„Mig grunaði þetta engan veginn en hún var samt búin að vera óvenju döpur í nokkuð langan tíma,“ segir Rebekka Ýr Helgudóttir, formaður FAS, Félags foreldra og aðstandenda hinsegin fólks, en dóttir hennar kom út úr skápnum fyrir tveimur árum, þá 12 ára.
„Ég hafði töluverðar áhyggjur af því hversu döpur hún gat verið en hélt það væri jafnvel vegna þess að hún var nýbúin að skipta um skóla. Það var greinilega eitthvað að angra hana og ég fór með hana til læknis, en hugsaði ekkert út í að hún væri að velta þessu fyrir sér. En svo þegar hún sagði mér að hún væri samkynhneigð þá var bara eins og að það kviknaði ljós. Og ég var svo rosalega fegin.“
Rebekka hafði samband við FAS en þá hafði félagið ekki verið virkt í nokkur ár. „Það virðist sem þörfin fyrir félagið hafi ekki verið svo mikil en ég held að sú þörf sé að aukast því í dag eru krakkar að koma yngri út úr skápnum og það getur verið erfiðara fyrir foreldra. Jafnvel erfiðara en fyrir krakkana sjálfa. Það kvikna allskonar spurningar. Verða allir góðir við hana? Hvað verður um vinina? Hvernig mun skólinn taka á þessu? Hvað segir fjölskyldan? Verður erfiðara fyrir hana að fá vinnu? En þetta virðist ekki vera neitt mál fyrir þessa krakka. Það er enginn að spá í þetta. Annað hvort ertu hrifin af stelpum eða strákum og svo bara heldur lífið áfram,“ segir Rebekka og þakkar það meðal annars því góða starfi sem Samtökin ’78 hafa unnið. „Ég fór með dóttur mína á ungliðaballið hjá Reykjavík Pride stuttu eftir að hún kom út og þá kynntist ég mörgu góðu fólki sem vinnur ótrúlega mikilvægt starf. Í dag finnst mér þetta allt saman vera ekkert nema guðsgjöf. Ég er búin að læra svo margt og finnst ég bara rosalega heppin að eiga dóttur sem er hluti af þessum samtökum. Ég gæti ekki verið stoltari af stelpunni minni. Ég get ekki ímyndað mér hversu erfitt það er að þurfa að halda þessu leyndu. Að burðast með þetta einn inn í sér. Ég er svo ánægð með að hún hafi sagt okkur frá þessu.“
Ítarlegt viðtal við Rebekku er í Fréttatímanum um helgina.
The post Stolt af stelpunni minni þegar hún sagði mér að hún væri lesbía appeared first on FRÉTTATÍMINN.