hún.

Soffía er í fræðslunefnd BDSM á Íslandi. Hún segir BDSM-hneigða mæta miklum fordómum í samfélaginu og því séu margir ekki tilbúnir til að ræða kenndir sínar opinskátt. Fræðsla sé því lykilatriði. Mynd/Hari
Málstofa í samstarfi við BDSM á Íslandi var hluti af Hinsegin dögum í ár. Um fjörutíu manns mættu á málstofuna sem var haldin á miðvikudag. Þar var fræðsla um hvað BDSM er og svo fjallað um þessa þróun í átt að viðurkenningu BDSM sem hneigðar. „Ljóst er að umræðan um þetta efni er þörf nú þegar BDSM hefur verið dregið meira fram í dagsljós dægurmenningarinnar á Íslandi,“ sagði í auglýsingu um málþingið.
Skýr rammi
Soffía segir mörgum fundargestum hafa komið á óvart hversu mikil áhersla er lögð á virðingu, öryggi og samþykki í BDSM. „Það er algjört grundvallaratriði að fólk tali saman áður en það stundar BDSM og fari yfir hvað má og hvað má ekki í leiknum. Þar er settur skýr rammi og ekkert er farið út fyrir hann. Oft sest fólk niður bæði fyrir og eftir leik til að fara yfir málin. Þá talar fólk um hvað því þótti vel heppnað, hvað hefði mátt betur fara og hvernig því leið á meðan á leiknum stóð,“ segir hún. BDSM á Íslandi stendur reglulega fyrir öryggis- og kynningarnámskeiðum til að auka líkur á að fólk gæti alltaf fyllsta öryggis.
Soffía er þrítug, hún hefur verið með unnusta sínum í tæplega 10 ár og halda þau heimili saman. Þar sem þeirra persónulegu þarfir samræmast ekki þá hafa þau brugðið á það að leita út fyrir hið hefðbunda sambandsform til að mæta þeim. „Ég er þá þar af leiðandi polyamorous eða fjölelskandi. Það þýðir að ég get átt í rómantísku og/eða kynferðislegu sambandi við fleiri en einn aðila, að öllum aðilum samþykkum,“ segir hún
Miklir fordómar
Hún bendir á að niðurstöður rannsókna sýni að fólk sem stundar BDSM upplifi það í sífellt meira mæli sem hneigð frekar en krydd í kynlífið. „Þá er einnig töluvert um að BDSM-hneigt fólk hafi fundið fyrir þessum kenndum löngu fyrir kynþroska. Þegar það horfir til baka áttar það sig á að það sótti sérstaklega í að fara til dæmis í sjóræningjaleik þar sem það var bundið við staur, eða í löggu-og-bófa. Leikirnir samræmast oft þeirra hneigð og þeim athöfnum sem það leggur stund á í dag án þess að hafa á nokkurn hátt tengt þetta við kynlíf á sínum tíma.“

Soffía er þrítug og polyamorous, eða fjölelskandi. Hún hefur verið með unnusta sínum í tæp 10 ár en þau leita bæði út fyrir sambandið.
Mynd/Hari
Hvað fordómana varðar segir hún þá sem eru BDSM-hneigðir í svipaðri stöðu og ýmsir hinsegin einstaklingar hafa verið í gegnum tíðina. „Fólk er oft ekki tilbúið til að ræða kenndir sínar út af þeim fordómum sem það getur mætt. Ég veit um dæmi þess að fólk fresti læknisheimsóknum því það sér á því eftir harðan BDSM-leik eða fer ekki í sund því það er marið. Samfélagið er komið svo stutt á veg með þetta. Ég hef líka heyrt ljótar sögur af því að fólk hafi misst vinnuna eftir að fréttir að það stundaði BDSM eða það jafnvel verið dregið fram í forræðisdeilu. Það er ekki eitthvað sem fólk vill hætta á,“ segir Soffía.
Þurfa að ná til ungmenna
Hún ákvað að gefa kost á sér í fræðslunefnd BDSM á Íslandi vegna brennandi áhuga á því að uppfræða. „Fræðsla er gríðarlega mikilvæg og sérstaklega er mikilvægt að unglingar fái fræðslu. BDSM tekur hins vegar ekki á móti fólki í félagið sem er undir 18 ára, ekki orðið lögráða, og það getur ekki komið á námskeið hjá okkur. Mjög margir finna fyrir þessum kenndum löngu fyrir 18 ára aldur og hefur því ekki aðgang að neinni fræðslu. Oft læra þeir því um BDSM með því að skoða klám á netinu og það gefur auðvitað kolranga mynd,“ segir Soffía. Til að reyna að koma fræðslu til unglinga hefur BDSM á Íslandi því horft hýru auga til Samtakanna´78 sem standa fyrir afar öflugu fræðslustarfi til allra aldurshópa. Þó samtökin hafi upphaflega verið stofnuð sem hagsmunasamtök samkynhneigðra hafa þau á síðustu árum þróast yfir í að vera regnhlífasamtök fyrir ýmsa hinsegin hópa, og á síðasta aðalfundi Samtakanna´78 var til að mynda bætt við undir regnhlífina intersex fólki, asexual og pankynhneigðum. „Okkur langar að komast undir þessa regnhlíf og standa yfir viðræður milli BDSM á Íslandi og Samtakanna´78 þar sem við kynnum okkar málstað. Þessar viðræður hófust síðasta vetur,“ segir hún en nokkra athygli vakti þegar BDSM á Íslandi var synjað um þátttöku í Gleðigöngunni í fyrra og sótti félagið ekki um að vera með í ár. „Forsvarsmenn Hinsegin daga komu síðan fram opinberlega og sögðust hafa hafnað okkur vegna þekkingarleysis. Það er ekkert útilokað að við verðum með seinna en það verður bara að koma í ljós hvort fólk hefur áhuga,“ segir hún.
Hvað er BDSM?
BDSM stendur fyrir bindingar, drottnun, sadisma og masókisma. Hugtakið nær yfir fjölbreytilegan heim samskipta, andlegrar skynjunar og líkamlegrar, sem og munalosta.
Erla Hlynsdóttir
erla@frettatiminn.is
The post BDSM-hneigðir vilja viðurkenningu appeared first on FRÉTTATÍMINN.